Erlent

Enn og aftur til­kynnt um dróna í Dana­veldi

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Fjölmargar tilkynningar um torkennilega dróna í grennd við flugvelli hafa borist síðustu misserin og er lítið lát á.
Fjölmargar tilkynningar um torkennilega dróna í grennd við flugvelli hafa borist síðustu misserin og er lítið lát á. EPA/Steven Knap

Flugvellinum í Álaborg í Danmörku var lokað í gærkvöldi þegar menn töldu sig sjá dróna á flugi í grennd við völlinn.

Tilkynningin barst um klukkan tíu að staðartíma og var vellinum þá lokað samstundis. Rúmum klukkutíma síðar var umferð þó hleypt aftur á völlinn enda sáust engin frekari merki um slíka hluti á flugi. Lögregla rannsakaði svæðið síðan ítarlega í alla nótt og í morgun gaf lögreglustjórinn í Álaborg þær upplýsingar að ekkert hafi fundist sem bendi til þess að um raunverulega dróna hafi verið að ræða.

Þetta er enn eitt atvikið þar sem mögulegt drónaflug raskar flugumferð í Evrópu en slík atvik hafa verið mýmörg síðustu vikur og mánuði.

Grunur hefur beinst að Rússum eða útsendurum þeirra en í flestum tilvikum hefur ekki einu sinni veri hægt að sanna að um raunverulega dróna hafi verið að ræða, hvað þá hver sendi þá á loft.


Tengdar fréttir

Belgar kalla saman þjóðaröryggisráð vegna drónaflugs við flugvelli

Þjóðaröryggisráð Belgíu kemur saman til neyðarfundar í dag vegna drónaflugs við flugvelli í landinu sem röskuðu ferðaáætlunum farþega og hefur valdið áhyggjum af öryggismálum. Rússar eru sagðir „mjög líklega“ bera ábyrgð á sífjölgandi atvikum þar sem óvelkomnir drónar hafa verið á sveimi í evrópskri lofthelgi síðan um miðjan september.

Fá heimild til að skjóta niður dróna yfir herstöðvum

John Healey, varnarmálaráðherra Bretlands, mun greina frá nýjum aðgerðum til að sporna gegn drónum í ræðu í dag. Samkvæmt BBC mun hermönnum til að mynda verða veitt heimild til að skjóta niður dróna yfir herstöðvum.

Flogið á ný í München eftir mögulegt drónaflug

Flogið er á ný í München eftir að flugvellinum var lokað tvisvar sinnum á einum sólarhring vegna tilkynninga um drónaflug yfir vellinum. Ekki er búið að staðfesta hvaðan drónarnir komu. Lokunin kemur í kjölfar fjölda tilkynninga um drónaflug yfir flugvelli í Evrópu.

Tilkynnt um dróna yfir Keflavíkurflugvelli

Lögreglan hefur að minnsta kosti tvisvar á síðustu tveimur vikum brugðist við tilkynningu um dróna á sveimi við Keflavíkurflugvöll, annars vegar innan haftasvæðisins og hins vegar utan þess. Í báðum tilfellum fann lögreglan ekki meinta dróna. Lögreglustjóri segist samt ekki merkja nokkra fjölgun á slíkum atvikum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×