Erlent

Milei vann stór­sigur í Argentínu

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Forsetinn umdeildi fagnaði mjög þegar úrslitin voru ljós í nótt.
Forsetinn umdeildi fagnaði mjög þegar úrslitin voru ljós í nótt. AP Photo/Rodrigo Abd

Javíer Milei forseti Argentínu leiddi flokk sinn til stórsigurs í þingkosningum sem fram fóru í landinu um helgina. Kosið er um hluta þingsæta á miðju kjörtímabili fosetans og er sigurinn sagður skýrt merki um að landsmenn séu margir ánægðir með áherslur hans í efnahagsmálum sem hafa endurspeglast í miklum niðurskurði og frjálshyggju.

Flokkur forsetans, La Libertad Avanza, náði rúmum fjörutíu prósenta atkvæða og fékk 13 af þeim 24 öldungardeildarsætum sem voru í boði og 64 sæti af þeim 124 sem í boði voru í neðri deild þingsins. Þetta þýðir að það verður enn auðveldara en áður fyrir forsetann að koma sínum málum í gegnum þingið.

Fyrir kosningarnar gerði Donald Trump Bandaríkjaforseti það ljóst að fyrirhuguð aðstoð Bandaríkjanna til Argentínu, sem á að nema tugum milljarða dollara, yrði að engu ef Milei næði ekki árangri í kosningunum.

Gagnrýnendur Mileis heimafyrir voru afar ósáttir við þessi ummæli forsetans og sökuðu hann um að hafa áhrif á úrslit kosninganna með ólögmætum hætti.


Tengdar fréttir

Allt undir hjá forsetanum hárprúða

Argentínumenn ganga í dag til þingkosninga sem taldar eru prófsteinn fyrir Javier Milei, hinn hárprúða forseta landsins. Róttæk frjálshyggja hans er undir í kosningunum enda hægara sagt en gert að koma stefnumálum sínum í gegn án fleiri sæta í þinginu.

Hjálpin frá Trump gæti kostað Milei

Ráðamenn innan ríkisstjórnar Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna, leita leiða til að tvöfalda fjárhagsaðstoð til Argentínu, vegna efnahagskragga þar. Þannig stendur til að aðstoða Javier Milei, forseta landsins, með fjörutíu milljarða dala fjárhagsaðstoð en eingöngu ef flokkur forsetans sigrar í þingkosningunum seinna í þessum mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×