Lífið

Glæsibústaðir yfir hundrað milljónum

Svava Marín Óskarsdóttir skrifar
Á fasteignavef Vísis er að finna fjöldann allan af glæsilegum sumarbústöðum.
Á fasteignavef Vísis er að finna fjöldann allan af glæsilegum sumarbústöðum.

Það jafnast fátt á við notalega samveru í sumarbústað þar sem kyrrðin og óspillt náttúran er alltumlykjandi. Á fasteignavef Vísis er að finna fjölbreytt úrval sumarbústaða í öllum stærðum og gerðum.

Lífið á Vísis hefur sett saman lista yfir glæsileg sumarhús sem eiga það sameiginlegt að bera með sér ákveðinn lúxus og verð þeirra fer yfir hundrað milljónir króna.

Þórsstígur 27

Við Þórsstíg í Grímsnesi er til sölu 183 fermetra heilsárshús, byggt árið 2021. Eignin samanstendur af aðalhúsi, gestahúsi, stóru verönd með heitum potti, saunahúsi, geymsluskúr og stóru bílastæði. Gólfsíðir gluggar tryggja mikla birtu og fanga fallegt útsýni úr húsinu.

Húsið stendur á 9.000 fermetra lóð með útsýni til suðurs, vesturs og til fjalla í norðri.

Ásett verð er 143,9 milljónir króna.

Þrastahólar 2

Við Þrastahóla í Grímsnes- og Grafningshreppi er að finna glæsilegt og nýlegt heilsárshús á eignarlóð með einstöku útsýni. Húsið var byggt árið 2021, er 185 fm að stærð og skiptist í þrjú svefnherbergi og þrjú baðherbergi. 

Ásett verð er 138 milljónir króna.

Dagverðarnes 76

Við Dagvarðarnes í Borgarnesi er að finna tveggja hæða sumarhús með glæsilegu útsýni yfir Skorradalsvatn. 

Húsið er 184 fermetrar að stærð og byggt árið 2001. Neðri hæðin skiptist í forstofu, stofu, baðherbergi með sturtu, hitakompu, geymslu og rými sem hægt er að breyta í tvö herbergi, auk útgengis á pall. Efri hæðin skiptist í eldhús, stofu með arni og útsýni, baðherbergi, þrjú svefnherbergi með svefnlofti, þvottahús og er með þrjá innganga. Lóðin er kjarri vaxin á skjólgóðum stað og svæðið er lokað með rafmagnshliði.

Ásett verð er 124,9 milljónir króna.

Hvammar 26

Við Hvamma í Grímsnesi stendur afar huggulegt og smekklegt 99 fermetra hús sem var byggt árið 1998. Við húsið er sér 20 fermetra gestahús, sauna, heitur og kaldur pottur ásamt útisturtu. Húsið hefur verið mikið endurnýjað og innréttað á smekklegan máta. 

Veggir innandyra eru málaðir dökkbláum lit, en loft og gluggar í hvítu. Þetta samspil gefur rýminu glæsilegt yfirbragð og smá konunglegan fíling.

Ásett verð er 114 milljónir króna.

Giljatunga 34

Við Giljatungu stendur 190 fermetra heilsárshús sem var byggt árið 2020. Þar af er 40 fermetra bílskúr. Húsið stendur á virkilega fallegri eignalóð efst í Ásgarðslandi í hlíðum Búrfells. 

Borðstofa, stofa og eldhús í opnu og björtu rými með stórum gólfsíðum gluggum svo hægt sé að njóta útsýnisins sem best. Fjögur rúmgóð svefnherbergi eru í húsinu. Eitt þeirra er hjónasvíta og inn af henni er sér baðherbergi og rennihurð út á sólpall.

Ásett verð er 170 milljónir króna.

Víðibrekka 21

Við Víðibrekku 21 í Grímsnesi stendur glæsilegur og stílhreinn 134 fermetra sumarbústaður. Við húsið er 40 fermetra bílskúr og stór viðarpallur með heitum potti og saunu

Stofa og eldhús er í opnu og björtu alrými með flísum á gólfi. Þaðan er útgengt í stóra sólstofu með gluggum í allar áttir svo hægt sé að njóta útsýnisins sem best.

Ásett verð er 129 milljónir króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.