Innlent

Páll á­fram í leyfi en leggur fyrirhugaðri nýrri stofnun lið

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Páll Winkel er í leyfi frá störfum sem fangelsismálastjóri.
Páll Winkel er í leyfi frá störfum sem fangelsismálastjóri.

Páll Winkel verður áfram í leyfi frá störfum sem forstöðumaður Fangelsismálastofnunar en hefur tekið að sér vera fulltrúi félags- og húsnæðismálaráðuneytisins í verkefni um nýja Miðstöð um öryggisráðstafanir. Birgir Jónasson, sem hefur verið settur fangelsismálastjóri síðan Páll fór í leyfi í september í fyrra, verður áfram settur fangelsismálastjóri í ár til viðbótar.

„Ég hef fengið framlengingu á launalausu leyfi og er núna að vinna í sérverkefni hjá félagsmálaráðuneytinu,“ segir Páll í samtali við Vísi.

Sjá einnig: Vistaskipti hjá fangelsismálastjóra

Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, og Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarstjóri, undirrituðu viljayfirlýsingu á mánudaginn um að ríkinu verði tryggð lóð undir nýja fyrirhugaða stofnun, Miðstöð um öryggisráðstafanir, á landi Reykjavíkurborgar á Hólmsheiðarsvæðinu.

Stofnuninni verður ætlað að reka úrræði fyrir einstaklinga sem dæmdir hafa verið til þess að sæta öryggisráðstöfunum samkvæmt dómsúrlausn í samræmi við ákvæði almennra hegningarlaga, að því er fram kom í tilkynningu borgarinnar um málið. Þar á meðal eru einstaklingar sem lokið hafa afplánun en talið er að séu enn hættulegir samfélaginu. Páli bregður fyrir á mynd með fréttatilkynningunni og er þar titlaður sem fulltrúi félags- og húsnæðismálaráðuneytisins í verkefninu.

Birgir Jónasson staðfestir í samtali við Vísi að hann hafi fallist á að gegna áfram starfi fangelsismálastjóra á meðan Páll er í leyfi, en samkvæmt upplýsingum frá dómsmálaráðuneytinu var setning Birgis framlengd til 30. september á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×