Fótbolti

Grétar Rafn gæti gert Gerrard að stjóra Rangers

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Grétar Rafn Steinsson starfar fyrir 49ers Enterprises, eigendur Rangers.
Grétar Rafn Steinsson starfar fyrir 49ers Enterprises, eigendur Rangers. Simon Stacpoole/Offside/Offside via Getty Images

Fyrrum landsliðsmaðurinn Grétar Rafn Steinsson fundaði með Steven Gerrard í dag og gæti gert hann að nýjum knattspyrnustjóra skoska félagsins Rangers.

Rangers er í leit að nýjum stjóra eftir að hafa rekið Russell Martin á dögunum og Grétar Rafn var fenginn í verkið.

Hann starfar fyrir eigendur Rangers, 49ers Enterprises, og samkvæmt umfjöllun The Times er Grétar Rafn í stærra hlutverki í þessari þjálfaraleit heldur en Kevin Thelwell og Patrick Stewart, yfirmenn hjá Rangers sem hafa hlotið mikla gagnrýni undanfarið fyrir slæmar ákvarðanir.

Svekktur Grétar Rafn, Steven Gerrard og Kevin Nolan í leik Bolton gegn Liverpool árið 2008. Barrington Coombs - PA Images via Getty Images

Gerrard var boðið að snúa aftur til Rangers fyrr á þessu ári en vildi ekki opna þær viðræður og Russell Martin var ráðinn. Það þykir því merki um mikinn áhuga hjá Gerrard, að hann hafi fundað með Rangers í dag.

Gerrard var áður þjálfari Rangers, í rúmlega þrjú ár, og gerði liðið að meisturum árið 2021. Hann fór svo til Aston Villa, átta mánuðum eftir að hafa gert Rangers að meisturum, en var aðeins í tæpt ár þar. Síðan tók við átján mánaða starfsdvöl hjá Al-Ettifaq í Sádi-Arabíu, en Gerrard hætti störfum þar í janúar á þessu ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×