Innlent

Í straffi fyrir skila­boð á vegg Kaffibarsins: „Þetta eru bara skemmdar­verk“

Árni Sæberg skrifar
Silja ritaði Frjáls Palestína á ensku á vegginn. Eigandi veggsins segir það skemmdarverk.
Silja ritaði Frjáls Palestína á ensku á vegginn. Eigandi veggsins segir það skemmdarverk. Silja Glömmi

Plötusnúðurinn Silja Glömmi hefur verið sett í straff á Kaffibarnum og mun ekki þeyta þar skífum framar fyrir að hafa skrifað „Free Palestine“ á veggfóðraðan vegg á staðnum. Framkvæmdastjórinn segir veggjakrot viðvarandi vandamál og að þeim sem gerist uppvísir að slíku sé ekki boðið aftur inn á staðinn, allavega tímabundið.

Silja greindi frá því á Facebook í gær að henni hefði verið tjáð að hún hefði verið tekin af þeim plötusnúðavöktum á Kaffibarnum sem hún var á og að hún væri ekki velkominn á barinn. Bar sem hún hefði sótt síðan hún var unglingur og síðar þeytt skífum á í fimmtán ár.

Boðskapurinn sem skiptir máli

Silja segir í samtali við Vísi að hún hafi sagt frá málinu á Facebook til þess að halda boðskapnum um frjálsa Palestínu á lofti, ekki til þess að bera persónulegan harm sinn vegna lykta málsins á torg.

Hún rekur að í þarsíðustu viku hafi hún verið á Kaffibarnum til þess að minnast dánardags bróður vinar síns, sem sé frá Palestínu.

„Góður vinur sem hefur misst fleiri ástvini í þessu þjóðarmorði en ég hef tölu á. Ég endaði kvöldið á Kaffibarnum á því að skrifa með varalitnum mínum inni á kvennaklósetti: Free Palestine [lyndistákn af rauðu hjarta] Á veggfóður.“

Hún hafi ritað skilaboðin með varalit þar sem hún hafi talið að leikur einn væri að þrífa hann af veggfóðrinu ef vilji til þess væri fyrir hendi, auk þess sem henni hefði verið tjáð að til stæði að skipta veggfóðrinu út hvort sem er. Hún hafi ekki haft nokkurn ásetning til þess að eyðileggja nokkuð.

„Og mín skoðun er reyndar sú að klósett inni á börum megi endilega vera staður þar sem fólk getur tjáð sig með pennum eða varalitum. Það þekkist varla sá bar þar sem ekki eru setningar upp um alla veggi. Krot já. Alls staðar í heiminum er þetta þekkt. Partur af menningu. Ákveðið listform mætti segja. En það er bara skoðun og ekki allir sammála því.“

„Er ekki eðlilegra að setja morðingja í bann?“

Silja segir að eftir að henni bárust skilaboð frá meðeiganda að Kaffibarnum um að hún væri komin á bannlista hafi hún bent honum á að henni þætti galið að hann hleypti „alls konar vafasömu liði inn á barinn“.

„Til dæmis IDF hermönnunum sem flykkjast hingað til Íslands í svokallað „frí“ frá viðbjóðnum sem þeir eru að fremja á Gaza. Þjóðarmorðingjar. Betra væri að setja bann á þá en að óskapast yfir límmiðum og kroti og reka starfsmenn sína og fastakúnna og setja okkur í bann. Er ekki eðlilegra að setja morðingja í bann??? Nei takk, mig langar ekki að ræða þetta yfir MORGUNkaffibolla, kæri meðeigandi. Höfum ekkert að ræða.“

Lítill minnihluti hafi gaman af veggjakroti

Ægir Þormar Dagsson er framkvæmdastjóri Kaffibarsins og á fimmtung í honum. Hann segir í samtali við Vísi að mjög algengt sé að fólk kroti á salernisveggi Kaffibarsins líkt og annarra skemmtistaða, sem sé hvimleitt enda keppist eigendur staðarins við að halda salernunum snyrtilegum.

Langtum fleiri viðskiptavinir vilji hafa salernin snyrtileg en útkrotuð.

„Ef þú krotar út eða skemmir eitthvað, þá segir það sig bara sjálft. Þetta er ekki í fyrsta skiptið og það væri óskandi að þetta væri síðasta skiptið.“

Fólk sé ekki á bannlista að eilífu

Ægir segir að á þeim átján árum sem hann hefur komið að rekstri kaffibarsins hafi mikill fjöldi fólks unnið sér inn sæti á bannlista, hvort sem það er fyrir veggjakrot eða aðra miður heppilega hegðun.

„Ef þú ert með veislu heima hjá þér og vinur þinn fer inn á klósett og gerir svona, þú ert ekkert að bjóða honum aftur næstu helgi. Fólk verður að taka sér pásu ef það getur ekki hagað sér, verið með mannasiði og tekið tillit til annarra. Ég held að allflestir finni sér leið inn með tíð og tíma. Þetta er ekkert ævilangt bann.“

Hefur ekki áhyggjur af sniðgöngu

Færsla Silju hefur vekið mikil viðbrögð og nokkuð margir hafa lýst því yfir að þeir ætli að sniðganga Kaffibarinn vegna málsins. 

„Megi Kaffibarinn og eigendur hans verða gjaldþroti að bráð“, „ömurleg hegðun hjá eigendum, skil ekkert hvað þeim gengur eiginlega til. Meira ruglið, stend með þér og fer ekki á kaffibarinn“ og „Er Georg Bjarnfreðarsson tekinn við Kaffibarnum?“ eru meðal athugasemda sem ritaðar hafa verið undir færsluna.

Ægir segir mögulegt að einhverjir muni sniðganga Kaffibarinn vegna málsins en hann hafi ekki teljandi áhyggjur af því.

„Ef þetta fólk ætlaði að koma hingað að krota og skemma þá er kannski ágætt að það komi ekki.“

Loks segir hann að efni skilaboðanna skipti engu máli.

„Við erum ekkert pólitískir, það er langt því frá. Það eru einhverjir aðrir að snúa þessu upp í að þetta hafi eitthvað með það að gera. Það hefur staðið þarna Guns N' Roses, Sigur rós, í gamla daga, mamma er best, skilur þú? Fyrir mér er þetta bara krot sem þarf að þrífa.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×