Verkamannaflokkurinn hefur oft verið sósíaldemókrötum hér á landi innblástur – nægir þar að nefna Nýja verkamannaflokk Tony Blair sem var R-listanum og síðar Samfylkingu Ingibjargar Sólrúnar augljóslega ofarlega í huga.
Þegar Starmer og félagar tóku við var viðkvæðið strax að staða ríkisfjármála væri mun verri en búist hefði verið við eftir áralanga óstjórn Íhaldsflokksins. Því skyldu kjósendur búa sig undir erfiða tíma áður en staðan færi að batna.
Þrátt fyrir aðdáunarverða tilraun til væntingastjórnunar kom allt fyrir ekki. Verulega hefur tekið að halla undan fæti hjá Starmer eftir að ríkisstjórn hans birti sitt fyrsta fjárlagafrumvarp síðastliðið haust. Engum forsætisráðherra hefur – eftir valdaskipti – tekist að ná viðlíka óvinsældum á jafn skömmum tíma. Trúverðugleiki fjármálastjórnar flokksins hefur beðið skipbrot og hvert hneykslismálið rekið annað. Nú er svo komið að efasemdir eru uppi um að Starmer verði á vetur sitjandi.
Því er athyglisvert að einn helsti hugmyndafræðingur Samfylkingarinnar – Þórður Snær Júlíusson – notast enn við sömu möntruna og Verkamannaflokkurinn þegar ríkisstjórn Íslands kynnti fjármálafrumvarp sitt á dögunum. Hann sagði þar ranglega að afkoma ríkissjóðs í ár verði ellefu milljörðum lakari en fyrri ríkisstjórn Bjarna hafði boðað, sem styður við „áður fram setta ábendingu um að staðan væri mun verri en af hafði verið látið þegar kosningar urðu.“
Beint úr bresku handbókinni.
Vissulega nýtur ríkisstjórnin afgerandi stuðnings í könnunum enn sem komið er. Raunar er því ekki að neita að sumir ráðherrar – til að mynda loftslagsráðherra og fjármálaráðherra – hafa reynst bæði klókari og meira afgerandi en við höfum átt að venjast til skamms tíma.
En skjótt skipast veður í lofti eins og einhver sagði. Fjármálafrumvarpið boðar talsverðar skattahækkanir, verðbólgan er ólíkindatól og reynslan af meirihlutum Samfylkingarinnar í Reykjavík bendir til þess að veik von sé um aðhald hvað útgjöld varðar. Þá er fyrirsjáanlegt í ljósi yfirlýsinga Ingu Sæland að ríkisstjórnin muni takast á innbyrðis um inngöngu í ESB. Þá er loks ótalin alþjóðapólitíkin sem oft hefur reynst vinstri mönnum á valdastóli fjötur um fót.
Það er athyglisvert að einn helsti hugmyndafræðingur Samfylkingarinnar notast enn við sömu möntruna og Verkamannaflokkurinn þegar ríkisstjórn Íslands kynnti fjármálafrumvarp sitt á dögunum.
Vonandi þeirra vegna er orðfærið í efnahagsmálunum það eina sem Samfylkingin tekur sér til fyrirmyndar frá breska systurflokknum nú um stundir. Annars gæti gamanið tekið að kárna. Og það fljótt.
Oft ratast kjöftugum …
Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði á dögunum að ekki ætti að skylda skráð fyrirtæki til að birta uppgjör sín ársfjórðungslega. Það ætti að duga að skila á hálfsársfresti, enda myndi það spara bæði tíma og fjármuni.
Ólíkt því sem við eigum að venjast frá hinum vanstillta forseta þá er þessi hugmynd hans ekki alslæm. Þetta ætti enn frekar við hér á landi þar sem félög eru smá í alþjóðlegu samhengi og mannaforráð eftir því.
Einkafjárfestar yrðu sennilega almennt ánægðir ef stjórnendur gætu í auknum mæli einbeitt sér að rekstri, nýsköpun og nýjum viðskiptum í stað eilífra uppgjöra og fréttamola í gúrkutíð.
Ráðgjafinn er innanbúðarmaður sem tekur púlsinn á stöðunni innan stjórnmála og atvinnulífs.