Erlent

Fundurinn af­kasta­mikill en mikið verk fyrir höndum

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Marco Rubio með Rustem Umerov, sem stýrir þjóðaröryggisráði Úkraínu.
Marco Rubio með Rustem Umerov, sem stýrir þjóðaröryggisráði Úkraínu. AP

Marco Rubio, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir að fundur hans með úkraínskri sendinefnd um friðarsamkomulag milli Rússlands og Úkraínu hafi verið afkastamikill, en þó væri mikið verk enn fyrir höndum.

Fundurinn fór fram í Florida á sunnudaginn, en ásamt Rubio og úkraínsku nefndinni sat fundinn Steve Witkoff, sérstakur erindreki og samningamaður Bandaríkjastjórnar, og Jared Kushner, tengdasonur Donalds Trump.

Witkoff mun síðar í þessari viku funda með Vladímír Pútin Rússlandsforseta.

Rustem Umerov, sem stýrir þjóðaröryggisráði Úkraínu, fer nú einnig fyrir úkraínsku samninganefndinni, eftir að Andriy Yermak, helsti bandamaður Selenskí sagði af sér í kjölfar spillingarmáls.

Fundurinn kemur í kjölfar 28-liða friðaráætlunar sem Bandaríkjamenn kynntu fyrir tveimur vikum. Áætlunin þykir halla á Úkraínu að mati evrópskra ráðamanna.

Haft er eftir Marco Rubio á vef BBC að áætlunin snúi ekki bara að því að binda enda á átökin, heldur leggja línurnar fyrir farsæld Úkráinu til frambúðar.

Fram kemur að hann hafi sagt við úkraínsku sendinefndina að markmiðið með friðarviðræðunum við Rússa væri að sjá til þess að Úkraína verði áfram sjálfstæð og farsæl.

Rustem Umerov sagði eftir fundinn að verið væri að ræða framtíð Úkraínu, um öryggisráðstafanir, langvarandi frið í Úkraínu, og hvernig ætti að byggja landið upp á nýjan leik.

„Bandaríkin heyra til okkar. Bandaríkin styðja við okkur og vinna með okkur,“ sagði Umerov, og bætti því við að fundurinn hefði verið afkastamikill og góður gangur væri í viðræðunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×