Innlent

„Það er búið að vera steinpakkað“

Agnar Már Másson skrifar
Rosemary, sérfræðingur á bráðamóttökunni, bendir fólki á að fara varlega í hálunni. Mynd úr safni.
Rosemary, sérfræðingur á bráðamóttökunni, bendir fólki á að fara varlega í hálunni. Mynd úr safni. Vísir/Vilhelm

Bráðasérfræðingur mælir með notkun mannbrodda í óveðrinu á morgun, fimmtudag, en mikið álag hefur verið á bráðamóttökunni vegna hálkuslysa í dag. Hún biðlar til fólks að gefa sér tíma áður en það heldur af stað í vinuna á morgun.

„Það er búið að vera ansi mikið að gera,“ segir Rosemary Jones bráðasérfræðingur í samtali við Vísi um ástandið á bráðamóttökunni.

Hún segir að hið minnsta tuttugu hálkuslys hafi verið skráð á bráðamóttökunni, en tilfellin séu í raun fleiri þar sem hálkuslys séu oft ekki endilega skráð sem slík í kerfi spítalans þó að þau séu það.

Hálkuslys á höfuðborgarsvæðinu setja aukið álag á bráðamóttökuna.Vísir/Vilhelm

Samkvæmt rauntímaupplýsingum í Landspítalaappinu eru um 69 manns á bráðamóttöku í Fossvogi þegar þetta er skrifað upp úr klukkan 17 í dag. Þá hafa 139 komið við á bráðamóttökunni síðustu 24 klukkustundirnar, sem er 26 fleiri en í gær.

Með öðrum orðum: 

„Það er búið að vera steinpakkað,“ bætir Rosemary við, en hún er nýsjálensk að uppruna. 

Auk þess nefnir hún að löng bið hafi verið á Læknavaktinni í dag, um 5 til 6 klukkustundir. 

 Gefðu þér tíma í fyrramálið

Veðrið hefur þó verið með rólegara móti í dag en á morgun mega íbúar á Suðaustur- og Austurlandi aftur á móti búast við miklu hvassviðri og snjókomu og læknirinn biðlar til fólks að fara varlega.

„Við viljum endilega hvetja fólk til að fara varlega og gefa sér tíma í að komast í vinnuna,“ segir Maryjane. Hún biðlar til fólks að vera ekki að drífa sig úr húsi, þannig renni maður og detti.

„Og endilega nota mannbrodda,“ bætir hún við.

Að lokum bendir hún landsmönnum á að hringja í síma 1700 ef þeir vita ekki hvert þeir eiga að leita.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×