Erlent

Rússar réðust á sendiskrif­stofu Evrópu­sam­bandsins í Kænu­garði

Kjartan Kjartansson skrifar
Slökkviliðsmenn bera særðan mann á börum úr rústum húss eftir harðar árásir Rússa á Kænugarð í nótt.
Slökkviliðsmenn bera særðan mann á börum úr rústum húss eftir harðar árásir Rússa á Kænugarð í nótt. AP/Efrem Lukatsky

Verulegar skemmdir urðu á sendiskrifstofu Evrópusambandsins í Kænugarði í hörðum dróna- og skotflaugaárásum Rússa á borgina í nótt. Engan sakaði þar en að minnsta kosti tólf óbreyttir borgarar létust í árásum í íbúðabyggð. Búist er við að tala látinna hækki.

Katarina Mathernova, sendifulltrúi Evrópusambandsins í Úkraínu, segir bygginguna sem hýsir skrifstofur sendinefndarinnar hafa skemmst verulega í höggbylgjunum frá stórfelldum árásum Rússa á borgina í nótt.

Starfsfólk sendinefndarinnar sakaði ekki en Mathernova segir að að minnsta kosti tíu borgarbúar séu látnir og þrjátíu særðir eftir árásirnar. AP-fréttastofan segir tólf látna og 48 særða í árásum næturinnar. Á meðal þeirra látnu séu börn á aldrinum tveggja, fjórtán og sautján ára. 

Enn var unnið að því að leita að fólki í rústum húsa í morgun. Búist er við því að tala látinna hækki.

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, fordæmdi árásirnar á borgaralega innviði í Kænugarði og krafðist þess að Rússar létu af þeim þegar í stað. Þær væru skýr vísbending um að Rússa ætluðu sér ekki að semja um frið.

António Costa, forseti leiðtogaráðs ESB, sakaði Rússa um að ráðast viljandi á sendiskrifstofurnar í Kænugarði. Andrii Sybiha, utanríkisráðherra Úkraínu, tók í sama streng og sagði árásina á erlenda erindreka klárt brot á Vínarsáttmálanum.

Velja skotflaugar fram yfir frið

Volodýmýr Selenskíj, forseti Úkraínu, sagði árásirnar sýna að Rússar veldur skotflaugar fram yfir samningaborðið.

„Við reiknum með viðbrögðum frá öllum í heiminum sem hafa kallað eftir friði en þegja nú æ oftar í stað þess að taka grundvallarafstöðu,“ skrifaði forsetinn á samfélagsmiðla.

Ekkert hefur þokast frekar í friðarumleitunum en rússnesk stjórnvöld hafa dregið lappirnar og jafnvel hert kröfur sínar á undanförnum vikum.

Eftir fund Vladímírs Pútín Rússlandsforseta og Donalds Trump Bandaríkjaforseta í Alaska á dögunum boðaði Trump að hann ætlaði að reyna að fá Pútín og Selenskíj saman að borðinu. Ekkert bendir þó til að Pútín ætli sér að gera það.


Tengdar fréttir

Rýnt í stöðuna í Úkraínu: Friður enn fjarlægur og Trump missir móðinn

Friður í Úkraínu virðist enn ekki á sjóndeildarhringnum þótt að nýtt líf hafi færst í viðræður í tengslum við fund Donalds Trump og Vladimírs Pútín, forseta Bandaríkjanna og Rússlands. Pútín virðist hafa sagt eitthvað annað við Trump en sá síðarnefndi heyrði. Á meðan heldur hæg framganga Rússa á víglínunni í Úkraínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×