Innlent

Piltur stakk mann í­trekað en var sýknaður af til­raun til manndráps

Árni Sæberg skrifar
Árásin var framin við Ráðhústorgið á Akureyri.
Árásin var framin við Ráðhústorgið á Akureyri. Vísir/Vilhelm

Ungur karlmaður hefur verið dæmdur til tíu mánaða skilorðsbundinnar fangelsisvistar fyrir stórfellda líkamsárás sem hann framdi á Akureyri í fyrra, þegar hann var aðeins sautján ára. Hann stakk mann ítrekað og ákæruvaldið fór fram á að hann yrði dæmdur fyrir tilraun til manndráps. Héraðsdómur taldi ásetning hans til manndráps ekki sannaðan.

Í dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra, sem kveðinn var upp þann 11. september, segir að maðurinn hafi verið ákærður fyrir tilraun til manndráps, með því að hafa aðfaranótt laugardags í byrjun ágúst í fyrra, fyrir utan skemmtistað við Ráðhústorgið á Akureyri, veist að manni með egghvössu áhaldi og stungið hann að minnsta kosti fjórum stungum í ofanverðan búkinn og þannig reynt að svipta hann lífi. 

Við atlöguna hafi hinn stungni hlotið lífshættulega stunguáverka, annars vegar yfir ofanverðu vinstra herðablaði, sem hafi gengið í gegnum vöðva og að beini, og hins vegar á hægra brjósti, þar niður á við í gegnum þindina, inn að lifrinni og kviðarholi, auk þess sem hann hafi hlotið skurði á baki milli hægra herðablaðs og hryggjar og á neðanverðu hægra herðablaði.

Stunginn í bakið en sérsveit þurfti að tala hann til

Í dóminum er málavöxtum lýst sem svo að kallað hafi verið eftir aðstoð lögreglu á þriðja tímanum aðfaranótt laugardags. Lögregla hafi farið á staðinn og verið bent á brotaþola í málinu.

„Hann brást illa við afskiptum lögreglu en sérsveit lögreglu kom á vettvang, tók hann tökum og tókst að leyfa þeim að hlú að sárum hans. Þegar bolur hans var klipptur kom í ljós mikil blæðing frá sári við vinstra herðablað og var grisja sett þar í. Við nánari skoðun lögreglu kom í ljós annað stungusár að framan. Sjúkraflutningamenn komu skömmu síðar og var brotaþoli fluttur á Sjúkrahúsið á Akureyri.“

Kærusturnar rifust

Haft er eftir manninum að hann hefði verið á gangi með kærustu sinni og vinkonu hennar um miðbæ Akureyrar umrædda nótt. Þau hefðu ætlað saman á nærliggjandi skemmtistað en honum hefði verið meinuð innganga á staðinn. Hann hefði því ákveðið að bíða þeirra á kebabstað í nágrenni skemmtistaðarins.

Stúlkurnar hefðu lent í einhvers konar útistöðum við þriðju stúlkuna, kærustu brotaþola í málinu. Hann hefði reynt að taka kærustu sína út úr aðstæðunum og brotaþoli þá komið og ýtt honum. Til átaka hefði komið þeirra á milli í kjölfar þess. Hann hefði þó ekki stungið manninn og ekki séð blóð á honum.

Hafi verið sleginn tíu sinnum hið minnsta

Í niðurstöðukafla dómsins segir að maðurinn hafi frá öndverðu neitað sök í málinu. Hann hafi lýst því að hafa orðið fyrir árás af hendi brotaþola. Hann hafi reynt að verjast en ekki beitt vopni í því skyni og hafi ekki kannast við að hafa verið með hníf. 

Fyrir dómi hafi hann lýst því að hann hafi blandast í átök stúlknanna og ein þeirra veitt honum högg á öxl. Hann hafi þá stigið til baka og brotaþoli birst, farið að ýta honum og síðan reynt að slá hann í höfuð eftir að hann hafi beðið brotaþola að snerta sig ekki. 

„Brotaþoli hafi síðan tekið í skyrtu ákærða framanvert og haldið áfram að slá hann, í það minnsta tíu sinnum og einbeitt sér að höfði hans og efri hluta líkama. Hann hafi síðan ýtt honum og sparkað í hann svo hann hafi dottið með höfuðið í stéttina og brotaþoli hafi einnig dottið. Ákærði kvaðst hafa verið hræddur og aðeins hugsað um að koma sér úr þessum aðstæðum og hlaupið í kebab húsið. Ákærði staðfesti að það væri hann sem sést á myndbandsupptöku hlaupa af vettvangi upp í Hafnarstræti.“

Þá segir í dóminum að þrátt fyrir að vopn hafi ekki fundist þyki, þegar litið er til heildstætt til myndbandsupptöku af vettvangi, framburðar vitna, og þá einkum tveggja vitna og læknisfræðilegra gagna, sannað svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa að maðurinn hafi veist að brotaþola með egghvössu áhaldi í átökum við hann og með því veitt honum áverka yfir ofanverðu vinstra herðablaði, á hægra brjósti og á milli hægra herðablaðs og hryggjar.

Enginn ásetningur til að myrða

Í kafla dómsins um heimfærslu til refsiákvæða segir að til þess að verknaður mannsins verði talin tilraun til manndráps þurfi ákæruvaldið að sýna fram á að hann hafi, á verknaðarstundu, ekki aðeins haft ásetning til ofbeldisverksins heldur hafi ásetningur hans einnig náð til þeirrar afleiðingar að brotaþoli biði bana af.

 Við mat á huglægri afstöðu mannsins  á verknaðarstundu verði litið til þess sem fyrir liggur um aðdraganda verknaðar og aðstæður þegar hann vann verkið, afleiðinga árásarinnar, hættueiginleika hennar og þess sem hann mátti ætla um þá.

Af áverkum brotaþola verði ráðið að einhvers konar egghvössu áhaldi hafi verið beitt. Hins vegar hafi áhaldið ekki fundist og ekki yrði ráðið af áverkum brotaþola hvers konar áhald var um að ræða.

Atlaga mannsins hafi beinst bæði að brjósti og baki brotaþola en miðað við gögn málsins hafi afleiðingar þó hvorki verið varanlegar né langvarandi og brotaþoli hafi útskrifað sig af sjúkrahúsi daginn eftir. 

Samkvæmt sjúkragögnum, matsgerð og framburði þriggja vitna verði hins vegar ráðið að skurður yfir herðablaði hefði mögulega getað valdið lífshættu hefði brotaþoli ekki komist undir læknishendur og einnig að ef stunga í brjóst hefði náð örlítið dýpra hefði sá áverki getað reynst mjög hættulegur.

Með heildstæðu mati á aðstæðum þyki varhugavert að telja fram komna fulla sönnun þess að maðurinn hafi á verknaðarstundu haft ásetning til þess að bana brotaþola. Brot hans verði því ekki heimfært undir ákvæði hegningarlaga um tilraun til manndráps. Hann hafi aftur á móti gerst sekur um sérstaklega hættulega líkamsárás í skilningi sömu laga.

Skilorð vegna ungs aldurs

Í kafla dómsins um ákvörðun refsingar segir að við hana verði litið til eðlis og alvarleika brotsins þar sem maðurinn hafi beitt egghvössu áhaldi og valdið með því hættu á alvarlegu heilsutjóni. Einnig verði litið til þess að hann hafi aðeins verið 17 ára þegar brotið var framið og að, samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins, hafi hann ekki áður gerst sekur um refsiverðan verknað. 

Þá verði litið til þess til refsilækkunar að hann hafi unnið verkið í átökum við brotaþola eftir að hafa reynt að koma sér úr aðstæðunum en brotaþoli elt hann uppi.

Refsing hans þyki hæfilega ákveðin fangelsi í tíu mánuði. Vegna ungs aldurs hans og hreins sakaferils þyki mega fresta fullnustu refsingarinnar og hún skuli falla niður að liðnum tveimur árum haldi hann almennt skilorð.

Milljón í bætur og rúmar fimm í sakarkostnað

Loks segir í dóminum að maðurinn skuli greiða brotaþola eina milljón króna í miskabætur og 2/3 hluta sakarkostnaðar málsins, alls rúmlega fimm milljónir króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×