Viðskipti innlent

Nýr sam­einaður líf­eyris­sjóður verði með þeim stærstu

Eiður Þór Árnason skrifar
Stjórnendur telja að sjóðirnir verði sterkari saman. Lífsverk er í dag til húsa í Kauphallarhúsinu við Laugaveg í Reykjavík.
Stjórnendur telja að sjóðirnir verði sterkari saman. Lífsverk er í dag til húsa í Kauphallarhúsinu við Laugaveg í Reykjavík. Almenni/Vísir

Almenni lífeyrissjóðurinn og Lífsverk stefna að sameiningu eftir að sjóðfélagafundir beggja samþykktu tillögu þess efnis. Samruninn er háður samþykki Samkeppniseftirlitsins og staðfestingu fjármála- og efnahagsráðuneytisins á samþykktum sameinaðs sjóðs.

Gangi það eftir verður til fimmti stærsti lífeyrissjóður landsins með heildareignir upp á um 700 milljarða króna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá sjóðunum tveimur en sameinaður sjóður á að bera nafnið Almenni – Lífsverk, lífeyrissjóður og taka til starfa 1. janúar 2026.

Vilja nýta stærðarhagkvæmni

„Við erum þakklát fyrir góða þátttöku í kosningunum og traust sjóðfélaga,“ segir Eva Hlín Dereksdóttir, stjórnarformaður Lífsverks, í tilkynningu. „Niðurstaðan staðfestir að sjóðfélagar sjá tækifærin í sameiningunni og vilja að við nýtum stærðarhagkvæmni til að skapa þeim traust lífeyrisréttindi til framtíðar.“

Sigríður Magnúsdóttir, stjórnarformaður Almenna, tekur í sama streng. „Við erum mjög glöð með þessa niðurstöðu og þakklát fyrir stuðning sjóðfélaga. Með sameiningunni er stigið mikilvægt skref í átt að sterkari, skilvirkari og samkeppnishæfari lífeyrissjóði.“

Yfir áttatíu prósent hliðhollir

Stjórnarformaður nýja sjóðsins verður áðurnefnd Eva Hlín og Sigríður varaformaður. Framkvæmdastjóri verður Gunnar Baldvinsson og skrifstofa sjóðsins til húsa að Dalvegi 30 í Kópavogi. Lífsverk er í dag til húsa í Kauphallarhúsinu við Laugaveg í Reykjavík.

Kosið var um sameininguna í rafrænum kosningum og var metþátttaka hjá báðum sjóðum, að því er fram kemur í tilkynningu. Hjá Almenna lífeyrissjóðnum hafi 1.605 sjóðfélagar greitt atkvæði og 87% samþykkt tillöguna. Hjá Lífsverki hafi svo 81% samþykkt og 929 greitt atkvæði.

Nái aftur til ársins 1955

Sameinaði sjóðurinn á sér langar rætur og verður samsettur úr átta lífeyrissjóðum sem hafa runnið saman í gegnum tíðina, að sögn stjórnenda. Elstur þeirra sé Lífeyrissjóður verkfræðinga sem varð síðar Lífsverk og hann fengið starfsleyfi 29. apríl 1955.

Elstur forvera Almenna lífeyrissjóðsins sé Lífeyrissjóður Tæknifræðingafélags Íslands sem hafi verið stofnaður 4. maí 1965. Aðrir lífeyrissjóðir sem hafi sameinast í Almenna – Lífsverk séu: ALVÍB, Lífeyrissjóður arkitekta, Lífeyrissjóður Félags leiðsögumanna, Lífeyrissjóður FÍH, Lífeyrissjóður Lækna, og Lífeyrissjóður starfsmanna SÍF.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×