Körfubolti

Mark Cuban mættur aftur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 Mark Cuban var alltaf mjög lifandi og áberandi á hliðarlínunni í leikjum Dallas Mavericks .
 Mark Cuban var alltaf mjög lifandi og áberandi á hliðarlínunni í leikjum Dallas Mavericks . Getty/Ron Jenkins

Þeir sem söknuðu Mark Cuban frá hliðarlínunni í Dallas geta nú tekið aftur gleði sína.

Eftir að NBA-félagið Dallas Mavericks rak framkvæmdastjórann Nico Harrison á þriðjudag virðist félagið vera tilbúið í algjöra yfirhalningu. Menn ætla samt að kalla í mann úr fortíðinni

Mavericks ráku hinn umdeilda framkvæmdastjóra Nico Harrison, aðeins níu mánuðum eftir að liðið skipti hetjunni Luka Dončić til Los Angeles Lakers.

Stuðningsmennirnir hafa sungið síðan „Rekið Nico“ við hvert tækifæri og á endanum gáfust eigendur félagsins upp.

Harrison tók mikla áhættu með ákvörðunum sínum og þótt eigendurnir hefðu enn einhverja trú á framtíðarsýn Harrisons fyrir liðið varð hún sífellt ótrúverðugri með hverjum mánuðinum.

Harrison var eins og áður sagði líka orðinn algjört eitur í augum stuðningsmanna Dallas sem munu aldrei fyrirgefa honum fyrir að senda Dončić í burtu.

Sögusagnir eru nú um það Mark Cuban, minnihlutaeigandi Mavs sem Harrison ýtti í burtu frá félaginu, sé kominn aftur að borðinu. Þetta kemur fram hjá Sports Illustrated.

Cuban var allt í öllu í tvo áratugi eða eftir að hann keypti félagið og var frægari og jafnvel vinsælli en margir leikmenn liðsins.

Hann ákvað að selja meirihlutann í félaginu fyrir nokkrum árum en hélt áfram að stýra málum þar til að Harrison vildi losna við hann.

Það er líka von á róttækum breytingum á leikmannahópnum og stórar breytingar gætu verið í vændum í Dallas.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×