Erlent

Meiri ógn af smá­bátum í Karíba­hafinu en Rúss­landi

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Sonur Donalds Trump er mikill áhrifavaldur innan MAGA-hreyfingarinnar þó engu embætti gegni.
Sonur Donalds Trump er mikill áhrifavaldur innan MAGA-hreyfingarinnar þó engu embætti gegni. AP

Donald Trump yngri, elsti sonur forsetans, ýjaði að því á ráðstefnu í Katar í dag að faðir hans gæti hætt stuðningi við Úkraínu. Hann hélt langan reiðilestur yfir stjórnvöldum í Kænugarði og viðleitni þeirra til að halda áfram að verja sig.

Donald Trump yngri var meðal gesta á ráðstefnu í Dóha, höfuðborg Katars, og nýtti tækifærið til að ausa formælingum á Evrópu og Úkraínu. Hann sagði spillta auðmannsstétt Úkraínu hafa flúið land og skilið „það sem þeir álíta leigubændur“ eftir í skotgröfunum.

Sjálfur er Donald Trump yngri gegnir ekki neinu embætti í ríkisstjórn föður síns en er áhrifamikill innan MAGA-hreyfingarinnar. Orðræða MAGA-liða í garð Úkraínumanna og viðleitni þeirra til að gefa ekki eftir ósanngjörnum kröfum Rússa hefur heldur súrnað undanfarið.

Forsetasonurinn er á meðal þeirra sem harðast ganga fram í þessum efnum. Æ ljósara hefur orðið á liðnum vikum að Bandaríkjastjórn leggur meira upp úr mögulegu arðbæru viðskiptasambandi við Rússland Pútíns en sjálfsákvörðunarrétti Úkraínumanna.

Hann sagði Vólódímír Selenskí Úkraínuforseta framlengja stríðið í von um að hljóta endurkjör í forsetaembættið en samkvæmt herlögum sem var lýst yfir í Úkraínu við upphaf stríðsins er ólögmætt að halda kosningu til nokkurs embættis. Selenskí sagði hann jaðra við guðdóm í hugum vinstrimanna sem er þó, að hans sögn, talsvert spilltari en Pútín Rússlandsforseti.

Sömuleiðis hafði hann Köju Kallas utanríkisráðherra Evrópusambandsins að skotspæni. Viðskiptaþvinganir Evrópu landa hafi engin áhrif önnur en að hækka verð á eldsneyti. Hann lýsti áætlun Evrópu felast í því að bíða eftir gjaldþroti Rússlands.

Bandaríkjunum stafi mun meiri hætta af umferð báta fíkniefnasmyglara frá Venesúela en nokkurn tímann Rússlandi Pútíns.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×