Innlent

„Mikill léttir“ af nýjum þing­flokks­for­manni

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Kolbrún fagnar nýjum þingflokksformanni Sjálfstæðisflokksins.
Kolbrún fagnar nýjum þingflokksformanni Sjálfstæðisflokksins. Vísir/Samsett

Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, þingkona Flokks fólksins, segir mikinn létti að Sjálfstæðisflokkurinn hafi fengið nýjan þingflokksformann. Hún hafi kviðið vetrinum undir fráfarandi forystu.

Ólafur Adolfsson, þingmaður Norðvesturkjördæmis, tók við þingformennsku Sjálfstæðisflokksins í gær og var breytingin samþykkt einróma. Hildur Sverrisdóttir hafði gegnt embætti þingflokksformanns síðustu tvö ár. Hún tilkynnti í fyrradag að hún myndi segja af sér þingformennsku vegna þess að hún vildi ekki kynda undir átök innan flokksins.

Í viðtali við fréttastofu í gær sagði Ólafur þjóðina orðna þreytta á málþófi og það tekur Kolbrún heilshugar undir.

„Ég var nefnilega farin að kvíða vetrinum því ég óttaðist mjög að stjórnarandstaðan ætlaði að halda uppi sama hætti og á síðasta þingi og eyðileggja möguleika ríkisstjórnarinnar á að koma nauðsynlegum málum í gegn. Nú finnst mér ég geta slakað aðeins á en ég hef þó enn þá miklar áhyggjur af þingflokksformönnum hinna stjórnarandstöðuflokkanna sem héldu úti botnlausu málþófi á síðasta þingi,“ segir Kolbrún í færslu sem hún birti á Facebook í dag.

Hún segir nýjan þingflokksformann hafa veitt henni nýja von um að þingið verði starfhæft á komandi þingvetri. Kvíði hafi legið á henni eins og mara í sumar.

„Það var martröð líkast,“ segir hún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×