Sport

„Þurfum bara að keyra á þetta og vera ó­hræddir og spila okkar fót­bolta“

Stefán Marteinn Ólafsson skrifar
Eiður Gauti Sæbjörnsson skoraði sigurmarkið í dag.
Eiður Gauti Sæbjörnsson skoraði sigurmarkið í dag. Anton Brink/Vísir

KR vann gríðarlega mikilvægan 2-1 sigur gegn ÍBV í næst síðustu umferð Bestu deild karla í dag. Sigurinn stillir KR upp í hreinan úrslitaleik um að halda sæti sínu í deildinni um næstu helgi þegar KR heimsækir Vestra. Eiður Gauti Sæbjörnsson skoraði sigurmark KR með frábærum skalla og ræddi hann við Ágúst Orra Arnarsson eftir leik.

„Það var ekkert eðlilega sætt“ sagði Eiður Gauti Sæbjörnsson framherji KR að vonum ánægður eftir leik. 

„Ég verð reyndar að viðurkenna að ég ætlaði að setja hann aftur fyrir en sem betur fer endaði hann bara í netinu og ég tek því alveg. Það var mjög sætt og mér fannst það verðskuldað“

„Við vorum búnir að vera að liggja á þeim þarna í seinni hálfleik og hefðum bara átt að bæta við þetta og klára þetta fyrr“

Stuttu eftir lokaflaut bárust þau tíðindi úr Mosfellsbæ að Vestri hefði jafnað gegn Aftureldingu. 

„Við erum svo sem ekkert alltof mikið að pæla í því. Við ætlum bara að fara vestur og vinna og ef við gerum það þá er það nóg. Það er það eina sem að við erum að hugsa um“

KR spilaði virkilega vel í dag og var Eiður Gauti á því að ef KR næði upp sömu frammistöðu fyrir vestan myndi hún duga.

„Já það held ég. Við þurfum bara að keyra á þetta og vera óhræddir og spila okkar fótbolta. Ég held að það sé bara það eina sem við getum gert“

Eyjamenn gerðu KR erfitt fyrir í dag og var þetta hörku leikur á Meistaravöllum.

„Já þetta var hörkuleikur. Mér fannst við samt vera með yfirhöndina svona mest allan leikinn og fannst þetta bara vera verðskuldaður sigur“ sagði Eiður Gauti Sæbjörnsson í lokin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×