Innlent

Við­reisn dalar en annars lítil hreyfing á fylgi flokka

Kjartan Kjartansson skrifar
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra og formaður Viðreisnar. Flokkur hennar er sá eini sem mælist með tölfræðilega marktækt minna fylgi en í síðustu könnun Gallup.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra og formaður Viðreisnar. Flokkur hennar er sá eini sem mælist með tölfræðilega marktækt minna fylgi en í síðustu könnun Gallup. Vísir/Ívar

Fylgi Viðreisnar dalar um tæp tvö prósentustig á milli mánaða í skoðanakönnun Gallup. Breytingar á fylgi annarra flokka eru innan skekkjumarka. Samfylkingin mælist enn langstærsti flokkurinn með rúmlega þriðjungsfylgi.

Viðreisn mælist nú með 12,9 prósent í þjóðarpúlsi Gallup en flokkurinn var með 14,6 prósent í júlí. Fylgi allra annarra flokka breyttist um innan við prósentustig sem telst ekki tölfræðilega marktækur munur.

Tæplega tveir af hverjum þremur segist styðja ríkisstjórnina. Það er nokkuð hærra hlutfall en samanlagt fylgi ríkisstjórnarflokkanna þriggja sem mælist 55 prósent.

Samfylkingin mælist með 34,6 prósent fylgi, tæpum fjórtán prósentustigum meira en hann hlaut í þingkosningunum í fyrra. Flokkur fólksins er með 7,4 prósent sem er tæplega helmingi minna en hann fékk upp úr kjörkössunum.

Sjálfstæðisflokkurinn er sem fyrr stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn með 19,7 prósent fylgi. Á eftir honum kemur Miðflokkurinn með 10,7 prósent en Framsóknarflokkurinn rekur lestina með 4,5 prósent.

Flokkarnir tveir sem duttu út af þingi í síðustu kosningum, Vinstri græn og Píratar, sjá enn ekki til sólar. Þeir mælast með 3,7 og 3,5 prósent fylgi í könnuninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×