Erlent

Sá sem ók á skrúð­göngu Liverpool-manna lýsti yfir sak­leysi

Kjartan Kjartansson skrifar
Rannsakendur á vettvangi þar sem ökumaður ók bíl sínum yfir hóp stuðningsmanna Liverpool í maí.
Rannsakendur á vettvangi þar sem ökumaður ók bíl sínum yfir hóp stuðningsmanna Liverpool í maí. AP/Jon Super

Karlmaður á sextugsaldri sem slasaði tugi manna þegar hann ók bíl sínum inn í mannfjölda þegar stuðningsmenn enska knattspyrnuliðsins Liverpool fögnuðu sigri í maí lýsti sig saklausan af ákærum þegar hann kom fyrir dómara í dag.

Á fimmta tug manna slösuðust þegar Paul Doyle, 53 ára gamall karlmaður, ók inn í skrúðgönguna í Liverpool 27. maí. Yngsta fórnarlambið var sex mánaða gamalt en það elsta 77 ára, að sögn AP-fréttastofunnar.

Doyle er ákærður fyrir stórfelldar líkamsárásir, tilraunir til stórfelldra líkamsárása, ofsaakstur og óspektir. Hann neitaði sök í öllum ákæruliðum sem ná til 29 fórnarlamba. Réttarhöld yfir honum eiga að hefjast í nóvember.

Talið er að Doyle hafi komist fram hjá lokunarpóstum vegna skrúðgöngunnar með því að elta sjúkrabíl sem var hleypt í gegn. Hann ók síðan niður fólk á bíl sínum í fjölfarinni götu.

Harmleikurinn varpaði skugga á sigurgleði aðdáenda Liverpool sem fögnuðu Englangsmeistaratitli.


Tengdar fréttir

Fleiri ákærur væntanlegar í Liverpool

Maðurinn sem ákærður hefur verið fyrir að keyra inn í þvögu fólks í miðborg Liverpool á dögunum mætti í fyrsta sinn í dómsal í dag. Þar var ákveðið að hann yrði áfram í gæsluvarðhaldi á meðan réttað verður yfir honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×