Innlent

Happ­drætti Há­skólans sýknað af tug­milljóna kröfu Catalinu

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Málið sneri að rekstri spilakassa á Catalinu.
Málið sneri að rekstri spilakassa á Catalinu. Vísir/Baldur Hrafnkell

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði Happdrætti Háskóla Íslands af 47 milljóna kröfu veitinga- og skemmtistaðarins Catalinu. Málið laut að þóknun fyrir rekstur spilakassa á veitingastaðnum. Rekendur Catalinu höfðu samið um að þóknunin næmi 1,6 prósentu af veltu vélanna en í ljós kom að hlutfallið næmi tveimur prósentum hjá öðrum rekstraraðilum og Catalina krafðist að fá greiddan mismuninn.

Fyrir lá samningur sem Happdrætti Háskóla Íslands og Catalina gerðu árið 2018 þar sem kveðið er á um 1,6 prósent þóknun fyrir umsjón vélanna. Áður hafði rekstur vélanna á staðnum verið í höndum annars aðila sem samdi á sínum tíma um tveggja prósenta þóknun. Þegar Catalina tók við umsjón vélanna var samið um 1,6 prósenta þóknun.

Misræmi milli samninga

Samkvæmt héraðsdómi eru í gildi 22 samningar Happdrættis Háskóla Íslands við ýmsa aðila um rekstur spilakassa. Í 20 af þeim er samið um að þóknun rekstraraðila nemi 1,6 prósentum af brúttóveltu en í tveimur um að hún nemi tveimur prósentum af brúttóveltu. Samningarnir þar sem kveðið er á um síðarnefnda hlutfallið eru frá árunum 2006 og 2010. Í flestum tilvikum er kveðið á um tveggja mánaða gagnkvæman uppsagnarfrest aðila, þar á meðal í samningi stefnda við stefnanda.Á árunum 2011‒2024 gerði stefndi 18 samninga við rekstraraðila, ýmist nýja samninga eða breytta samninga. Í þeim öllum er kveðið á um að hlutfallið sé 1,6 prósent.

Catalina hélt því fram að félaginu hefði verið mismunað á þessum grundvelli. Málflutningur Catalinu byggði á því að Happdrætti háskólans væri opinber aðili og væri því bundið af jafnræðisreglunni og réttmætisreglunni. Þar sem þjónustan væri sú sama ætti þóknunin sömuleiðis að vera sú sama.

Happdrætti Háskóla Íslands hafnaði þessu alfarið og hélt því fram að um frjáls einkaréttarleg viðskipti væri að ræða og að hvor aðilinn sem er hefði getað sagt samningnum upp með tveggja mánaða fyrirvara. Sömuleiðis benti Happdrætti háskólans á að frá árinu 2011 til dagsins í dag hafi allir samningar kveðið á um 1,6 prósenta þóknun og að þeir samningar upp á tveggja prósenta þóknun og væru enn í gildi hefðu verið samdir við aðrar aðstæður. Félaginu bæri engin skylda að veita samningsaðilum sömu kjör og eldri samningar kváðu á um.

Catalinu frjálst að segja samningnum upp

Héraðsdómur gekkst við málflutningi Catalinu að því leyti að meginreglur stjórnsýsluréttar um jafnræði og málefnaleg sjónarmið giltu um Happdrætti Háskóla Íslands en taldi ekki að Catalina hefði sýnt fram á að brotið hefði verið á þessum reglum, enda hefði það sýnt fram á samræmda framkvæmd samninga frá árinu 2011. Sömuleiðis taldi dómurinn að Catalina hefði haft raunhæfan möguleika á að segja samningnum upp teldi fyrirtækið hann ósanngjarn, en það hefði það ekki gert.

Af þessum ástæðum sýknaði dómurinn Happdrætti Háskóla Íslands af kröfum Catalinu en taldi rétt að hvor aðilinn bæri sinn kostnað af málinu í ljósi vafaatriða. Dóminn má lesa í heild sinni hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×