Innlent

Gleði og sam­vera í 60 plús leik­fimi á Sel­fossi

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Stór hópur eldri borgara mætir í leikfimina tvisvar í viku hjá Trausta Rafni.
Stór hópur eldri borgara mætir í leikfimina tvisvar í viku hjá Trausta Rafni. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Eldri borgarar á Selfossi eru duglegir að hreyfa sig því að stór hópur þeirra mætir í leikfimi tvisvar í viku í sérstaka heilsueflingu undir stjórn íþróttakennara. Leikfimin kostar ekki krónu, allt í boði Sveitarfélagsins Árborgar.

Hér erum við að tala um heilsueflingu fyrir 60 plús íbúa en kennari í tímunum er Trausti Rafn. Hægt er að velja um mismunandi tímasetningar á þriðjudögum og fimmtudögum en hver tími er klukkustund. Svo eru líka tímar á Stokkseyri og Eyrarbakka.

„Þetta er mjög vel sótt í sveitarfélaginu. Eins og í þessum tíma, sem þú ert að heimsækja núna eru um 80 manns og í öllu sveitarfélaginu þá eru að sækja kannski eitthvað í kringum 150 manns þessa þjónustu”, segir Trausti Rafn Björnsson, forstöðumaður 60 plús heilsueflingar í Sveitarfélaginu Árborg.

Trausti Rafn Björnsson, sem er forstöðumaður 60 plús heilsueflingar í Sveitarfélaginu ÁrborgMagnús Hlynur Hreiðarsson

Hvað ertu svona að láta fólkið aðallega gera?

„Við erum að gera allskyns hluti. Við erum að vinna með teygjur, handlóð og eigin líkamsþyngd. Við tökum á mörgum hlutum og mörgum vöðvahópum,” bætir Trausti Rafn við.

Ekkert kostar í leikfimina, Sveitarfélagið Árborg býður.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Þátttakendurnir eru alsælir með tímana og æfingarnar hjá Trausta.

„Þetta er líka félagslegt, þetta er ekki bara hreyfing heldur kemur fólk saman og spjallar,” segir Jón Vilhjálmsson.

„Þetta er alveg frábært, maður bara hlakkar til hvers dags,” segir Ingibjörg S. Guðmundsdóttir.

Og gaman að sjá þessa miklu þátttöku, er það ekki?

„Já, það er það, það eru alltaf að koma ný og ný andlit, sem maður hefur ekki séð áður og mikil þátttaka bara,” segir Ingibjörg.

Hvað segir þú, ert þetta ekki skemmtilegt?

„Bara æðislegt, ég er rosalega ánægð með þetta. Þjálfarinn er alveg frábær og besta leikfimin, sem ég hef komist í, búin að prófa víða,” segir Árný Heiðarsdóttir.

„Þetta er alveg frábært maður. Það er stutt síðan að ég flutti á Selfoss og það er allt í gangi hérna, þannig að manni líður bara vel eftir svona leikfimi,” segir Karl Helgi Gíslason.

„Þetta er alveg toppurinn,” segir Sigríður Sæland.

Og allt í boði sveitarfélagsins?

„Allt í boði, þetta er frábært félag og sveitarfélag að gefa okkur þetta tækifæri að vera svona saman og hafa gleðina með okkur,” segir Sigríður alsæl með leikfimina.

Karl Helgi Gíslason, þátttakandi í leikfiminni en hann er mjög ánægður með tímana og að fá þetta tækifæri til aukinnar hreyfingar.Magnús Hlynur Hreiðarsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×