Lífið

RAX hlýtur verð­laun Konung­lega ljósmyndafélagsins

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
RAX stillir sér upp fyrir framan verkið sitt.
RAX stillir sér upp fyrir framan verkið sitt. Listasafn Íslands

Ljósmyndarinn Ragnar Axelsson, betur þekktur sem RAX, hlaut verðlaun Konunglega ljósmyndafélagsins 2025 í flokkunum Umhverfisáhrif. Dómnefndin telja myndir hans sýna einstök tengsl íbúa á norðurslóðum og umhverfis þeirra. 

„Í hráum, svarthvítum ljósmyndum fangar hann frumstæða, mannlega reynslu af náttúrunni á jaðri hins lífvænlega heims og gerir sýnileg hin einstöku tengsl milli íbúa norðurslóða og harðneskjulegs umhverfis þeirra- tengsl sem nú eru að breytast á djúpstæðan og flókinn hátt vegna loftslagsbreytinga sem eiga sér engin fordæmi,“ segir í rökstuðningi dómnefndarinnar.

Konunglega ljósmyndafélagið er eitt elsta ljósmyndafélag heims og var stofnað árið 1853. Félagið veitir verðlaun ár hvert í hinum ýmsu flokkum, þar á meðal umhverfisáhrif, fréttaljósmyndun og heimildarmyndatöku.

RAX er einn þekktasti ljósmyndari Íslendinga en hann starfaði lengi vel hjá Morgunblaðinu auk þess að hafa ferðast út um allan heim til að taka myndir. Auk þess sem hann fangar náttúruna með ljósmyndum sínum hefur hann einnig tekið myndir af hinum ýmsu ráðamönnum.

Hann vinnur nú að því að taka ljósmyndir af lífi fólks í öllum átta löndunum á norðurslóðum og skoðar hvernig loftslagsbreytingar hafa áhrif á þau.

RAX fór yfir ferilinn sinn í þáttunum RAX - Augnablik sem hægt er að horfa á hér á Vísi. Sjáðu RAX - Augnablik hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.