Innherji

Vinna að því að færa átta vélar frá ís­lenska fé­laginu yfir til þess malt­neska

Hörður Ægisson skrifar
Einar Örn Ólafsson, forstjóri og einn stærsti hluthafi Play.
Einar Örn Ólafsson, forstjóri og einn stærsti hluthafi Play.

Fulltrúi skuldabréfaeigenda sem lögðu Play til samtals um 2,8 milljarða króna í lok síðasta mánaðar á nú viðræðum við stjórnendur flugfélagsins og flugvélaleigusala þess um að færa átta þotur yfir til maltneska félagsins. Gert er ráð fyrir að sú yfirfærsla klárist í vikunni og er búið að boða til fundar með kröfuhöfum í næstu viku. 

Stjórn íslenska félagsins Fly Play tilkynnti um það fyrir opnun markaða í morgun að það hefði hætt starfsemi og flug felld niður.

Ástæður þessarar ákvörðunar voru sagðar margar, meðal annars rekstur félagsins hefði lengi gengið verr en vonir stóðu til, flugmiðasala ekki gengið vel síðustu vikur og mánuði í kjölfar neikvæðrar fjölmiðlaumfjöllunar um reksturinn og þá verið ósætti á meðal hluta starfsmanna félagsins vegna breytinga á stefnu þess. Liðlega 400 starfsmenn Play á Íslandi munu missa vinnuna.

„Miklar vonir voru bundnar við breytt viðskiptalíkan félagsins sem kynnt var síðasta haust og þótti á sínum tíma ástæða til töluverðrar bjartsýni. Því miður er nú orðið ljóst að þær breytingar geta ekki skilað árangri sem dugar til að vinna á þeim djúpstæða vanda félagsins sem safnast hefur upp. Eftir á að hyggja hefði þurft að innleiða þær fyrr,“ sagði tilkynningunni.

Ákvörðunin um að hætta starfseminni á Íslandi – og félagið mun þá fara í gjaldþrotaskipti á næstunni – kemur aðeins um einum mánuði eftir að Play kláraði 23 milljóna Bandaríkjadala fjármögnun, jafnvirði 2,8 milljarða króna, með útgáfu á breytanlegu skuldabréfi til tveggja ára. Skuldabréfin bera 17,5 prósent vexti en þeir fjárfestar sem lögðu félaginu til fjármagn voru einkum stærstu hluthafar Play ásamt sérhæfðum lánasjóði, MF3, í rekstri Ísafold Capital Partners sem keypti alls um fjórðung af heildarstærð útgáfunnar.

Play er núna í vanefndum á skuldabréfaútgáfunni og útistandandi höfuðstóll og uppsafnaðar vextir því komnir á gjalddaga og innheimtuaðgerðir hafnar. Ísafold Capital, sem fer með hlutverk umsjónarmanns skuldabréfaeigenda (e. security agent), hefur upplýst fjárfesta sem stóðu að baki kaupum á bréfinu – þeir voru 27 talsins – að búið sé að boða til kröfuhafafundar mánudaginn 6. október í næstu viku.

Yfirfærslan á vélunum geti klárast síðar í vikunni

Samkvæmt heimildum Innherja fengu kröfuhafar bréf frá Ísafold Capital fyrr í dag þar sem upplýst er um að sem umsjónarmaður fyrir hönd þeirra standi núna yfir viðræður við stjórnendur Play og flugvélaleigusala þess um yfirfærslu á samtals átta vélum yfir til Fly Play Europe, sem er maltneskt dótturfélag Play stofnað fyrr á árinu. Væntingar standa til þess að sú yfirfærsla geti klárast núna síðast í vikunni og allir hagaðilar vinni að því að tryggja tímanlega framkvæmd.

Áform Play höfðu staðið til þess að samhliða breytingum á viðskiptalíkani félagsins, með því að hætta alfarið flugi til Bandaríkjanna, þá myndu fjórar af þeim tíu vélum sem Play hefur verið með í rekstri fljúga frá Íslandi, einkum til sólarlandastaða, á meðan hinar sex vélarnar yrðu leigðar í arðbær verkefni til annarra flugrekenda. Starfsemin myndi því færast í meira mæli til Möltu sem tæki við flugrekstrarleyfinu af félaginu á Íslandi.

Í ítarlegu viðtali Innherja við Einar Örn Ólafsson, forstjóra og einn stærsta hluthafa Play, fyrr í þessum mánuði sagði hann að vélarnar fjórar sem ætti að starfrækja frá Íslandi yrðu með sem fyrr með íslenskar áhafnir á íslenskum kjarasamningum. Ljóst er að ekkert verður núna af þeim áformum.

Einar Örn hefur látið hafa eftir sér í fjölmiðlum í dag að óljóst er sé hvað verði um starfsemi maltneska dótturfélagsins Fly Play Europe. Þannig sagði hann í viðtali við Viðskiptablaðið að það félag færi ekki sjálfkrafa í þrot þótt íslenska félagið fari í þrot.

„Hins vegar rifna allir leigusamningar um allar okkar vélar við þetta. Þannig að það félag er að minnsta kosti frá og með þessum tímapunkti ekki með neinar vélar í rekstri. En [Play Europe] er til og er með flugrekstrarleyfi. Það er ekki óhugsandi að það félag reyni að koma sér aftur á fætur. Ég verð ekki sá sem mun leiða það starf ef menn munu reyna það.“

Leigusamningar á hagstæðum kjörum

Fyrr á árinu var gert samkomulag við flugrekandann SkyUp í Austur-Evrópu um leigu á þremur vélum á nýja maltneska flugrekstrarleyfi Play, en beðið hefur verið eftir að sú fjórða myndi bætast við. 

Í fjárfestakynningu sem Play sendi frá sér í júní í tengslum við boðað yfirtökutilboð sem síðar var hætt við kom meðal annars fram að núverandi leigusamningar á vélunum tíu, sem eru á afar hagstæðum kjörum, væru í gildi frá þremur árum og tíu mánuðum og til allt að níu ára og ellefu mánaða. Talið er að þessir samningar spari félaginu, ef borið er saman við núgildandi verð á sambærilegum leigusamningum, samtals í kringum 90 milljónir dala yfir allt tímabilið.

Félög sem Einar Örn er eigandi að, annaðhvort alfarið eða í samfloti með öðrum fjárfestum, stóðu að baki kaupum fyrir samtals 200 milljónir króna í skuldabréfaútgáfunni í síðasta mánuði. Þá keyptu félög sem Elías Skúli Skúlason, varaformaður stjórnar Play og einn af stofnendum félagsins, tengist fyrir samanlagt um 385 milljónir króna. Þeir Einar Örn og Elías Skúli höfðu upphaflega gert yfirtökutilboð í félagið snemma í sumar en féllu síðar frá þeim áformum. Til viðbótar við aðkomu þeirra og lánasjóðsins MF3 í stýringu Ísafoldar þá voru aðrir stærstu þátttakendur í kaupum á bréfunum meðal annars Birta lífeyrissjóður og fjárfestingafélagið Stoðir.

Samkvæmt skilmálum skuldabréfanna áttu eigendur að þeim að vera heimilt að umbreyta þeim í hlutafé á genginu ein króna á hlut eða fá lánið greitt til baka ásamt uppsöfnuðum vöxtum. Þá fá þeir sömuleiðis kauprétt á 30 prósenta hlut í dótturfélaginu Fly Play Europe á Möltu, sem er til þriggja ára og kaupgengið miðast við nafnverð hlutafjár.

Fjárfestarnir sem keyptu skuldabréfin fengu jafnframt tryggingar til efndum á bréfunum af hálfu Play. Þar er meðal annars um að ræða veð í öllu hlutafé dótturfélaga, Fly Play Europe og Play Lithuania, ásamt veðum í öllum almennum fjárkröfum félagsins á hendur dótturfélögum. Sömuleiðis fá þeir veð í hugverkaréttindum, eins og vörumerkjum, vefsíðu og hugbúnaðarlausnum samstæðunnar.

Komi til vanefndar á skuldbindingum samkvæmt skuldabréfunum, eins og núna hefur gerst, er skuldabréfaeigendum heimilt að setja af stað söluferli á dótturfélögum félagsins, þar sem söluandvirðinu skal ráðstafað til uppgreiðslu skuldar samkvæmt skuldabréfunum.


Tengdar fréttir

„Hver fyrir sig hvað það varðar“

Einar Örn Ólafsson, forstjóri Play, segir gjaldþrot félagsins miklar sorgarfréttir fyrir starfsfólk félagsins. Margir muni tapa á gjaldþrotinu, hluthafar, kröfuhafar, birgjar og viðskiptavinir. Þá verði það til þess að Íslendingar tapi til lengri tíma vegna hærra verðs flugfara og minna framboðs. Félagið sé illu heilli ekki í neinni stöðu til að aðstoða strandaglópa erlendis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×