Innlent

Sóttur sex sinnum á sjúkra­bíl og slökkvi­liðið stefnir vegna skuldar

Árni Sæberg skrifar
Hvorki kemur fram í stefnunni hvert maðurinn var sóttur né hvert honum var ekið.
Hvorki kemur fram í stefnunni hvert maðurinn var sóttur né hvert honum var ekið. Vísir/Vilhelm

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hefur stefnt erlendum karlmanni til greiðslu skuldar upp á 344 þúsund krónur. Skuldin er tilkomin vegna þess að maðurinn óskaði sex sinnum eftir sjúkraflutningi á sex mánaða tímabili í fyrra.

Þetta kemur fram í stefnu sem birt var í Lögbirtingablaðinu í dag. Stefnur eru birtar þar þegar ekki hefur tekist að birta þær með hefðbundnum hætti. Maðurinn sem um ræðir hefur aldrei haft lögheimili á Íslandi, að því er segir í stefnunni.

Þar segir hvað málsatvik varðar að í starfsemi sinni sinni slökkviliðið fjölda björgunarstarfa, svo sem sjúkraflutningi, björgun eigna í vatnslekum, björgun umhverfis í umhverfisslysum, eiturefnaútköllum og öðrum verkefnum sem krefjast sérhæfðs búnaðar og þekkingar slökkviliðs. Á milli málsaðila hafi viðskiptasamband stofnast þegar maðurinn óskaði eftir þjónustu slökkviliðsins.

Dómkrafan sé tilkomin vegna sjúkraflutnings stefnda yfir tímabilið frá júlí 2024 til desember 2024. Samkvæmt reikningum er um tilvik að ræða. Hvert skipti kostar 57.340 krónur samkvæmt reikningunum.

„Stefnufjárhæð nemur samtölu reikningsfjárhæða, alls kr. 344.040. Skuld þessi hefur ekki fengist greidd þrátt fyrir ítrekaðar innheimtutilraunir. Af þeim sökum er stefnanda nauðsynlegt að höfða mál til greiðslu hennar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×