Erlent

Höfða mál gegn nýju samfélagsmiðlabanni í Ástralíu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Áströlsk ungmenni yngri en 16 ára munu ekki geta stofnað aðganga á samfélagsmiðlum.
Áströlsk ungmenni yngri en 16 ára munu ekki geta stofnað aðganga á samfélagsmiðlum. Getty/Anna Barcley

Tveir unglingar hafa ákveðið, með stuðningi baráttusamtaka, að höfða mál gegn ástralska ríkinu vegna nýrra reglna sem kveða á um að samfélagmiðlar á borð við Facebook, Instagram, TikTok og YouTube, mega ekki leyfa einstaklingum undir 16 ára aldri að stofna aðganga.

Stjórnvöld segja bannið nauðsynlegt til að vernda börn gegn skaðlegum áhrifum samfélagsmiðla en Macy Neyland og Noah Jones segja það ganga gegn réttindum barna til frjálsrar tjáningar.

Stjórnvöld hafa brugðist við málsókninni og segjast munu standa föst fyrir; hvorki lögsóknir né hótanir af hálfu stórfyrirtækjanna muni hafa áhrif á bannið.

Forsprakkar lögsóknarinnar eru samtökin Digital Freedom Project og þingmaðurinn John Ruddick. 

Samtökin hafa bent á að ungmenni reiði sig á samfélagsmiðla fyrir upplýsingar og félagsleg samskipti og segja bannið munu koma sérstaklega niður á börnum sem eru í viðkvæmri stöðu, til dæmis fötluðum börnum, hinsegin börnum og börnum sem búa í dreifbýli.

Þau leggja til að gripið verði til annars konar aðgerða, til að mynda að fræða börn um notkun internetsins og neyða stóru tæknifyrirtækin til að standa sig betur í að tryggja að börn geti aðeins nálgast efni sem er við þeirra hæfi.

Samkvæmt áströlskum miðlum hafa forsvarsmenn Google, sem á YouTube, greint frá því að fyrirtækið sé að íhuga málsókn vegna bannsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×