Körfubolti

Erfitt kvöld fyrir Ár­mann og Tinda­stól

Siggeir Ævarsson skrifar
Krystal-Jade Freeman skoraði 25 stig í kvöld og hirti tólf fráköst í ofanálag
Krystal-Jade Freeman skoraði 25 stig í kvöld og hirti tólf fráköst í ofanálag Vísir/Anton Brink

Lið Ármanns og Tindastóls eru enn aðeins með einn sigur í Bónus-deild kvenna eftir leiki kvöldsins.

Nýliðar Ármanns tóku á móti Haukum og áttu í fullu tré við Íslandsmeistarana í byrjun en staðan var 24-19 eftir fyrsta leikhluta. Eftir það hrukku gestirnir í gang en grunnurinn að sigrinum kom í þriðja leikhluta sem Haukar unnu 15-30. Eftirleikurinn auðveldur og lokatölur 75-92.

Stigahæst í liði Hauka var Krystal-Jade Freeman með 25 stig og tólf fráköst að auki. Amandine Justine Toi skoraði 22 og Tinna Guðrún Alexandersdóttir skoraði 19 en tók líka 19 skot, flest allra á vellinum.

Hjá Ármanni var Nabaweeyah Ayomide Mcgill stigahæst með 21 stig og Khiana Nickita Johnson kom næst með 17.

Í Grindavík tóku heimakonur á móti Tindastóli. Jafnræði var með liðunum í byrjun og staðan 20-20 eftir fyrsta leikhluta en Grindavík tók öll völd á vellinum í þeim næsta og vann að lokum öruggan 14 stiga sigur, 82-68.

Stigahæst Grindvíkinga var Ellen Nystrom með 26 stig og sjö fráköst. Abby Beeman skilaði tvöfaldri tvennu, 20 stigum og ellefu stoðsendingum en tapaði líka átta boltum. Þá skoraði Ólöf Rún Óladóttir 17.

Hjá Tindastóli var Maddie Sutton stigahæst og með tvöfalda tvennu eins og svo oft áður, 19 stig og þrettán fráköst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×