Innlent

Krist­rún fundar með Selenskí og öðrum leið­togum í dag

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Frá heimsókn Vólódímír Selenskí á Norðurlandaráðsþingi á Íslandi.
Frá heimsókn Vólódímír Selenskí á Norðurlandaráðsþingi á Íslandi. Vísir/Vilhelm

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra sækir fund með Selenskí Úkraínuforseta og Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur ásamt öðrum leiðtogum Norðurlanda og Eystrasaltsríkja í Kaupmannahöfn í dag.

Mikil öryggisgæsla við embættisbústað danska forsætisráðherrans vakti athygli danskra fjölmiðla snemma í morgun og í fyrstu vörðust yfirvöld allra fregna um hvers vegna þar væri mikill lögregluviðbúnaður. Nú liggur fyrir að það er vegna heimsóknar Úkraínuforseta. 

Boðað hefur verið til blaðamannafundar með Selenskí og Frederiksen síðdegis að fundi leiðtoganna loknum en um er að ræða vinnufund þar sem stuðningur NB8 ríkjanna svokölluðu við Úkraínu og hvernig megi efla þann stuðning frekar verður meðal annars á dagksrá. 

Samráð um stuðning við Úkraínu

Í tilkynningu frá Stjórnarráði Íslands segir að fundurinn hafi verið boðaður með skömmum fyrirvara. 

„Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra sækir fundinn, sem boðaður var með skömmum fyrirvara, og er haldinn með það að markmiði að undirstrika einarðan stuðning NB8-ríkjanna við varnarbaráttu Úkraínumanna gegn ólöglegri innrás Rússa.

Munu leiðtogarnir m.a. ræða stöðu mála í Úkraínu og það víðfeðma samráð sem átt hefur sér stað að undanförnu meðal ríkjahóps til stuðnings friði í Úkraínu (e. Coalition of the Willing). Er það yfirlýstur vilji NB8-ríkjanna að viðhalda staðföstum stuðningi við Úkraínu. Búist er við að NB8-ríkin og Úkraína munu gefa út sameiginlega yfirlýsingu eftir fundinn sem fram fer í Marienborg, embættisbústað forsætisráðherra Danmerkur,“ segir í tilkynningunni.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×