Íslenski boltinn

Pálmi í ó­tíma­bundið leyfi

Sindri Sverrisson skrifar
Pálmi Rafn Arinbjörnsson og Ingvar Jónsson vörðu mark Íslandsmeistara Víkings í ár og hömpuðu meistaraskildinum í lokin.
Pálmi Rafn Arinbjörnsson og Ingvar Jónsson vörðu mark Íslandsmeistara Víkings í ár og hömpuðu meistaraskildinum í lokin. vísir/Anton

Pálmi Rafn Arinbjörnsson, markvörður Íslandsmeistara Víkings, er kominn í ótímabundið leyfi frá fótbolta að eigin ósk.

Þetta staðfestir Kári Árnason, yfirmaður fótboltamála hjá Víkingi, við Fótbolta.net í dag.

Pálmi, sem verður 22 ára síðar í þessum mánuði, kom til Víkings fyrir tveimur árum eftir að hafa verið á mála hjá enska félaginu Wolves en hann hóf feril sinn hjá Njarðvík.

Þessi efnilegi markvörður lék átta leiki í Bestu deildinni í sumar og einnig Evrópuleikina tvo við Bröndby, þar sem Víkingur vann 3-0 í fyrri leiknum en tapaði svo 4-0. Eftir seinni leikinn, 14. ágúst, missti Pálmi sæti sitt í byrjunarliðinu aftur til Ingvars Jónssonar sem kláraði tímabilið í marki Víkinga.

Víkingar hafa nú hafið leit að markverði í stað Pálma sem óskaði eftir leyfinu af persónulegum ástæðum. Kári segir ákvörðun Pálma koma á óvart og reiknar ekki með að hann spili með Víkingi á næstu leiktíð:

„Maður á aldrei að útiloka neitt, en mér þykir það mjög ólíklegt. Það er ekki nema að hann skipti um skoðun fyrir janúar, sem ég sé ekki að gerist, en aldrei að segja aldrei,“ segir Kári við Fótbolta.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×