Menning

„Djúp menning sem hefur átt sér stað og enginn telur sig á­byrgan“

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Andri Snær hefur setið á Jötunsteini í tvö ár, áður en bókin kom út á íslensku kom hún út í danskri þýðingu, í bandarísku tímariti og á ítölsku. Bókin er yfirlýsing, hróp til íslensks samfélags um að vakna og skipta um kúrs í húsnæðis- og mannvirkjauppbyggingu.
Andri Snær hefur setið á Jötunsteini í tvö ár, áður en bókin kom út á íslensku kom hún út í danskri þýðingu, í bandarísku tímariti og á ítölsku. Bókin er yfirlýsing, hróp til íslensks samfélags um að vakna og skipta um kúrs í húsnæðis- og mannvirkjauppbyggingu. Vísir/Vilhelm

Bókin Jötunsteinn eftir Andra Snæ Magnason er viðbragð við yfirstandandi uppbygingarskeiði sem höfundur lýsir sem „stóra lúffinu“.  Fólk sé ekki stolt af byggingum sem rísi á Íslandi líkt og áður fyrr heldur skammist sín ef eitthvað er. Ekki sé hægt að benda á sökudólga heldur sé ástandið afleiðing djúpstæðrar menningar. Jötunsteinn er hróp til fólks um að beygja af þessari leið.

Jötunsteinn er 128 síðna nóvella í litlu broti, með bláa kápu og myndskreytingar eftir Mána Snæ Þorláksson auk teikninga eftir Krads arkitekta sem hönnuðu tvö einbýlishús og tvær blokkir fyrir bókina. Þó um skáldskap sé að ræða skáldskap mætti einnig lýsa henni sem manifestói eða yfirlýsingu þar sem núverandi ástandi er mótmælt. 

„Ég er ekki öfgamaður, ég er bara venjulegur maður,“ segir arkitektinn Árni skömmu eftir að hann sleppir takinu af steyptum hellusteini sem flýgur í átt að bílrúðu á Land Rover verktaka nokkurs. Árni rekur síðan söguna af því hvernig hann, eins og allir aðrir, gáfu eftir og lúffuðu fyrir kröfum um meiri hraða, meiri gróða og minni fegurð. 

Ekki margir þekki vörulista BM Vallár

Blaðamann grunaði fyrst þegar hann sá titilinn Jötunstein og furðuveruna framan á bókinni að Andri væri að vinna í sögunni með norræna goðafræði líkt og hann hefur áður gert. Þegar lestur hefst reynist titillinn þó vísun í annars konar bókmenntir.

„Það eru ekkert margir sem þekkja vörulistann hjá BM Vallá,“ segir Andri og hlær. „Ég lagði bara miklu meira af jötunsteini heldur en fornsteinum.“

Sagan byggir þannig að hluta til á reynslu Andra af hellulagningum eitt sumar þegar hann var unglingur. Þar að auki er aðalpersónan, Árni, eins konar hliðarsjálf Andra, maðurinn sem Andri hefði kannski geta orðið í öðrum veruleika, hefði hann elt drauminn um að verða arkitekt.

Jötunsteinninn sækir innblástur í raunheima.

„Ég ætlaði að verða arkitekt en gerði það ekki af því það var niðursveifla og það var miklu praktískara að verða ljóðskáld,“ segir Andri og minnist ástandsins þegar hann var við nám í Háskóla Íslands veturinn 1993 til 1994. 

„Þá var verið að gera við Árnagarð að utan og sá sem var að brjóta múrinn utan á húsinu var rafmagns­verkfræðingur, það var svo lítið að gera. Það var engin ákvörðun praktísk á þessum tíma. Það var allt einhvern veginn glatað og ekkert nám sem gaf fyrirheit um að vera praktískt. Nema kannski læknisfræði sem ég féll í,“ segir hann.

„Ég var að hugsa um að verða arkitekt en en ég var samt líka einhvern veginn á því að að ég ætlaði aldrei að vinna innivinnu. Og eitt var öruggt, að ég myndi aldrei þurfa að nota ritvél. Hlutirnir fara stundum öðruvísi en maður ætlaði sér,“ segir Andri sem slapp þó við ritvélin þökk sé komu tölvunnar.

Fólk ekki lengur stolt af samtímanum

Sagan er, rétt eins og jötunsteinninn sem Árni kastar í bókinni, viðbragð við „stærsta uppbyggingarskeiði Íslandssögunnar í íbúðabyggingum og fermetrum talið.“  Uppbyggingin er mikil en stolt Íslendinga fyrir því sem rís virðist ekki mikið.

Andri rifjar upp bókina Reykjavík frá 1969 eftir listfræðinginn Björn Th. Björnsson sem fjallaði um borgina, staði hennar og mannvirki. Þar sjáist svart á hvítu stolt manna yfir samtímanum og þeim byggingum sem voru þá að rísa: Laugardalslaug, Sólheimablokkunum, Ásmundarsafni og einbýlishúsum á Laugarásveginum.

Jötunsteinn er eins konar yfirlýsing.Vísir/Vilhelm

„Þar er mikið stolt með þetta nýja Ísland sem við erum búin að vera að byggja fyrir okkur. Þarna er nýja Ísland enn glænýtt. Það eru nokkrar myndir úr miðbænum sem er bara mjög óhrjálegur og ekki einu sinni rómantískur. Allt þetta eftirsóknarverða er í Laugardalnum, nýjar stórar blokkir og tilfinning fyrir miklu stolti yfir því að vera samtíðarmaður þar,“ segir Andri.

„Þú ert samtíðarmaður einhvers og þú ert stoltur af samtíðarmönnum þínum sem eru að byggja framtíð.“

Byggingar sem rísi þessi dægrin kalli aftur á móti ekki fram slíkar tilfinningar. Jákvæð umræða og umtal heyrast sjaldan, fólk lýsir frekar yfir fantasíum um að sjá hús rísa í gamaldags timburhúsastíl eða nýklassískum stíl. 

„Það er verið að byggja á fullu en við erum ekki að byggja drauma.“

„Það er eins og við séum ekki stolt af þessu og eiginlega oft þvert á móti. Við horfum á þetta og hugsum: „Af hverju er þetta þarna? Af hverju snýr húsið svona? Af hverju lítur húsið svona út? Fyrir hvern var þetta hús byggt?“ Það er einhver firring í gangi og á sama tíma eru hús sem við þekkjum að hverfa,“ segir Andri.

„Við týnum sjálfum okkur“

„Þegar kennileiti hverfa þá hverfur einhver haldfesta. Bráðum fer Hekluhúsið líka, það er allavega búið að dæma það til dauða. Allt í einu býrðu einhvers staðar en þú veist ekki hvar þú býrð lengur, þú tapar áttum,“ segir Andri.

Hann tekur sem dæmi kennileiti á borð við Morgunblaðshúsið og Júpiter og Marshúsið sem hafa horfið á braut.

Morgunblaðshúsið var rifið fyrr á þessu ári.Vísir/Anton Brink

„Við týnum sjálfum okkur og maður getur ekki lengur bent börnum sínum á hús: „Þarna fór ég feiminn með ljóð handa Gísla í Lesbókinni. Eða þarna vann ég í fiski mörg sumur.“ Við erum að byggja svo mikið en erum ekki tengd við ákvarðanatökuna,“ segir hann.

Allt ferli byggingar er orðið firrt að mati Andra, frá skipulagsyfirvöldum til verktaka til hagsmunasamtaka og lánastofnana.

„Sveitarstjórnin gerir eitthvað og það er ekki mikið af opinberri umræðu um ákvörðunartökuna. Við byggjum hverfi fyrir tíu þúsund manns og það er ekki stór umfjöllun um hver bjó það til. eða hvað sú persóna var að hugsa,“

Sumir töldu sig græða en allir töpuðu

Jötunsteinn sprettur upp úr þessu ástandi sem hann lýsir en einnig reynslu Andra af því að hafa unnið mikið með arkitektum. Oft horfi hann á hús og velti fyrir sér hver hugsunin hafi verið og hverjir komu að ákvörðuninni.

„Ég hef hugsað stundum um mörg hús sem eru byggð, ekki bara blokkir heldur jafnvel raðhús: „Var einhver kona sem kom að ferlinu?“ Oft er þetta eins og einhver kallakarl hafi fengið úthlutaða lóð hjá kallakalli hjá sveitarfélaginu og kallakallað upp húsið af miklum dugnaði og hent síðan þverliggjandi bárujárni á það af hreinni praktík,“ segir Andri.

Kallakall kallar til kallakalla og þeir kalla fram kallahúsVísir/Vilhelm

Andri lýsir þessari tegund af skammsýnni sparsemi sem nægjusemi fyrir hönd annarra. 

„Menn eru mjög nægjusamir fyrir hönd annarra, en þegar þú ætlar að búa einhvers staðar sjálfur, þá viltu kannski taka aðeins betri kost af því þú veist þú ætlar að vera þarna í fimmtíu ár, eða allavega áratugi,“ segir hann.

Árni er með mikla drauma en hann lúffar alltaf. Höfum við lúffað?

„Hann lúffar og flýtur með straumnum. Og ekki bara hann heldur við sem samfélag. Það mætti segja að yfirskriftin yfir stærsta byggingarskeið Íslandssögunnar sé: „Stóra lúffið átti sér stað hér“. Sveitarstjórnarmenn lúffuðu og arkitektar lúffuðu, einhverjir græddu, einhverjir töldu sig hafa grætt, en í rauninni er niðurstaðan að allir töpuðu,“ segir Andri.

„Hver er gjöfin í húsinu?“

Andri er meðhöfundur nokkurra hönnunartillagna og kom að hönnun grunnskólans Krikaskóla í Mosfellsbæ. Í öllu samstarfi hans við arkitekta hafi alltaf verið ákveðin frumforsenda til grundvallar öllum byggingum: gjöfin í húsinu.  

„Við erum að byggja hús, það gat verið blokk, skóli eða jafnvel einbýlishús. Spurningin var alltaf: „Hver er gjöfin í húsinu? Hvað er húsið að gefa?“ Við getum alveg séð svona gjafir í húsum,“ segir Andri. 

Hann nefnir sem dæmi Sundaborgina en hlið þess sem vísar út á Sundabrautina er skreytt með lágmyndum. „Menn settu þær þangað sem gjöf af því þeir voru borgarar og vildu gefa eitthvað af þér. Þegar þú gefur þá er líklegt að þú fáir líka gjafir, því þannig eru samfélög,“ segir hann.

Sá sem gefur er vís til að fá gjöf til baka.Vísir/Vilhelm

Gjafir húsa geti verið ýmiss konar, til dæmis geti útlitið lyft upp ímynd hverfisins eða húsið innihaldið starfsemi sem auðveldar íbúum lífið. 

„Við höfum séð alltof mörg dæmi, þar sem er engin gjöf heldur hafi menn fengið sitt ítrasta og síðan hrifsað til sín einn óáþreifanlegan hlut til viðbótar. Þú færð allt en tekur í leiðinni eitthvað eitt í viðbót. Það getur verið útsýnið, sólin á gangstéttinni í þrjá mánuði á ári, gamli trjálundurinn eða græni veggurinn,“ segir hann.

„Þegar allir gefa, þá hafa allir fengið gjöf. En þegar allir taka, þá hefur allt í einu verið tekið frá öllum. Það er það sem hefur gerst í stóra lúffinu hjá okkur. Þetta er miklu dýpra heldur en að benda á stjórnmálamann, eitt verktakafyrirtæki eða einhvern annan. Þetta er mjög djúp menning sem hefur átt sér stað og enginn telur sig ábyrgan fyrir henni en allir geta bent á dæmi.“

Skynfærin óþörf þegar allt er grátt

Fegurð sé ekki bara útlit húss að sögn Andra, heldur líka hvernig það snýr, hvernig það er hugsað og hvort einhver hefur hugsað það til enda.

„Árni horfir á eitthvað húsið sem rís og spyr: „Af hverju lítur það svona út?“ Það lítur svona út vegna þess að tuttugu prósent af gæðunum, sem hefðu átt að vera í húsinu, er búið að fjarlægja. Þau liggja í hagnaði eða ávöxtunarkröfu einhvers,“ segir hann.

Andri hefur í aðdraganda útgáfunnar vakið athygli á ýmsum mannvirkjum sem honum finnst vanhugsuð. Til að mynda birti hann færslu í haust þar sem hann klóraði sér í kollinum yfir nýrri göngubrú yfir Sæbraut. 

Nú þegar blaðamaður rifjar þá gagnrýni upp dregur Andri aðeins í land, brúin hafi reynst algjörlega lífsnauðsynleg fyrir íbúa. Hins vegar stendur hann enn við gagnrýni á útlit hennar og rifjar upp orð Albínu Thordarson, arkitekts og dóttur Sigvalda: 

„Það er jafndýrt að byggja fallegt hús og ljótt.“

Þú birtir nýlega mynd úr Kórahverfinu sem hefði vel getað verið innblásturinn að Jötunsteini.

„Ég birti mynd úr Tröllakór þar sem þverliggjandi bárujárn liggur við þverliggjandi bárujárn með útsýni yfir bogadregið bárujárn. Og allt er grátt og allir bílarnir eru gráir,“ segir Andri sem velti fyrir sér í færslunni af hverju við fæddumst með öll þessi skynfæri.

„Eftir því sem sjónvörpin okkar stækka og það verður meiri litur þá fækkar litum í raunumhverfinu.“

Tröllakór: bárujárn, steypa og grámi.

„Það sem er alvarlegra er að það var glænýtt hverfi að rísa í Sunnusmára þar sem er ein róla á gervigrasi sem þjónar hverjum tvö hundruð íbúðum að minnsta kosti. Hafandi átt fjögur börn þá hefði ég hugsað mig alvarlega um að eignast annað barn ef ég hefði búið þarna,“ segir Andri.

Fyrir utan hvar slíkar aðstæður eru glataðar og fráhrindandi segir Andri slíkt vekja upp stóra spurningu: „Hefur einhver í Íslandssögunni alist upp við þessar aðstæður?“ 

„Við höfum öll verið með fjall, fjöru, tún, stillansa, polla, skurði eða þá bara bæ, róluvöll, skólavöll, mark og körfur. Höfum við einhvern tímann alið upp barn með tuttugu fermetra gervigras og rólu? Þetta er svona næstum því eins og í einhverjum Black Mirror-þætti,“ segir Andri.

„Leit einhver á þessa rólu sem gjöf? Eða var þessi róla þarna það síðasta sem stóð eftir þegar menn voru búnir að hrifsa til sín restina?“

Vildu byggja mjúkan grashól fyrir Landsbankann

Þegar Landsbankinn efndi til samkeppni um hönnun nýrra höfuðstöðva sinn við Reykjavíkurhöfn árið 2018 vann Andri að tillögunni Öndvegi ásamt arkitektastofunum Bjarke Ingels Group, Arkíteó og DLD. Hugmynd þeirra var ansi framúrstefnuleg.

„Bankasvæði eru oft mjög dauð eftir lokun. Bankahverfi í öllum heimshornum eru yfirleitt leiðinlegust hverfin í hverri borg þannig vandinn er að setja banka á svona mikilvægan stað. Svæðið var núþegar orðið þétt og lóðin hefði kannski þurft að vera útivistarsvæði eða einhvers konar Austurvöllur,“ segir Andri.

„Gæti bankinn verið útivistarsvæði, speglað Arnarhól og jafnvel verið viðkomustaður á sumarkvöldum,“ hafi þau hugsað með sér.

Svona hefði húsið litið hefðu Andri og félagar unnið.

„Við mynduðum hól á móti Arnarhóli og vildum alls ekki byggja klett á þessu svæði því Seðlabankinn er klettur og Harpan er kristall. Það þyrfti að vera eitthvað mjúkt, og við ætluðum ekki keppa við Hörpuna heldur draga okkur frá henni, reisn okkar fælist í auðmýkt,“ segir hann.

„Svo vann húsið sem hét Klettur, við mislásum þetta alveg. En ég ætla ekki að gagnrýna það. Þar eru menn allavega að reyna að gera eitthvað og ég held að fólki líði ágætlega sem vinnur þar.“

Húsnæði Landsbanka Íslands við Hörputorg. Vísir/Anton Brink

Óhræddur við samtímann og að taka slaginn

Andri er óhræddur við að takast á við samtíma sinn, auglýsingavæðinguna í Lovestar, stóriðjuna í Draumalandinu, loftslagsmálin í Tímanum og vatninu og nú byggingariðnaðinn í Jötunsteini. Andri segir samtímann sækja á hann.

„Það er nærtækt að nota bara það sem maður kann og hefur áhuga á. Ég held að Þorvaldur Þorsteinsson hafi sagt: „Taktu eftir því sem þú tekur eftir.“ Oft er það þannig að maður ætlar að skrifa um eitthvað annað en sveigist að þessum hlutum, það verður svo aðkallandi,“ segir Andri.

„Gott málefni er ekki sjálfkrafa góður skáldskapur og góð viðleitni er ekki sjálfkrafa góð list. Eitt það erfiðasta sem maður gerir er að koma með framlag inn í samfélagsumræðu sem er einhvers virði sem listaverk. Það er nóg að gera hvort tveggja samtímis þannig það er áskorun sem ég hef dregist inn í.“

Þú ert líka óhræddur að taka slaginn í samfélagsumræðunni. Mér líður eins og það sé árleg hefð að sjá þig taka slaginn við fólk um ritlaunakerfið.

„Það er meira svona að slagnum sé hent á mig,“ segir Andri þá.

Þú áttir líka í skeytasendingum við Viðskiptaráð í fyrra vegna afstöðu ráðsins til loftslagsaðgerða ríkisstjórnarinnar. Ertu svona baráttuglaður?

„Þau dæmi eru frekar ósigrar manns að fara í óvart inn á Twitter og svara einhverju. Það er ósiður sem ég hef reynt að hætta. En það gerist samt stundum að manni blöskrar og hrærir í eina grein. Oft hefur það gerst allt saman fyrir hádegi á fjórða kaffibolla,“ segir Andri.

Svo skammaðistu í íslenskum X-verjum fyrir að beinþýða MAGA-frasa

„Það var orðið mjög kvalafullt að sjá svona hráþýdd amerísk slagorð: „Tökum landið okkar til baka“.  Hvert ætlið þið að taka landið okkar, nær Evrópu eða nær Færeyjum? Hráþýddar hugsanir bara beint úr einhverjum amerískum hlaðvörpum,“ segir Andri.

„Um leið var það sett í þjóðernisbúning en það var einsog íslenski fáninn væri filter ofan á ameríska fánanum. Þetta var ekki þjóðerniskennd sem kom út úr einhverri ást á rímum, þjóðsögum eða landi heldur þjóðerniskennd á skrítnum stað. En nú vona ég að þetta verði ekki skrifað, þá espast þeir upp.“

Fengið staðfestingar frá fólki í byggingariðnaði

Andri er sannfærandi og rökfastur en samt kitlar það blaðamann að spyrja hvort ástandið sé virkilega svona slæmt, getur verið að hann sé bara orðinn íhaldssamari með áranum og fái útrás fyrir bölsýni í bókinni.

Andri segir bókina ekki bölsýna.Vísir/Vilhelm

„Hún er ekki bölsýn en hún er alveg tragíkómísk. Ég held því miður að hún hafi of mikinn hljómgrunn. Hún fangar eitthvað sem mjög margir hafa hugsað en ekki náð utan um. Síðan er þarft að tala miklu meira um hvernig við erum að byggja hluti,“ segir Andri.

„Ég hef fengið símtöl frá fólki á öllum sviðum byggingariðnaðarins sem segir mér að þetta sé nákvæmlega það sem þau eru að lenda í, nánast daglega. Síðan hafa arkitektar sent mér dæmi þar sem þeim tókst að lúffa ekki og sanna að falleg hús væru ekki dýrari,“ segir hann.

„Þetta er ekki bölsýn en þetta yfirlýsing, hróp á að við höldum ekki mikið lengra áfram í þessa átt. Það er alltaf von í því, von um að við munum hreyfa fólk í aðra átt.“

Fullkomin bók til endurhæfingar

Jötunsteinn er eins og áður segir í styttri kantinum, stutt nóvella eða löng smásaga. Blaðamaður er forvitinn að vita hvort Andra langaði ekki að taka söguna lengra, dýpka Árna og fara víðar um völlinn í skáldsöguformi.

„Hún vildi vera svona, þetta er vandræðalengd því hún er eins og hálf nóvella. Ég keypti um daginn bók eftir Nóbelskáld sem var fimmtíu blaðsíður. Hér heima er eins og bók þurfi að vera eitthvað ákveðið til þess að vera talin gild,“ segir Andri.

Bókin hefði í raun getað komið út fyrir tveimur árum en beið niðri í skúffu. „Svo kom hún út í Danmörku í vor, fékk frábærar viðtökur og mikinn hljómgrunn þar,“ segir hann.

Fyrsta bók Andra og sú síðasta, hannaðar af feðgunum Þorláki og Mána.

Eftir það birtist sagan í bandarísku tímariti og síðan kom hún út á Ítalíu. Andri vildi ekki gefa hana út sem hluta af smásagnasafni því þá hefði hún dáið. Yfirlýsingar séu markvissastar þegar þær fá að vera þéttar og stakar.

„Máni Snær, sonur Þorra sem hannaði fyrstu bókina mína, var búinn að gera bókverk í hönnunarnámi í Hag sem mér fannst svo fallegt og eigulegt. Þarna var minna verk orðið að einhvers konar bókverki. Þannig það var eiginlega hann sem bjargaði því að Jötunsteinn gat orðið að bók sem fer vel í hendi og er falleg,“ segir Andri.

Bókin sé sömuleiðis fullkomin til endurhæfingar fyrir þá sem eru dottnir út úr bóklestri.

„Ég heyri að margir ungir strákar hafi ekki upplifað gleðina af því að klára bók. Þannig að hún gæti verið ágætis endurhæfingarbók fyrir fólk sem vill komast aftur inn í bókmenntaheiminn og þjálfa sig upp. Þetta eru fyrstu fimm kílómetrarnir, skemmtiskokkið áður en þú ferð í Hallgrímsmaraþonið,“ segir hann að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.