Erlent

Vona að Trump sé til í að auka pressuna á Pútín

Samúel Karl Ólason skrifar
Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, mun væntanlega funda með Donald Trump, kollega sínum í Bandaríkjunum á föstudaginn. Þeir munu að öllum líkindum ræða hvernig hægt sé að binda enda á Úkraínustríðið en Úkraínumenn og bakhjarlar þeirra í Evrópu vona að Trump sé tilbúinn til að auka pressuna á Vladimír Pútín, forseta Rússlands.
Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, mun væntanlega funda með Donald Trump, kollega sínum í Bandaríkjunum á föstudaginn. Þeir munu að öllum líkindum ræða hvernig hægt sé að binda enda á Úkraínustríðið en Úkraínumenn og bakhjarlar þeirra í Evrópu vona að Trump sé tilbúinn til að auka pressuna á Vladimír Pútín, forseta Rússlands. AP/Julia Demaree Nikhinson

Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, og aðrir embættismenn og erindrekar munu seinna í vikunni ferðast til Bandaríkjanna á fund með Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, og ráðherrum hans. Þar munu Úkraínumenn líklega falast eftir frekari hernaðaraðstoð frá Bandaríkjunum og að fá að kaupa bandarískar stýriflaugar en Trump og Selenskí hafa talað mikið saman á undanförnum vikum.

Úkraínumenn hafa einnig áhuga á bættum loftvörnum en undanfarna daga hafa Rússar aukið árásir sínar á orkuinnviði Úkraínu, bæði hvað varðar tíðni og umfang.

„Hvern einasta dag, hverja einustu nótt, ráðast Rússar á orkuver, rafmagnslínur og gasframleiðslu okkar,“ sagði Selenskí á dögunum.

Rússar hafa gert sambærilegar árásir á hverju hausti og hverjum vetri frá því innrás þeirra hófst í febrúar 2022. Markmiðið er að tryggja að fólk hafi ekki aðgang að kyndingu og neysluvatni yfir veturinn.

Selenskí hefur beðið bakhjarla Úkraínumanna um hjálp við að bæta loftvarnir ríkisins og við að þvinga ráðamenn í Rússlandi til að setjast við samningaborðið. Því hefur Vladimír Pútín, forseti Rússlands, hingað til neitað þó Trump hafi reynt að þrýsta á hann.

Trump hefur gefið til kynna að hann hafi enn áhuga á að reyna að binda enda á Úkraínustríðið.

Hann hefur einnig varað við því að hann gæti selt Úkraínumönnum bandarískar stýriflaugar, eins og Tomahawk og Baracuda, og er talið að þannig hafi hann viljað auka þrýstinginn á Pútín. Úkraínumenn hafa þar að auki gert ítrekaðar árásir á olíuvinnslur og aðra olíuinnviði í Rússlandi og er framleiðslugeta Rússa sögð hafa dregist verulega saman vegna þessa.

Sala á olíu og olíuafurðum er lang stærsta og mikilvægasta tekjulind rússneska ríkisins og bandarískar stýriflaugar myndu hjálpa Úkraínumönnum til muna.

Tomahawk stýriflaugar geta drifið allt að 2.500 kílómetra (fer eftir týpu) og ef þær langdrægustu yrðu seldar Úkraínumönnum gætu þeir skotið þeim að skotmörkum í nánast öllum hluta Rússlands sem er í Evrópu.

Einnig kemur til greina að selja Barracuda-flaugar til Úkraínumanna. Þær eru framleiddar af Anduril og eiga að geta hæft skotmörk í allt að átta hundrað kílómetra fjarlægð (fer eftir týpu) og eiga þær þar að auki að vera tiltölulega ódýrar.

Taka fregnunum illa

Þessum fregnum hafa ráðamenn í Rússlandi tekið illa. Meðal annars hafa þeir sagt að sala stýriflauga til Úkraínumanna myndi koma verulega niður á samskiptum Rússlands og Bandaríkjanna. Úkraínumenn gætu ekki notað þær án beinnar aðkomu bandarískra hermanna.

Aðstoðarutanríkisráðherra Rússlands og talskona utanríkisráðuneytisins hafa meðal annarra sagt að sú hreyfing sem hefði sést í átt að friði væri úr myndinni ef Úkraínumenn fengju þessar stýriflaugar. Það hefur Vladimír Pútin, forseti Rússlands einnig sagt.

Hingað til hefur Trump ítrekað hótað því að auka þrýstinginn á Pútín og Rússa með hertum refsiaðgerðum eða auknum stuðningi við Úkraínu en aldrei staðið við hótanirnar.

Þrýstingur getur virkað

Selenskí sagði fyrr í vikunni að hægt væri að þvinga Pútín til að semja um frið, eins og „aðra hryðjuverkamenn“. Þetta sagði hann í færslu á samfélagsmiðlum og þykir ljóst að skilaboðin áttu að beinast til Trumps, þar sem Selenskí vísaði til þess að leiðtogar Hamas hefðu ákveðið að sleppa þeim gíslum sem þeir héldu enn.

„Ef það er hægt, er einnig hægt að þvinga Pútín til að semja um frið,“ sagði Selenskí.

Háttsettir embættismenn í bæði Bandaríkjunum og í Evrópu segja í samtali við Wall Street Journal að ef Trump geti dregið einhvern lærdóm af velgengni sinni fyrir botni Miðjarðarhafs sé það að þrýstingur geti virkað.

Í kjölfar loftárásar Ísraela í Doha í Katar, þar sem þeir reyndu að fella pólitíska leiðtoga Hamas-samtakanna, þrýsti Trump verulega á Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísrael, og fékk hann til að biðja leiðtoga Katar afsökunar opinberlega og að samþykkja friðaráætlun sem kennd hefur verið við Trump.

Á sama tíma þrýstu ráðamenn i Katar, Egyptalandi og Tyrklandi á leiðtoga Hamas að samþykkja einnig áætlunina.

Úkraínumenn og bandamenn þeirra í Evrópu vonast til þess að þessi velgengni og aukin óþolinmæði Trumps í garð Pútíns muni leiða til aðgerða.


Tengdar fréttir

„Aðstoðin verður að fá greiða leið inn á Gasa“

Gísli Rafn Ólafsson, framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands, segir neyðarsöfnun samtakanna fyrir Gasa fara vel af stað. Það sé risa verkefni framundan við að koma hjálpargögnum og vinnuvélum inn á Gasa og hefja uppbyggingu innviða á ný. Alþjóðaráð Rauða krossins tók í gær á móti Ísraelum og Palestínumönnum sem voru í haldi Ísraela og Hamas og vinnur nú að því að koma mannúðaraðstoð inn á svæðið. 

Hvað svo? Trump segir næsta fasa friðaráætlunar hafinn

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segir annan fasa friðaráætlunarinnar varðandi Gasaströndina hafinn nú þegar búið sé að koma á vopnahléi á Gasa og Hamas-liðar sleppt gíslum þeirra. Bandarískir erindrekar hafa varað við því að annar fasinn sé flókinn og erfiður.

Kínverjar hóta frekari hefndum, standi Trump við tollana

Ráðamenn í Kína virðast hafa lítinn áhuga á að gefa eftir í garð Bandaríkjanna í viðskiptadeilum ríkjanna. Kalla þeir eftir því að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, lúffi með þá ákvörðun að auka tolla á vörur frá Kína til muna og felli einnig úr gildi aðrar aðgerðir gegn Kína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×