Fótbolti

Logi á toppnum en Hákon á bekknum

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Logi Tómasson og félagar í tyrkneska liðinu Samsunspor tylltu sér á toppinn í Sambandsdeildinni. 
Logi Tómasson og félagar í tyrkneska liðinu Samsunspor tylltu sér á toppinn í Sambandsdeildinni.  Recep Bilek/Anadolu via Getty Images)

Fjöldi leikja fór fram síðdegis í Sambandsdeildinni og Evrópudeildinni, íslenskir landsliðsmenn komu við sögu á ýmsum stöðum en þónokkuð margir voru í minna hlutverki en vanalega.

Logi hélt hreinu

Logi Tómasson fagnaði 3-0 sigri með Samsunspor gegn Hamrun í Sambansdeildinni. Logi byrjaði leikinn í vinstri bakvarðarstöðunni en var tekinn af velli þegar tæpar tíu mínútur voru eftir.

Samsunspor tyllti sér þar með í toppsætið, með fullt hús stiga og +7 markatölu. 

Hákon á bekknum

Hákon Arnar Haraldsson var á bekknum hjá Lille en spilaði síðustu tíu mínúturnar í 1-0 tapi á útivelli gegn Rauða Stjörnunni í Serbíu.

Hákon er alla jafnan byrjunarliðsmaður, fremstur á miðju með Oliver Giroud fyrir framan sig, en liðið tók töluverðum breytingum í þessum leik. Ngal‘ayel Mukau byrjaði í stað Hákons og Hamza Igamane var fremsti maður í stað Giroud.

Hinn austurríski Marko Arnautovic skoraði eina mark leiksins úr vítaspyrnu á 85. mínútu.

Elías fagnaði sigri

Elías Rafn Ólafsson fagnaði 3-1 sigri með danska liðinu Midtjylland gegn skoska liðinu Celtic í Evrópudeildinni. Landsliðsmarkmaðurinn stóð sig vel milli stanganna og hefði líklega haldið hreinu, en Midtjylland gaf frá sér vítaspyrnu undir lok leiks sem Reo Hatate skoraði úr og klóraði í bakkann.

Íslendingalaus Íslendingaslagur

Íslendingaliðin Malmö og Panathinaikos mættust í Evrópudeildinni og gríska liðið fór með 0-1 sigur. Enginn Íslendingur kom þó við sögu. Rafa Benítez lét Sverri Inga Ingason sitja á bekknum allan leikinn og sömu sögu er að segja af Daníel Tristani Guðjohnsen, leikmanni Malmö.

Enginn Albert með Fiorentina

Albert Guðmundsson var ekki með Fiorentina í 2-1 tapi á útivelli í Sambandsdeildinni gegn þýska liðinu Mainz. Albert er staddur hér á landi og mætti fyrir Landsrétt í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×