Erlent

Hafa engar skýringar á marg­földum gamma­blossa

Kjartan Kjartansson skrifar
Appelsínuguli díllinn sýnir staðsetningu gammablossanna sem sáust í júlí. Ekki er vitað með fullri vissu hvar upptök þeirra voru, aðeins að þau eru utan Vetrarbrautarinnar.
Appelsínuguli díllinn sýnir staðsetningu gammablossanna sem sáust í júlí. Ekki er vitað með fullri vissu hvar upptök þeirra voru, aðeins að þau eru utan Vetrarbrautarinnar. ESO/A. Levan, A. Martin-Carrillo et al.

Stjarnfræðingar klóra sér nú í höfðinu yfir röð tröllaukinna sprenginga í fjarlægri vetrarbraut sem aldrei hafa sést áður. Þeir þekkja engar aðstæður sem geta valdið slíkri hrinu svonefndra gammablossar.

Gammablossar eru öflugustu sprengingarnar í alheiminum. Þeir eiga sér stað þegar massamiklar stjörnur springa í tætlur sem sprengistjörnur þegar þær klára eldsneyti sitt eða þegar svarthol rífa þær á hol.

Þessir blossar eru ákaflega skammlífir og vara í allt frá millísekúndum upp í nokkrar mínútur. Atburðurinn sem Fermi-gammageislasjónauki bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA greindi varð var við 2. júlí var hins vegar þreföld sprenging á nokkurra klukkustunda tímabili. Þegar vísindamenn lögðu yfir gögn frá öðrum sjónaukum kom í ljós að virknin hafði hafist næstum heilum degi áður en Fermi tók eftir honum.

Sprengihrinan stóð þannig hundrað til þúsundfallt lengur en flestir gammablossar.

„Það sem meira máli skiptir þá endurtaka gammablossar sig aldrei vegna þess að atburðurinn sem býr þá til er hamfarakenndur,“ segir Andrew Levan, stjörnufræðingur við Radboud-háskóla í Hollandi, sem er einn höfunda greinar um rannsókn á blossanum.

Mögulega hvítur dvergur sem svarthol gleypti

Upphaflega töldu stjörnufræðingarnir að blossarnir kæmu úr Vetrarbrautinni okkar. Framhaldsathuganir með VLT-sjónauka Evrópsku stjörnustöðvarinnar á suðurhveli (ESO) og Hubble-geimsjónaukanum leiddu hins vegar í ljós að uppruni þeirra væri líklega utan hennar í fleiri milljarða ljósára fjarlægð.

Hvað gæti hafa valdið þessum langa og endurtekna blossa er enn algerlega á huldu. Hugsanlegt er að massamikil stjarna hafi sprungið en sú sprenging hefði þá verið ólík öllum öðrum sem stjörnufræðingar þekkja, að því er kemur fram í tilkynningu um uppgötvunina á vef ESO.

Þá er mögulegt að blossarnir hafi myndast við það að svarthol reif í sig stjörnu. Til þess að skýra aðra eiginleika þeirra hefðu það þurft að vera óvenjuleg stjarna og enn óvenjulegra svarthol.

Síðarnefnda skýringin er sú sem vísindamennirnir hallast helst að í augnablikinu. Það gæti þá hafa verið hvítur dvergur, leifar stjörnu á borð við sólina okkar, sem splundraðist í svonefndu millistóru svartholi sem myndaði blossana. Slík svarthol eru með á bilinu hundrað til hundrað þúsund sólmassa en langflest svarthol eru annað hvort mun massaminni eða massameiri en það. Lítið er sagt vitað um þessa tegund svarthola.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×