Erlent

NATO og Rúss­land „aug­ljós­lega“ í stríði

Samúel Karl Ólason skrifar
Dmitrí Peskóv, talsmaður Vladimírs Pútín, forseta Rússlands, og Vladimír Pútín, foseti.
Dmitrí Peskóv, talsmaður Vladimírs Pútín, forseta Rússlands, og Vladimír Pútín, foseti. AP/Alexander Kazakov, Sputnik

Atlantshafsbandalagið og Rússland eiga „augljóslega“ í stríði. Þetta sagði Dmitrí Peskóv, talsmaður Vladimírs Pútín, forseta Rússlands, við blaðamenn í Moskvu í morgun. Stuðningur margra ríkja NATO við Úkraínu jafngilti  að bandalagið væri í raun og veru stríð við Rússland. Það væri augljóst að stríðsástand ríkti.

Ummælin lét Peskóv falla eftir að Radoslaw Sikorski, utanríkisráðherra Póllands, sem var staddur í Kænugarði í Úkraínu, sagði að NATO væri ekki í stríði við Rússa. Það sagði hann eftir að rússneskum drónum var flogið inn í lofthelgi Póllands, þar sem þeir brotlentu eða voru skotnir niður.

Rússneskir drónar hafa einnig farið inn í lofthelgi Rúmeníu, sem er einnig í NATO.

„NATO er að berjast við Rússland. Það er augljóst og það er engin þörf á frekari sönnun. NATO er í raun þátttakandi í stríðinu.“

Þetta sagði Peskóv, samkvæmt frétt RIA fréttaveitunnar, sem er í eigu rússneska ríkisins. Hann vísaði til þess að þess að ríki NATO aðstoðuðu Úkraínumenn með óbeinum og með beinum hætti.

Undanfarin ár hafa Rússar ítrekað sagt að þeir séu að berjast við allt NATO í Úkraínu og að málaliðar frá ríkjum Atlantshafsbandalagsins væru í Úkraínu. Því hefur einnig verið haldið fram að íslenskir málaliðar hafi barist í Úkraínu.

 

Evrópa átti sig ekki á grunnástæðum stríðsins

Þá sagði Peskóv einnig í morgun að Úkraínumenn hefðu ekki áhuga á „alvarlegum“ viðræðum við Rússa og gaf til kynna að friðarviðræður myndu ekki fara fram að svo stöddu, eins og Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur ítrekað kallað eftir.

Peskóv sakaði einnig Vesturlönd um að standa í vegi friðar, samkvæmt rússneska útlagamiðlinum, Medizona. Ekki væri búið að semja um frið því Evrópa áttaði sig ekki á „grunnástæðum“ þessa stríðs. Peskóv hefur áður slegið á svipaða strengi, eins og aðrir ráðamenn í Rússlandi. Þar á meðal Pútín.

Pútín gerði það til dæmis fyrr í þessum mánuði, þegar hann sagði að vestrænir hermenn í Úkraínu yrðu lögmæt skotmörk rússneska hersins. Þá ítrekaði Peskóv í kjölfarið að Rússar væru óvinir NATO.

Þegar ráðamenn í Rússlandi tala um „grunnástæður“ stríðsins eru þeir að vísa til krafna þeirra um að ríkjum Austur-Evrópu verði vísað úr NATO.


Tengdar fréttir

Stórauka útgjöld til varnarmála

Ríkisstjórn Svíþjóðar tilkynnti í morgun að fjárútlát til varnarmála yrðu stóraukin á næsta ári um 26,6 milljarða sænskra króna. Þannig munu fjárútlátin fara úr 148 milljörðum í um 175 milljarða eða um 2,8 prósent af vergri landsframleiðslu Svíþjóðar.

Íslendingur dæmdur í þrettán ára fangelsi í Rússlandi

Rússneskur dómstóll hefur dæmt nokkra meðlimi listahópsins Pussy Riot til langrar fangelsisvistar fyrir að vanvirða rússneska herinn. Þar á meðal er Mariia Alekhina, eða Masha, sem er íslenskur ríkisborgari. Fimm konur voru dæmdar í morgun en engin þeirra er í Rússlandi.

Kalla rússneska sendiherrann á teppið

Rúmenar kölluðu rússneska sendiherrann á teppið eftir að rússnesk flygildi rufu rúmenska lofthelgi í gær og þar með Atlantshafsbandalagsins. Litið er á atvikið og svipað atvik í Póllandi fyrr í vikunni sem ögrun af hálfu Rússa.

Skipar NATO-ríkjum að hætta að kaupa olíu af Rússum

Donald Trump Bandaríkjaforseti segist tilbúinn að ráðast í þungar refsiaðgerðir gegn Rússlandi ef öll aðildarríki Atlantshafsbandalagsins hætta að kaupa olíu af Rússlandi. Tyrkland er eitt af stærstu kaupendum rússneskrar olíu. 

Rándýrar herþotur og flugskeyti gegn ódýrum drónum

Úkraínumenn hafa um árabil varist svo gott sem daglegum árásum Rússa með sjálfsprengidróna og eldflaugar. Til þessa notast þeir marglaga varnir en þróun þessara varna hefur að miklu leyti gengið út á að draga eins og hægt er úr kostnaði við varnirnar en drónarnir eru tiltölulega ódýrir í framleiðslu og flugskeyti í loftvarnarkerfi og herþotur eru það alls ekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×