Viðskipti innlent

Fé­lögin þeirra högnuðust mest

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Félög þessara lista- og fjölmiðlamanna rötuðu á lista Viðskiptablaðsins yfir sameignar- og samlagsfélög sem högnuðust mest í fyrra.
Félög þessara lista- og fjölmiðlamanna rötuðu á lista Viðskiptablaðsins yfir sameignar- og samlagsfélög sem högnuðust mest í fyrra. Vísir

Félög Víkings Heiðars Ólafssonar, Hjörvars Hafliðasonar, Ara Eldjárn og fleiri lista- og fjölmiðlamanna eru meðal samlags- og sameignarfélaga sem skiluðu tugmilljóna króna hagnaði í fyrra.

Frá þessu er greint í samantekt Viðskiptablaðsins yfir þau samlags- og sameignarfélög sem högnuðust mest árið 2024. Í samantektinni eru meðal annars listar yfir lögmannsstofur, lækna, tannlækna og verktaka.

Á lista yfir hagnað og launagreiðslur félaga í eigu lista- og fjölmiðlamanna kennir ýmissa grasa. Dirrindí, félag Víkings Heiðars Ólafssonar og Höllu Oddnýjar Magnúsdóttur, trónir á toppnum en félagið skilaði 120 milljón króna hagnaði í fyrra og greiddi tólf milljónir í launagreiðslur. 

Doc Media slf., félag Hjörvars Hafliðasonar, er næstefst á lista með 52 milljónir í hagnað og 11 milljónir í launagreiðslur í fyrra.

Jónsson-bræður nánast jafnir

Félag Ara Eldjárn, Þolmynd slf., er skammt undan, skilaði 49 milljónum króna í hagnað og greiddi út átján milljónir króna í laun árið 2024. Bjarthöfði slf., félag Sólmundar Hólm, kollega hans, hagnaðist um 35 milljónir í fyrra og greiddi út 14 milljónir í laun.

Ætla má að þokkalegur hluti hagnaðar félaganna stafi af árlegu Áramótaskopi Ara og grínsýningunni Jóla Hólm en miðar á sýningarnar hafa selst í þúsundavís undanfarin ár. 

ÁKM slf., félag í eigu Bubba Morthens og Hrafnhildar Hafsteinsdóttur, eiginkonu hans, hagnaðist um 32 milljónir í fyrra og greiddi tólf milljónir í laun.

Tónlistarbræðurnir Jón og Friðrik Dór Jónssynir eru hlið við hlið á listanum með félögin JJMusic slf. og Saltprinsinn slf. en hvort tveggja greiddi út tíu milljónir króna í laun. Félag Jóns hagnaðist um 25 milljónir í fyrra en félag Friðriks 22 milljónir.

Samantektir yfir hagnaðarmestu samlags- og sameignarfélögin eftir stéttum má nálgast á vef Viðskiptablaðsins






Fleiri fréttir

Sjá meira


×