Formúla 1

Vinur Schumacher segir að al­menningur muni aldrei sjá hann aftur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Michael Schumacher vann heimsmeistaratitil ökuþóra sjö sinnum á glæsilegum ferli.
Michael Schumacher vann heimsmeistaratitil ökuþóra sjö sinnum á glæsilegum ferli. getty/Paul-Henri Cahier

Góður vinur Michaels Schumacher telur að þýski ökuþórinn muni aldrei sjást aftur opinberlega.

Fjölskylda Schumachers heldur spilunum þétt að sér og lítið er vitað um ástand Þjóðverjans sem lenti í alvarlegu skíðaslysi fyrir tólf árum.

Fáir fá að heimsækja Schumacher á heimili hans við Genfarvatnið í Sviss og Richard Hopkins, sem starfaði hjá McLaren og Red Bull, telur að fjölskylda heimsmeistarans sjöfalda komi ekki til með að slaka á þegar kemur að því að standa vörð um einkalíf hans.  

„Ég hef ekkert heyrt nýlega. Mér skilst að hann sé með finnskan lækni sem annast hann,“ sagði Hopkins.

„Ég held að við sjáum Michael ekki aftur. Það er svolítið óþægilegt fyrir mig að tala um stöðuna á honum vegna þess hversu lítið fjölskylda hans gefur út. Ég get tjáð sig, haft skoðun en er ekki í innsta hring. Ég er ekki Jean Todt, Ross Brown eða Gerhard Berger sem heimsækja Michael. Ég er langt frá því.“

Hopkins og Schumacher kynntust í upphafi 10. áratugar síðustu aldar. Hopkins starfaði þá fyrir McLaren en Schumacher keppti fyrir Benetton.

Schumacher, sem er 56 ára, varð tvisvar sinnum heimsmeistari með Benetton og svo fimm sinnum með Ferrari. Hann er sigursælasti ökuþór sögunnar ásamt Lewis Hamilton.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×