Formúla 1

Svaka­leg spenna: Svona verður Norris heims­meistari á sunnu­daginn

Aron Guðmundsson skrifar
Lando Norris (fyrr miðju) er með örlögin í sínum eigin höndum í baráttunni við Oscar Piastri (til vinstri) og Max Verstappen (til hægri) um heimsmeistaratitil ökuþóra í Formúlu 1
Lando Norris (fyrr miðju) er með örlögin í sínum eigin höndum í baráttunni við Oscar Piastri (til vinstri) og Max Verstappen (til hægri) um heimsmeistaratitil ökuþóra í Formúlu 1 Vísir/Getty

Þrátt fyrir ófarir síðustu helgar getur Lando Norris, ökuþór For­múlu 1 liðs McLaren, orðið heims­meistari í mótaröðinni um komandi keppnis­helgi í Katar.

Eftir­málar síðustu keppnis­helgar í Las Vegas voru vægast sagt svaka­legir fyrir baráttuna um heims­meistara­titil ökuþóra. Báðir ökuþórar McLaren, þeir Lando Norris og Os­car Piastri, voru dæmdir úr leik þegar að bílar þeirra komust ekki í gegnum skoðun hjá Alþjóða akstursíþrótta­sam­bandinu sökum tækni­legs brots.

Til þess að gera illt verra stóð Max Ver­stappen, ökuþór Red Bull Ra­cing uppi sem sigur­vegari keppninnar og græddi því 25 stig á bæði Norris og Piastri.

Tvær keppnis­helgar eru eftir af yfir­standandi tíma­bili. Fyrri helgin er sprett­keppnis­helgi í Katar um komandi helgi og tíma­bilinu lýkur svo í Abu Dhabi í næstu viku.

Staðan í heimsmeistarakeppni ökuþóra:

1. sæti Lando Norris (McLaren) - 390 stig

2. sæti Oscar Piastri (McLaren - 366 stig 

3. sæti Max Verstappen (Red Bull Racing) - 366 stig

Eins og staðan er núna er Lando Norris með ör­lögin í sínum eigin höndum í baráttunni um heims­meistara­titilinn og 24 stiga for­skot á bæði Piastri og Ver­stappen. Að há­marki 58 stig eru í boði fyrir hvern og einn ökuþór það sem eftir lifir tíma­bils.

Norris er á höttunum eftir sínum fyrsta heims­meistara­titli, líkt og Piastri, og getur tryggt sér hann á sunnu­daginn kemur verði hann með 26 stiga for­skot að lokinni þeirri keppnis­helginni í Katar.

Til þess að það gerist mun hann þurfa að ná í tveimur stigum meira en Piastri og Ver­stappen saman­lagt úr sprett- og aðal­keppninni. Það gæti meðal annars gerst ef hann endar í einu af topp sex sætunum í sprett­keppninni og vinnur svo aðal­keppnina.

Piastri og Ver­stappen vonast hins vegar eftir því að Norris skriki fótur og þurfa að halda bilinu í Bretann innan 25 stiga og mega ekki við því að gera mistök.

Hollendingurinn fljúgandi, Ver­stappen, hefur verið á mikilli siglingu undan­farið og ein­hvern veginn komið sér í mögu­leika á að tryggja sér sinn fimmta heims­meistara­titil í flokki ökuþóra sem yrði magnað af­rek.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×