Sport

Nær sínu 33. tíma­bili sem at­vinnu­maður

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Venus Williams sést hér á Opna bandaríska meistaramótinu í september.
Venus Williams sést hér á Opna bandaríska meistaramótinu í september. EPA/SARAH YENESEL

Bandaríska tenniskonan Venus Williams stefnir á að keppa sitt 33. tímabil í röð á WTA-mótaröðinni og hefja leik í Auckland í janúar.

Skipuleggjendur ASB Classic-mótsins á Nýja-Sjálandi sögðu á miðvikudag að hin 45 ára Williams myndi taka þátt í mótinu sem fer fram 5. til 11. janúar á næsta ári.

Það bendir því allt til þess að sjöfaldi risamótsmeistarinn í einliðaleik sé að undirbúa sig fyrir Opna ástralska meistaramótið síðar í sama mánuði, en hún hefur tvisvar tapað í úrslitum á því móti. Hún vann síðast risamót árið 2008 þegar hún tryggði sér sigur á Wimbledon-mótinu í fimmta sinn á ferlinum.

Williams, þá fjórtán ára gömul, lék sinn fyrsta leik á atvinnumóti árið 1994 í Oakland í Kaliforníu og hefur síðan þá tekið þátt í að minnsta kosti tveimur WTA-mótum á hverju tímabili, að sögn mótaraðarinnar.

Hún lék síðast í einliðaleik á Opna bandaríska meistaramótinu í ágúst, þar sem hún tapaði í þremur settum fyrir Karolinu Muchova í fyrstu umferð.

Williams, sem er í 570. sæti heimslistans, er fimm árum eldri en næstelstu keppendurnir á listanum, Naoko Eto og Bethanie Mattek-Sands.

Systir Venus Williams, Serena, sem er einu ári yngri setti tennispaðann upp á hilluna árið 2022.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×