Erlent

Skoða kosti geimstjórnstöðvar á norður­slóðum

Samúel Karl Ólason skrifar
Cecilie Myrseth, viðskipta- og iðnaðarráðherra Noregs, tekur í höndina á Josef Aschbacher, yfirmanni Geimvísindastofnunar Evrópu. Á myndinni eru einnig þau Christian Hauglie-Hanssen, yfirmaður Geimvísindastofnunar Noregs, og Simonetta Cheli, frá ESA.
Cecilie Myrseth, viðskipta- og iðnaðarráðherra Noregs, tekur í höndina á Josef Aschbacher, yfirmanni Geimvísindastofnunar Evrópu. Á myndinni eru einnig þau Christian Hauglie-Hanssen, yfirmaður Geimvísindastofnunar Noregs, og Simonetta Cheli, frá ESA. ESA - S. Corvaja

Forsvarsmenn Geimvísindastofnunar Evrópu (ESA) og ráðamenn í Noregi hafa skrifað undir viljayfirlýsingu um mögulega byggingu geimstjórnstöðvar á norðurslóðum. Nánar tiltekið stendur til að skoða kosti og galla þess að reisa slíka stöð nærri Tromsø.

Í tilkynningu frá ESA segir að norðurslóðir séu gífurlega mikilvægar þegar kemur að umhverfisvernd, efnahagsumsvifum og á sviði stjórnmála og samskipta ríkja.

Þar segir að hitastig fari hækkandi hraðar en annarsstaðar í heiminum og mikilvægt sé að vakta þær breytingar sem eru að eiga sér stað á norðurslóðum. Geimferðamiðstöð í Norður-Noregi myndi nýtast mjög til þess.

Í Tromsø eru fyrir ýmsar stofnanir og samtök sem varða norðurslóðir og þar á meðal er stjórnstöð fyrir veðurgervihnetti á norðurslóðum og þá hafa Norðmenn unnið að því að byggja upp geimferðastöð í Andøya herstöðinni, skammt frá Tromsø. Til stóð að loka geimstöðinni en þess í stað var ákveðið að fara í miklar fjárfestingar þar og breyta starfseminni.

Herstöðin á að vera mikilvægur partur í ætlunum norska hersins í geimnum.

Sjá einnig: Norðmenn líta til dróna og geimferða

Í frétt NRK er haft eftir Cecilie Myrseth, viðskipta- og iðnaðarráðherra, að stjórnstöðin muni skipta miklu máli þegar kemur að þróun innviða í geimnum og sérstaklega innviða varðandi samskipti, eftirlit og siglingar.

Þá muni stjórnstöðin spila stóra rullu í áframhaldandi uppbyggingu geimiðnaðar í Noregi.

ESA segir að skipaður verði vinnuhópur sem eigi að skoða málið og skila niðurstöðu í skýrsluformi fyrir lok næsta árs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×