Viðskipti innlent

Loka Kristjánsbakaríi

Bjarki Sigurðsson skrifar
Sjá má verslun Kristjánsbakarís við Hafnarstræti á Akureyri neðst til vinstri á myndinni.
Sjá má verslun Kristjánsbakarís við Hafnarstræti á Akureyri neðst til vinstri á myndinni. Vísir/Vilhelm

Stjórn Gæðabaksturs hefur ákveðið að hætta rekstri Kristjánsbakarís á Akureyri. Í skoðun er að nýr rekstraraðili taki við versluninni í Hafnarstræti en verslunin við Hrísalund mun heyra sögunni til. Kaup Ölgerðarinnar á Gæðabakstri, sem tilkynnt voru í byrjun árs, eru til skoðunar hjá Samkeppniseftirlitinu. 

Greint er frá lokununum í tilkynningu frá stjórn Gæðabaksturs. Þar segir að fyrirtækið ætli að einbeita sér að kjarnastarfsemi fyrir norðan. 

„Fjöldi stöðugilda hjá Gæðabakstri á Akureyri fækkar um 7 í verslunum og 3,5 í framleiðslu og pökkun. Stjórn Gæðabaksturs þakkar þeim starfsmönnum sem nú láta af störfum fyrir vel unnin störf og óskar þeim velfarnaðar í nýjum verkefnum,“ segir í tilkynningunni. 

Rekstur verslananna hafi verið þungur um nokkurra ára skeið.

„Nú er svo komið að stjórn fyrirtækisins taldi ekki lengur við óbreytt ástand unað og því var þessi ákvörðun tekin. Gæðabakstur mun nú einbeita sér að kjarnastarfsemi sinni nyrðra en mun skoða alla möguleika með frekari breytingar í huga,“ segir í tilkynningunni.

Í janúar á þessu ári var tilkynnt að Ölgerðin hafi undirritað samkomulag um helstu skilmála kaupa á 100 prósent hlut í Gæðabakstri ehf. Heildarvirði viðskiptanna nam um 3,5 milljarði króna. Samkeppniseftirlitið er með samrunann til meðferðar en hefur ekki komist að niðurstöðu.

Kristjánsbakarí var stofnað árið 1912 og fer framleiðslan fram í húsnæði Gæðabaksturs við Hrísalund.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×