Innlent

„Sorg­legt“ ef börnin lesa ekki Lax­ness og Ís­lendingasögur

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Guðmundur Ingi Kristinsson menntamálaráðherra er ekki sáttur við fregnir af því að bækur eftir Laxness og Íslendingasögur séu kenndar í minni mæli en áður.
Guðmundur Ingi Kristinsson menntamálaráðherra er ekki sáttur við fregnir af því að bækur eftir Laxness og Íslendingasögur séu kenndar í minni mæli en áður. Vísir/Anton Brink

Menntamálaráðherra segist munu taka til skoðunar hvort framhaldsskólanemar séu í minna mæli en áður látnir lesa skáldsögur eftir Halldór Laxness og Íslendingasögur. Það sé hið sorglegasta mál ef satt reynist, en hann muni ekki gefast upp á að koma menntamálum í gott horf.

Nokkuð hefur verið fjallað um að skáldsögur Nóbelsskáldsins Halldórs Laxness séu á undanhaldi í íslenskum framhaldsskólum, en Morgunblaðið greindi frá því í gær að hlutfall nemenda sem séu látnir lesa þær á framhaldsskólastigi sé um þriðjungur. Þá virðist Íslendingasögur einnig á undahaldi af námsskrá sama nemendahóps.

Menntamálaráðherra segir þróunina hið versta mál.

„Mér finnst þetta bara sorglegt, vegna þess að þetta er menningararfur okkar. Ég las Laxness og Njálu og á Íslendingasögurnar í tveimur útgáfum. Eldri útgáfur með eldri orðaforða, og svo nýrri. Mér finnst það bara sorglegt ef það er,“ segir Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra.

Hann segir tilefni til að hann og hans ráðuneyti skoði málið betur.

„Ég ætla að skoða þetta, alveg. Mig langar þá líka að skoða hvernig er með að læra kvæði í skólum, sem ég taldi að væri mjög gott fyrir fólk, bæði börn og annað, til að ná orðaforða og lesskilningi.“

Meðal þeirra sem hafa kvatt sér hljóðs vegna málsins er Snorri Másson, þingmaður Miðflokksins, sem sagði um uppgjöf gagnvart áskorunum í menntamálum að ræða.

Tekur þú svo djúpt í árinni?

„Nei. Alls ekki. Við gefumst ekki upp. Við gefumst ekki upp á að mennta börnin okkar. Það gerum við aldrei.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×