Handbolti

Var mjög langt niðri og gaf drauminn nærri upp á bátinn

Aron Guðmundsson skrifar
Lovísa Thompson er á leið á sitt fyrsta stórmót með íslenska landsliðinu
Lovísa Thompson er á leið á sitt fyrsta stórmót með íslenska landsliðinu Vísir/Hulda Margrét

Nú dregur nær fyrsta leik Ís­lands á HM kvenna í hand­bolta. Lovísa Thomp­son mun þar taka þátt á sínu fyrsta stór­móti en leiðin fram að því hefur verið þyrnum stráð og ein­setur hún sér að njóta hvers dags.

Ís­land hefur leika á HM, sem fer fram í Þýska­landi og Hollandi þetta árið, þann 26. nóvember næst­komandi gegn Þýska­landi en auk þessara liða eru lands­lið Serbíu og Úrúgvæ í riðli Ís­lands.

Segja má að veg­ferð lands­liðs­konunnar Lovísu Thomp­son fram að hennar fyrsta stór­móti hafi ekki verið eins og gengur og gerist hjá hinu hefðbundna lands­liðs­fólki. Vissu­lega hefur hún skarað fram úr, unnið titla og gert sig gildandi sem lykil­leik­maður í sínum liðum en erfið­leikar hafa einnig plagað hana.

Krefjandi meiðsli en einnig and­legt streð þar sem að hún fann ekki gleðina í hand­boltanum og tók sér pásu frá hand­bolta­iðkun. Eftir sigursælt tíma­bil hér heima og í Evrópu með kvenna­liði Vals á síðasta tíma­bili er Lovísa nú 26 ára gömul, á leiðinni á sitt fyrsta stór­mót með ís­lenska lands­liðinu, stærra gerist það varla.

„Maður þarf bara að njóta hvers einasta dags og fara ekki fram úr sér. Ekki vera með of háar væntingar, vera ró­legur og njóta þess sem maður er að gera því þetta er rosa­lega stórt og ótrú­lega gaman fyrir alla hand­bolta­menn að fá að taka þátt í svona verk­efni sama hvernig það verður. Ég er mjög spennt en líka með ekki of háar væntingar fyrir sjálfa mig aðal­lega. Ég vona bara að það gangi vel, að liðinu gangi vel og að þetta verði allt ljómandi gott.“

Var þetta draumur sem þú varst búin að gefa upp á bátinn?

„Já bæði og. Tvö ár af meiðslum og þá er maður mjög langt niðri. Síðasta ár gekk vel en byrjaði hægt, svo kemst maður á góðan stað. Á þessu tíma­bili er búið að ganga ágæt­lega og ég er að finna minn fyrri styrk. Þetta breytist svo hratt, maður getur ekki tekið þessu sem sjálfsögðum hlut og þess vegna þarf bara að taka einn dag fyrir í einu, njóta þess hvar maður er. Það er mottóið í þessu öllu saman.“

Og það að hafa gengið í gegnum þetta allt saman fær mann til að njóta meira eða hvað?

„Al­gjör­lega en maður þarf svolítið að minna sig á það. Maður á það til að detta í sama gamla farið að svekkja sig og pirra á hinu og þessu sem maður hefur ekki stjórn á. En í dag, með meiri þroska og reynslu, öllu sem því fylgir að verða eldri horfir maður bara öðrum augum á þetta, reynir að ein­blína á það jákvæða og njóta.“

Annað kvöld mætast Ís­land og Færeyjar í Þórs­höfn í æfingar­leik fyrir HM. Leiknum verður lýst í beinni textalýsingu hér á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×