Innlent

Meiri­hluti stjórn­mála­sam­taka í van­skilum með árs­reikning

Kjartan Kjartansson skrifar
Samfylkingin hefur enn ekki skilað ársreikningi fyrir árið 2024, einn flokka á Alþingi.
Samfylkingin hefur enn ekki skilað ársreikningi fyrir árið 2024, einn flokka á Alþingi. Vísir/Anton Brink

Aðeins tæpur fimmtungur stjórnmálasamtaka skilaði ársreikningi til Ríkisendurskoðunar á tilskildum tíma um mánaðamótin. Samfylkingin er eini flokkurinn á Alþingi sem er í vanskilum.

Stjórnmálasamtökum bar að skila ársreikningi til Ríkisendurskoðunar fyrir 31. október. Nú viku síðar hafa aðeins átján samtök skilað gögnunum inn en 81,2 prósent þeirra eru í vanskilum.

Af flokkunum sex sem eiga sæti á Alþingi er Samfylkingin sá eini sem hefur enn ekki skilað ársreikningi. Rakel Pálsdóttir, framkvæmdastjóri flokksins, segir í samtali við Vísi að unnið sé hörðum höndum að því að taka til síðustu upplýsingarnar og að ársreikningi samstæðunnar verði skilað á allra næstu dögum.

Enginn flokkanna fimm sem buðu fram í síðustu alþingiskosningum en náðu ekki sæti virðast hafa skilað inn ársreikningi fyrir síðasta ár. Sósíalistaflokkurinn, Píratar og Vinstri græn eru á vanskilalistanum en ekkert kemur fram um skil Ábyrgrar framtíðar eða Lýðræðisflokksins. 

Meirihluti þeirra samtaka sem ekki hafa skilað ársreikningi eru landshlutadeildir stjórnmálaflokkanna.

Vanskil stjórnmálasamtaka voru 63,2 prósent fyrir árið 2023 og 61, 8 prósent árið 2022 samkvæmt tölum Ríkisendurskoðunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×