Erlent

Yfir­völd í Georgíu grunuð um efnavopnanotkun gegn mót­mælendum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Mótmælin í Tsibli hafa staðið yfir í um það bil ár en í dag kalla mótmælendur meðal annars eftir lausn þeirra sem voru handteknir á mótmælunum í fyrra.
Mótmælin í Tsibli hafa staðið yfir í um það bil ár en í dag kalla mótmælendur meðal annars eftir lausn þeirra sem voru handteknir á mótmælunum í fyrra. Getty/NurPhoto/Sebastien Canaud

Rannsóknir BBC og lækna í Georgíu benda til þess að yfirvöld í landinu hafi notað efnavopn sem notað var í fyrri heimstyrjöldinni gegn mótmælendum í fyrra.

Efnt var til mótmælanna eftir að stjórnvöld ákváðu að setja aðildarviðræður við Evrópusambandið á ís. Yfirvöld neita því að efnavopninu hafi verið beitt gegn mótmælendum.

BBC ræddi við sérfræðinga í efnavopnum, lækna og uppljóstrara innan óeirðarlögreglunnar í Georgíu um upplifun mótmælenda. Niðurstaðan var sú að efninu bromobenzyl cyanide hafi verið sprautað á mótmælendur úr vatnsbyssum.

Bromobenzyl cyanide var notað af Frökkum gegn Þjóðverjum í fyrri heimstyrjöldinni og var á þeim tíma kallað „camite“. Notkun þess var hætt á millistríðsárunum vegna áhyggja af langvarandi afleiðiðingum og táragasi beitt eftir það.

Barnalæknirinn Konstantine Chakhunashvili var meðal mótmælenda sem safnaðist saman fyrir utan þinghúsið í Tblisi og fékk á sig gusu úr vatnsbyssu. Hann segist í kjölfarið hafa upplifað þá tilfinningu að húð hans væri að brenna. Sú tillfinning hefði varað í marga daga og versnað ef hann reyndi að þrífa húðina.

Chakhunashvili ákvað að athuga hvort fleiri hefðu lent í því sama og um 350 einstaklingar höfðu samband. Nærri helmingur sagðist hafa upplifað aukaverkanir í allt að 30 daga, svo sem höfuðverki, þreytu, hósta og uppköst.

Læknirinn skoðaði 69 og komst að því að tíðni hjartsláttatruflana var meiri meðal þeirra en almennt gengur og gerist. Rannsókn Chakhunashvili hefur verið ritrýnd og mun birtast í tímaritinu Toxicology Reports.

Hér má finna ítarlega umfjöllun BBC.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×