Körfubolti

„Heimsku­leg taktík hjá mér“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Pekka Salminen viðurkenndi að hafa lagt leikinn vitlaust upp.
Pekka Salminen viðurkenndi að hafa lagt leikinn vitlaust upp. vísir/hulda margrét

Pekka Salminen stýrði íslenska kvennalandsliðinu í körfubolta í fyrsta sinn í kvöld. Ísland tapaði þá fyrir Serbíu, 59-84, í undankeppni EM 2027. Finninn var ánægður með hvernig íslenska liðið kláraði leikinn.

Ekki blés byrlega fyrir Íslendingum eftir þrjá leikhluta og allt stefndi í stórtap, enda 34 stigum undir, 38-72. En íslenska liðið reis þá upp á afturlappirnar og vann 4. leikhlutann, 21-12, og lagaði erfiða stöðu verulega.

„Við vorum að gera annað en við áttum að gera í fyrri hálfleik. Við gerðum taktíska hluti sem henta okkur ekki. En í seinni hálfleik byrjuðum við að spila eins og við eigum og viljum gera og ég er ánægður. Ungu leikmennirnir stigu upp,“ sagði Pekka í leikslok.

Íslenska liðið var í verulega miklum vandræðum framan af leik og það serbneska hafði talsverða yfirburði. Pekka tekur sökina á sig.

„Þetta var heimskuleg taktík hjá mér. Það var mín ákvörðun að við skyldum spila svolítið öðruvísi en við ættum að gera. Við vorum ekki vissar hvað við ættum að gera fyrstu 25 mínúturnar en svo spiluðum við mun betur,“ sagði Pekka.

Hann hrósaði nýliðanum Rebekku Rut Steingrímsdóttur, sem stóð fyrir sínu í fyrsta landsleiknum, og Sigrúnu Björg Ólafsdóttur sem spilaði vel á sínum heimavelli.

„Þær báðar voru algjörlega frábærar. Ég sá Rebekku spila á EM U-20 ára og hún kom mér ekki á óvart,“ sagði Pekka.

Næsti leikur Íslands er gegn Portúgal ytra á þriðjudaginn.

„Við þurfum að spila eins og við spiluðum síðasta stundarfjórðunginn. Við viljum hlaupa og sækja inn í teiginn í staðinn fyrir að labba með boltann fram völlinn eða eitthvað sem við getum ekki gert,“ sagði Pekka að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×