Erlent

Selenskí heldur ró sinni og hyggst ræða við Trump

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Selenskí virðist hafa tekist að forðast gildru Rússa og tekið útspili þeirra með stóískri ró, að minnsta kosti út á við.
Selenskí virðist hafa tekist að forðast gildru Rússa og tekið útspili þeirra með stóískri ró, að minnsta kosti út á við. Getty/Eduardo Parra

Vólódimír Selenskí Úkraínuforseti hefur staðfest að honum hafi borist drög að friðarsamkomulagi sem samin voru af fulltrúum Bandaríkjanna og Rússlands.

Hann segist munu ræða drögin við Donald Trump Bandaríkjaforseta á næstu dögum.

Selenskí virðist hafa ákveðið að taka þróun mála á diplómatískan hátt, þrátt fyrir að drögin hafi verið gagnrýnd fyrir að uppfylla óskalista Rússa á kostnað Úkraínumanna. Forsetinn sagði í daglegu ávarpi sínu í gærkvöldi að Úkraína myndi ekki gera neitt til að skemma fyrir friðarferlinu.

„Úkraína þarfnast friðar og Úkraína mun gera allt til að enginn í heiminum geti haldið því fram að við séum að eyðileggja fyrir ferlinu. Það er mikilvægt,“ sagði forsetinn. Úkraínumenn myndu ekki senda frá sér vanhugsaðar yfirlýsingar.

Selenskí forðast þarna að falla í þá gildru að fordæma viðleitni Bandaríkjamanna, sem hefði eflaust bæði reitt Trump til reiði og gefið Vladimir Pútín Rússlandsforseta tilefni til að gagnrýna yfirvöld í Úkraínu og bandamenn þeirra og ásaka þá um að vilja ekki frið.

Aðrir embættismenn í Úkraínu hafa hins vegar fordæmt drögin harðlega, enda kveða þau á um að Úkraínumenn komi til móts við svo til allar kröfur Rússa. Þar á meðal má nefna eftirgjöf landsvæðis og stórfelld inngrip inn í sjálfræði Úkraínu.

Úkraínumenn þyrftu að lofa því að takmarka herafla sinn við 600 þúsund menn og samþykkja að ganga aldrei í Atlantshafsbandalagið. Þá myndi samkomulag fela í sér að engir erlendir hermenn yrðu staðsettir í Úkraínu, sem kæmi í veg fyrir friðargæslu í landinu.

Bent hefur verið á að Rússar virðist hafa átt frumkvæði að því að leggja fram umrætt samkomulag nú, þegar Selenskí er að glíma við viðkvæmt ástand heima fyrir vegna spillingarmáls. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×