Körfubolti

Settu vafa­samt met fyrir tveimur árum en eru núna heitasta liðið í NBA

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Cade Cunningham er leiðtogi Detroit Pistons sem situr á toppi Austurdeildar NBA.
Cade Cunningham er leiðtogi Detroit Pistons sem situr á toppi Austurdeildar NBA. getty/Dylan Buell

Fyrir tveimur árum setti Detroit Pistons met þegar liðið tapaði 28 leikjum í röð. Nú er öldin önnur og Detroit er heitasta lið NBA-deildarinnar.

Detroit sigraði Indiana Pacers á útivelli í nótt, 117-122. Þetta var þrettándi sigur Pistons í röð en með honum jafnaði liðið félagsmet. Meistaraliðin 1990 og 2004 unnu einnig þrettán leiki í röð.

Cade Cunningham fór fyrir Detroit-liðinu í nótt, skoraði 24 stig, tók ellefu fráköst og gaf sex stoðsendingar. Caris LaVert skoraði nítján stig og Jalen Duran skilaði sautján stigum og tólf fráköstum.

Detroit vann aðeins fjórtán leiki tímabilið 2023-24 og tapaði 28 leikjum í röð eins og áður sagði. Á síðasta tímabili tók Pistons skref fram á við, vann 44 leiki og komst í úrslitakeppnina í fyrsta sinn síðan 2019.

Detroit er núna á toppi Austurdeildarinnar með fimmtán sigra og aðeins tvö töp. Aðeins meistarar Oklahoma City Thunder hafa unnið fleiri leiki í vetur (17).

Detroit getur slegið félagsmetið yfir flesta sigurleiki í röð þegar liðið sækir Boston Celtics heim á morgun.

Öllu verr gengur hjá Indiana sem var einum sigri frá því að verða meistari á síðasta tímabili. Pacers hefur aðeins unnið tvo af fyrstu sautján leikjum sínum og er í fjórtánda og næstneðsta sæti Austurdeildarinnar.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×