Lífið

Þessi hús og lóðir hlutu fegrunar­viður­kenningar Reykja­víkur­borgar

Atli Ísleifsson skrifar
Reykjavíkurborg veitir árlega viðurkenningar fyrir lóðir sem eru til fyrirmyndar og vandaðar endurbætur á eldri húsum.
Reykjavíkurborg veitir árlega viðurkenningar fyrir lóðir sem eru til fyrirmyndar og vandaðar endurbætur á eldri húsum. Reykjavíkurborg

Fegrunarviðurkenningar Reykjavíkurborgar fyrir árið 2025 voru veittar við hátíðlega athöfn í Höfða í gær. Þrjár lóðir hlutu þar viðurkenningu fyrir að vera fyrirmyndarlóðir og þá fengu þrjú hús viðurkenningu fyrir vandaðar endurbætur á eldri húsum.

Það voru Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri og Hjálmar Sveinsson varaformaður umhverfis- og skipulagsráðs sem veittu viðurkenningarnar. 

Í tilkynningu segir að eftirfarandi þrjár lóðir hafi hlotið viðurkenningu fyrir að vera fyrirmyndarlóðir:

„Bergstaðastræti 83



Falleg hornlóð sem opnast í átt að göturýminu á horni Barónsstígs og Bergstaðastrætis. Lóðin er einstaklega vel hönnuð og fallegur, gróskumikill garður með rómantísku gróðurhúsi, tréhúsi og fjölbreyttum smáatriðum sem fegra nærumhverfið. Lágir garðveggir, vel klipptir runnar og stæðileg tré skapa dulúð og draga vegfarendur að.

Bergstaðastræti 83.

Arngrímsgata 5 – Eddan Hús íslenskunnar



Nýleg stofnanalóð þar sem sérstakt samspil byggingar og umhverfis skapar heildræna upplifun. Vatn með líparítið í botninum umlykur húsið og myndar sterk tengsl við íslenska náttúruna. Hringlaga cortensen stálhringir móta aðkomuna beggja vegna í hellulögn, skapa tengsl við líparítið og skapa heildarsýn sem flæðir út í göturýmið. Verönd er aðgengileg frá byggingu og flýtur á vatninu sem skapar fallegt uppbrot frá  mismunandi sjónarhornum. Lóðin er með fallegri lýsingu, bekkjum og aðgengileg. Aðkoma inn í bílastæðakjallara er vel leyst með girðingu og gróðri beggja megin og hún fellur vel inn í umhverfi sitt og verður hluti af heildarsamhenginu.

Eddan - Hús íslenskunnar.Reykjavíkurborg

Haukahlíð 5, Smyrilshlíð 2,4,6,8,10, Fálkahlíð 6 og Hlíðarfótur 11,13,15,17 (Fjölbýlishúsalóð)



Heildaryfirbragð inngarðsins og samhengi í litum og efnisnotkun almennt fellur vel að aðliggjandi húsum og skapar jafnvægi og ró. Sérafnotareitir eru snyrtilega afmarkaðir með hleðslusteinum og runnagróðri sem endurtekur sig í garðinum ásamt öðrum fallegum gróðri. Stígar, flæði og tengingar í garðinum eru skemmtilega sveigðir og í beinum línum og mynda hringflæði inn í garðinum og út í göturýmið. Lóðin er að hluta til upphækkuð við stígana og setsvæði er fyrir íbúa á sólríkum stað í garðinum.

Haukahlíð 5, Smyrilshlíð 2,4,6,8,10, Fálkahlíð 6 og Hlíðarfótur 11,13,15,17 (Fjölbýlishúsalóð).

Eftirfarandi þrjú hús hljóta viðurkenningu fyrir vandaðar endurbætur á eldri húsum:

Hljómskálinn



Hljómskálinn frá 1923, fyrsta bygging landsins sem sérstaklega var reist fyrir tónlistarstarfsemi, hefur á ný endurheimt fyrri fegurð. Á undanförnum árum hafa verið gerðar umfangsmiklar endurbætur sem hafa skilað húsi sínu upprunalega yfirbragði á glæsilegum stað í borgarlandslaginu.

Hljómskálinn.

Hellusund 3



Steinsteypuperla Þingholtanna frá 1917 þar sem vandaðar endurbætur síðustu ára hafa fært húsinu ferskt yfirbragð án þess að rýra upprunalegan karakter. Með endurnýjuðum gluggum, þaki og öðrum atriðum prýðir húsið Þingholtin og gleður vegfarendur.

Hellusund 3.

Laugalækur 3–25

Módernísk raðhús frá 1960 sem hafa fengið nýtt líf með endurbótum og litavali í anda sjötta áratugarins. Húsin hafa vakið athygli allra sem fara um Laugarneshverfið eftir að litir í anda 6. áratugarins komu á húsin. Það ásamt endurbótum á húsum hafa fegrað umhverfið til muna og orðið að einskonar kennileiti í Laugarnesinu.

Laugalækur 3–25.

Starfshópur fegrunarviðurkenninga 2025

Í starfshópnum sem gerði tillögu að viðurkenningum fyrir lóðir og hús árið 2025 sátu Bjarki Þór Wíum Sveinsson, sérfræðingur fyrir hönd Borgarsögusafns, Drífa Árnadóttir borgarhönnuður, Marta María Jónsdóttir landslagsarkitekt og Sólveig Sigurðardóttir arkitekt,“ segir í tilkynningunni. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.