Draugagangur í Alaska Hannes Pétursson skrifar 28. ágúst 2025 10:01 I Eftir lok heimsstyrjaldarinnar síðari voru stofnuð í Austur-Evrópu svokölluð alþýðulýðveldi. Það voru gervilýðveldi; einn stjórnmálaflokkur (kommúnistaflokkur) og leynilögregla hans fóru með æðstu völd og lágu á hleri við hvers manns dyr. Þessi lýðveldi lutu nær öll yfirumsjón valdhafa í Kreml, enda á því landabelti sem taldist áhrifasvæði Rússa eftir stríðslok. Lýðveldi alþýðunnar voru þeirrar náttúru að í hvert skipti sem borgararnir kröfðust aukinna lýðréttinda var því svarað beint frá Moskvu með hernaði. Einkum þótti vel gefast að aka skriðdrekum á manngrúa í stórborgum. Öll heimsbyggðin varð vitni að þessháttar aðförum í Austur-Þýzkalandi 1953, Ungverjalandi 1956 og Tékkóslóvakíu 1968. Margt manna var þá drepið, limlest eða fangelsað í þágu gervilýðveldanna og héngu þau saman óbreytt enn um sinn. Svo kom þar að Sovétríkin sjálf morknuðu í sundur innan frá, Berlínarmúrinn var brotinn niður haustið 1989, tákn valdakerfis Rússa, og fór þá skjótt hvert alþýðulýðveldið af öðru í kássu. En allmargar þjóðir Austur-Evrópu náðu nýrri viðspyrnu þegar þær slitu sig úr taumhaldi valdsherranna í Moskvu. Hin heimspólitísku þáttaskil urðu svo snögg að undrum sætir. Í Rússlandi gerðist það aftur á móti að leyniþjónustan, í félagi við olígarka og rússnesku rétttrúnaðarkirkjuna, færði sér upplausn ríkisins í nyt og varð úr kerfi sem kallast Sambandslýðveldið Rússland eða eitthvað þessháttar; og er gervilýðveldi með nýju sniði að því marki að nú er klerkavaldið haft með í steypunni. Í þessu kerfi heyja menn þjóðþing til málamynda, því forseti landsins er orðinn í reynd einráður. Hvers kyns andóf og múður heima fyrir gegn kerfinu er barið niður miskunnarlaust með drápum og harðræði í fangelsum, allt eftir hefð í gervilýðveldum. Þrautreyndur leyniþjónustumaður, í senn löglærður og hagfræðimenntaður, sem starfaði árin 1985-1990 í Austur-Þýzkalandi hinu sáluga (sat í Dresden), Vladímír Pútín, hefur lengi undanfarið haft forsetavald í þessu járnbenta lögregluríki undir krossi rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar. Yfir þá kirkju var settur gamall erindreki í sovésku leyniþjónustunni, KGB-maðurinn Kirill patríarki. Hann þvær af Pútín hvaða ódæði sem er jafnóðum með blessun í drottins nafni. Mjög þarfur maður á réttum stað. Auk þess kallar Pútín stundum á sjónvarpsmenn þegar hann gengur í kirkju, kveikir á löngu og mjóu kerti frammi fyrir helgimynd og signir sig. Það er eitthvert skemmtilegasta bíó sem völ er á. Pútín forseti kann mörg slægðarbrögð eins og leyniþjónustumanni sæmir. Honum tókst að ná hylli Borísar Jeltsíns, hæstráðanda til sjós og lands, þegar ringulreiðin eftir hrun Sovétríkjanna var með ósköpum og slungnir gaurar klófestu auðlindir ríkisins hverja af annarri fyrir skít og ekki neitt. Pútín komst til valda í Kreml að undirlagi Jeltsíns sem stóð á þeim tíma varla í lappirnar sökum langvarandi ofdrykkju. Hann lét af embætti síðla árs 1999 og nokkrum vikum seinna, sjálft aldamótaárið, var Pútín kjörinn forseti Rússlands. II Vladímír Pútín hafði ekki gegnt forsetaembætti nema skamma hríð þegar hann flutti langa ræðu í þéttskipaðri málstofu þýzka þingsins („Bundestag“) í Berlín. Þar stóð hann við púlt, viðfelldinn maður í sjón, ágætlega mæltur á tungu heimamanna og boðaði að Rússland hið nýja myndi vinna með öðrum ríkjum álfunnar að smíði hins „evrópska húss“ eins og hann tók til orða á líkingamáli. Það var að heyra sem nú skyldu blíðir vestanvindar leika um Rússíu! Nei, hitt er miklu sennilegra að þessi biskupsboðskapur Pútíns hafi verið einber tálbeita, því Rússland þarfnaðist velvildar og næðis meðan verið væri að ræsa fram fúamýrar sovétskipulagsins, komast þar niður á fast. Pútín hefur oftar en einu sinni sagt gjörvöllu mannkyni að hrun Sovétríkjanna sé alversta stórslysið í sögu 20. aldar. Og hann á sér eina meginhugsjón: endurreisn þess veldis undir nýrri kennitölu. Nokkru eftir að Pútín talaði til þingheims í Berlín hélt hann aftur ræðu á þýzkri grund (mig minnir árið 2007), en í það skiptið á móðurmáli sínu. Þetta var á hinni alþjóðlegu öryggisráðstefnu sem haldin er í München ár hvert. Og nú var komið annað hljóð í smjörstrokkinn. Svipþungur og af miklum hug þrumaði Pútín út úr sér vandlætingu á þeirri skipan heimsmála sem við lýði væri og þjónaði framar öllu vestrænum veldum; tími væri til kominn að breyta því, m.a. í þágu Rússlands. Og svo framvegis. Ýmsir fróðir menn líta svo á að ræða þessi marki þáttaskil: þar hafi Pútín „komið út úr skápnum“, þ.e. sett fram, skipulega og í áheyrn veraldar, ætlun sína um nýtt heimsveldishlutverk Rússlands, reist á þjóðrembulegum slavisma af gamalli sort, svo eitthvað sé nefnt. III Svo liðu árin. Og víkur nú sögunni til Alaska. Hinn 15. ágúst síðastliðinn komu þar saman til fundar þeir forsetarnir Donald Trump („leiðtogi hins frjálsa heims“ eins og vant er að kalla þá sem gegna forsetaembætti í Bandaríkjunum) og Vladímír Pútín. Á dagskrá voru einkum málefni Úkraínu. En litlu áður en fundurinn hæfist og Pútín kæmi á vettvang sté út úr flugvél sauðtryggur hestasveinn hans, Sergej Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, klæddur hvítum skyrtubol og hafði Pútín látið letra framan á bringustykkið skammstöfun Sovétríkjanna gömlu rétt eins og á hvert annað auglýsingaskilti. Þarna gekk Lavrov leiðar sinnar, draugur nýstiginn upp úr gröf kalda stríðsins og með þau boð frá Pútín að nú sæti stórveldi stalínismans aftur við taflborð sögunnar. Þetta átti sér stað innan bandarískrar herstöðvar. En ballið var ekki búið, því brátt sté Pútín úr flugvél sinni, gekk rösklega eftir rauðum dregli til móts við Trump sem heilsaði honum svo hjartanlega að sjálfur Gabríel erkiengill, beint af himnum kominn með guðs erindi, hefði ekki getað vænzt hlýlegri viðtöku á bandarískri grund. Þess skal getið að þegar hér er komið endurreisn hins stalíníska gervilýðveldis Í Rússlandi sætir Vladímír Pútín ákæru alþjóðaglæpadómstólsins fyrir glæpi gegn mannkyni og getur ekki ferðazt óhultur um mikinn hluta jarðar, yrði handtekinn þar samstundis. Þannig er draugurinn Pútín, leikinn í Alaska af Lavrov utanríkisráðherra, ekki aðeins draugur aftan úr stalínismanum, heldur og misindisdraugur samkvæmt dómsákæru og mun það vera einsdæmi í draugasögum. IV Stórveldisáætlun Rússa, eftir teikningum Pútíns, hefur í vesturátt náð fram að ganga að því leyti að Hvíta-Rússland er orðið það leppríki, sú frystigeymsla sem hann gerir sig ánægðan með í bili. Verr spilaðist úr þegar fara átti sömu leið í Úkraínu, þótt enn standi það til. Að sjálfsögðu var fyrsta skrefið að fótum troða þá yfirlýsingu („memorandum“) sem Rússland, Bandaríkin og Bretland gáfu út sameiginlega 5. desember 1994 og kennd er við Búdapest. Þetta voru ríkin sem véluðu um landaskipan á meginlandi Evrópu við lok heimsstyrjaldarinnar. Þeir sem rituðu nöfn sín á skjalið fyrir hönd þríveldanna voru þessir: Boris Jeltsín Rússlandsforseti, Bill Clinton Bandaríkjaforseti, John Major forsætisráðherra Bretlands. Í yfirlýsingunni hétu ríkin því að virða í hvívetna landamæri og fullveldi þriggja fyrrverandi sovétlýðvelda gegn því að þau afsöluðu sér öllum kjarnorkuvopnum á sínu landi frá tímum Sovétríkjanna. Hin nýju ríki voru Úkraína, Hvíta-Rússland og Kasakstan. Úkraína var eitt mesta kjarnorkuvopnabúr heims, en ráðamenn þar töldu fullkomið hald í öryggistryggingu þríveldanna, létu öll kjarnorkuvopn af hendi og væntu í staðinn frelsis og friðar. En það reyndust tálvonir einar eftir valdatöku Pútíns. Hann tók þegar við fyrstu hentugleika að ýta undir ókyrrð í austurhéruðum Úkraínu þar sem býr rússneskumælandi minnihluti þjóðarinnar, allt í því skyni að veikja úkraínska ríkið sér í hag. Úr þessu urðu þrætur sem reynt var að leysa diplómatískt (það þóf hefur verið kennt við Minsk), en kom fyrir ekki, m.a. vegna þess að Pútín hvíslaði því að aðskilnaðarsinnum í austurhéruðunum að krefjast neitunarvalds í utanríkismálum Úkraínu! Vitaskuld fær ekkert ríki staðizt, ef lítill minnihluti hefur neitunarvald í slíkum grundvallarefnum. Og samkvæmt ráðagerð herti Pútín jafnt og þétt ásókn sína í Úkraínu. Hann hugðist koma til valda í Kænugarði leppstjórn með gamla laginu, en meginhluti úkraínsku þjóðarinnar hafði fengið meira en nóg af Rússaveldi, væmdi við því, og stefndi þess í stað að nýju þjóðlífi í sátt við vestræn lýðræðisríki. Náði andúðin á ásælni Rússa hæstum hæðum í þeim stórbrotnu mótmælum sem urðu í Úkraínu veturinn 2013-14. Viljastyrkur úkraínskra borgara fór þá sem logandi kyndill um heim allan. Atburðarásin leiddi síðan til þess að Vólódímír Selenskí, frambjóðandi frelsissinna, var þjóðkjörinn forseti Úkraínu með glæsilegum yfirburðum. V Að vonum hnyklaði Pútín mjög brúnir yfir þróun mála í Úkraínu, landi sem hann hafði einsett sér að ræna. Og til þess nú að verða ekki of seinn fyrir með það hertók hann undir lok febrúarmánaðar 2014 Krímskaga með mikilli slægð, því honum leizt ekki á, ef rússneski flotinn missti aðgengi að herskipahöfnum við Svartahaf. Þetta var fyrsti áfanginn, bráðnauðsynlegur. Jafnframt efldi Pútín aðskilnaðarsinna í austurhéruðum Úkraínu að vopnum og liðsauka. Og hófst þá, 2014, sá hernaður Rússa gegn Úkraínumönnum, ættjörð þeirra, lífi og eignum, sem enn stendur. En þó svo barizt væri missiri eftir missiri austast í Úkraínu varð Pútín lítt ágengt; landvinningar ekki til að státa af og gekk því hægar en í ráði var að sölsa undir sig auðlindir í úkraínskri jörð eða hin óravíðu og sífrjóu akurlönd, „brauðkörfu heimsins“. Og svo þetta lýðfrelsiskjaftæði í Kænugarði. Pútín varð ljóst að nú gagnaðist ekkert minna en góða sovétaðferðin sem notuð var til að binda enda á þess háttar kjaftæði í Austur-Berlín 1953, Búdapest 1956, Prag 1968, en í efsta veldi. Þegar Pútín braut alþjóðalög og stofnskrá Sameinuðu þjóðanna með því að slá eign sinni á Krímskaga hafði hann ákveðið að Úkraína væri ekki til sem ríki meðal ríkja. Hann gaf yfirlýsingu Rússlandsforseta í Búdapest 1994 langt nef. Hvers var annars að vænta af KGB-manni? Hann var kominn á fullan skrið. Og veturinn 2021-2022 dró hann saman ofurefli liðs til storkunar Úkraínumönnum. En hvar? Jú, við landamærin að Úkraínu, ríki sem þó var ekki til! Fullyrðing Pútíns varð um leið sjálfri sér sundurþykk, því ríki sem er ekki til á sér vitanlega engin landamæri. Og Sergej Lavrov féll í sama pytt þegar fréttamaður spurði hann hvort Rússar hygðu á innrás í Úkraínu. Lavrov aftók það, sagði að þarna ættu sér stað heræfingar innan rússneskra landamæra sem útlendingum kæmu ekkert við. Í svarinu fólst óvart sú játning að Úkraína ætti löghelg landamæri að Rússlandi! Í febrúarmánuði 2022 gerðu Rússar svo allsherjarinnrás í Úkraínu eins og menn sáu fyrir, lygamunnur á borð við Sergej Lavrov breytti engu um það. Pútín strangbannaði þegnum sínum að kalla innrásina stríð, enda var honum ógerlegt að lýsa stríði á hendur ríki sem hann sagði að væri ekki til, heldur skyldi hvers konar eyðilegging mannvirkja í Úkraínu, öll manndráp, allt brottnám barna í stórhópum til Rússlands, allar nauðganir kallast „sérstök hernaðaraðgerð“. Kirill patríarki hefur margblessað þessa áætlun fyrir hönd Rússlands, hinnar miklu Móður. VI Þeir sem hafa fylgzt með heimsfréttum hljóta að muna að innrás Rússa í Úkraínu hófst sem leiftursókn („Blitzkrieg“) að hætti þýzkra nazista forðum. Ráðizt var á flugvöllinn í Kænugarði úr lofti, en úr norðri streymdu skriðdrekafylkingar í átt til höfuðborgarinnar. Þetta átti að vera kverkatak sem gert hafði sitt gagn eftir þrjá til fjóra daga. En úkraínski herinn reyndist snarpari fyrir og þróttmeiri en Pútín bjóst við og snerist leifturstríð hans upp í sneypuför. Hann lét því færa til vígstöðvanna í Austur-Úkraínu það sem eftir var af heraflanum. Og allt síðan þá hafa verið háðir harðir bardagar þar um slóðir, Rússar sent nýjan og nýjan liðsauka til vígstöðvanna í Austur-Úkraínu og gert linnulausar loftárásir á borgir og bæi og útatað með jarðsprengjum stór landflæmi. Hin „sérstaka hernaðaraðgerð“ er orðin þeim margfalt örðugri og dýrkeyptari en þá óraði fyrir í upphafi, því Úkraínumenn, þótt liðfærri séu, hafa varið ættjörð sína, frelsi og framtíð, af hinni mestu hreysti, studdir vinaþjóðum sem lagt hafa þeim til vopn og fjármuni og fleira í þarfir ríkisins, enda fylgir því óheyrilegur kostnaður að heyja styrjöld ár eftir ár. Þessar vinaþjóðir skeyttu sem betur fer í engu þeirri hótun Pútíns við upphaf innrásarinnar að hver sá hlyti verra af sem rétti Úkraínumönnum hjálparhönd, tæpti meira að segja á atómstyrjöld, yrði rússnesk jörð fyrir skoti í átökunum. Þarna, eins og oftar, setti Pútín vilja sinn ofar alþjóðalögum; þjóð sem verður fyrir hernaðarinnrás er leyfilegt að verjast með tiltækum ráðum. Hlálegast er þó að Pútín sjálfum þykir í góðu lagi að leita liðsinnis annarra í hernaði sínum gegn Úkraínu; hefur keypt af Írönum ósköpin öll af vígtólum, einnig Norður-Kóreu; auk þess fengið sendar þaðan úr austri nokkrar þúsundir soldáta til slátrunar í fremstu víglínu og getað létt á herkvaðningu heima fyrir sem því svarar. Annars er það í skemmstu máli að segja um stríðs-ávörp Pútíns að þau eru gegnsúrsuð rússnesku þjóðernisdrambi og fyrirlitningu á vestrænu lýðræði og þjóðlífsháttum. Allt er heilagt og heilbrigt í Rússlandi, allt vanheilagt og spillt vestan landamæra þess. Pútín hefur í ávörpum sínum (og að því er virðist sér til málsbóta) haft á orði að Rússar og Úkraínumenn séu ein þjóð. Það eru lygar. En trúi Pútín þessu í raun og veru, þá er hin „sérstaka hernaðaraðgerð“ ennþá neðar allri viðurstyggð en ella, hún er þá aðför að eigin þjóð, bróðurmorð. Raunar hefur Pútín þjálfun til slíkra böðulsverka, því hann studdi Assad Sýrlandsforseta óspart þegar sá harðstjóri háði djöfullegt stríð gegn þjóð sinni. Pútín lét þá vélar úr rússneska flughernum ausa eldi og brennisteini yfir borgir og byggðir Sýrlands unz þær lágu í rjúkandi rústum. Þetta var innt af hendi í þakkarskyni fyrir flotahöfn Rússa í Sýrlandi, einu herskipahöfn þeirra við Miðjarðarhaf. Nú er Assad flúinn úr landi, hefur holað sér niður í Moskvu, þess fullviss að verða ekki framseldur, þurfa aldrei að gjalda neitt fyrir illvirki sín. Pútín sér um það. VII Það sem tínt hefur verið til hér að framan er aðeins brot alls þess sem flaug gegnum hug manns þegar Donald Trump og Vladímír Pútín heilsuðust með miklum kærleikum á rauða dreglinum í Alaska. Þeir brostu sínu blíðasta hvor til annars og Trump lét ekki duga að taka í hönd á gesti sínum, heldur klappaði honum líka á handarbakið. Eftir það héldu þeir til fundarins, hlið við hlið í sérbifreið Trumps. Bræðralagið mátti ekki fara framhjá neinum. Fundurinn varð styttri en menn ætluðu, þó nógu langur til þess að Pútín tækist að hræra svo í heilagraut Trumps að Bandaríkjaforseti var orðinn að páfagauk á öxl Rússlandsforseta þegar þeir tveir birtust á sviði frammi fyrir fréttamönnum eftir fundarlok. Að vísu hafði Trump oft áður étið upp falsrök Rússa fyrir hernaði sínum gegn Úkraínumönnum, en nú át hann líka upp sjálfa áætlun þeirra samkvæmt vígstöðunni eins og hún er og gerði að sinni, þ.e. að sleppa skilyrðislausu vopnahléi (deginum áður var skilyrðislaust vopnahlé meginkrafa Trumps), en stefna þess í stað að friðarsamningum eins fljótt og auðið væri. Sú áætlun veitir Rússum færi á að berjast eins og þá lystir, samtímis því sem þeir draga eftir geðþótta á langinn viðræður um frið. Annaðhvort sá Trump ekki í gegnum þetta leikbragð eða Pútín fengið hann með flærðarfullum viðskiptaloforðum til að samþykkja það. Hvernig skyldi ganga að gera endanlega friðarsamninga meðan barizt er og víglínan á stöðugri hreyfingu? VIII Donald Trump er ekki af sömu ættkvísl drauga og Vladímír Pútín, hann er fédraugur aftan úr tollmúratímanum og skilur í utanríkismálum ekki upp né niður í neinu nema það hafi áður verið umreiknað handa honum í dollara. Og nú hefur hann látið umreikna fyrir sig Úkraínustríðið og dauðsér eftir þeim fjármunum sem Bandaríkin hafa reitt fram í þágu frelsis og fullveldis Úkraínu, þótt þeir séu stórum minni sem hlutfall af vergri landsframleiðslu en framlag margra annarra ríkja, nálægt hálfu prósenti þegar ég vissi síðast. Trump hefur heimtað að fá aðstoðina endurgreidda, kallar Úkraínustríðið til heimabrúks „stríð Bidens“, ekki „stríð Pútíns“, segir að aldrei myndi komið hafa til þessa stríðs, hefði hann setið í Hvíta húsinu. Sennilega er það rétt, Pútín hefði þá bardagalaust fengið Úkraínu afhenta, heila og óskipta, gegn góðum námuvinnsludíl til 99 ára og fleiri fríðindum. Þetta gaf Pútín sjálfur í skyn í smeðjulegu ávarpi sínu á sviðinu í Alaska. Þar talaði hann tungumjúkur um sameiginlega hagsmuni Rússlands og Bandaríkjanna og hélt á meðan niðri í sér ælunni, þ.e. ógeðinu á vestrænu stjórnarfari og vestrænum ítökum í veröldinni, ógeði sem hann heldur ekki aftur af úr valdasæti sínu heima í Rússlandi. Að einu leyti kom Pútín þó fram í Alaska eins og hann er klæddur: Hann sagði allar umkvartanir (eða kröfur á hans máli) Rússa væru enn þær sömu og við upphaf átakanna í Úkraínu. Raunar eru þetta úrslitakostir af þeirra hálfu. Trump féllst á þá í verulegum atriðum. Eina af umkvörtunum Rússa get ég ekki stillt mig um að nefna nú þegar: Pútín hefur klifað á því að Atlantshafsbandalagið þrengi svo mjög að Rússlandi að ekki sé líðandi að Úkraína fái nokkurn tíma aðild að þeim samtökum. Undir þetta tekur Trump og ýmsir pokabiskupar í valdaklíku hans. Frá þeim heyrist að engin von sé til þess að Rússar þoli Nató „alveg fast upp við þröskuldinn hjá sér“. Má skilja þetta svo að þann þröskuld sé hvergi að finna annars staðar en í Úkraínu. Þó vill þannig til að á fundi Trumps með nokkrum evrópskum þjóðarleiðtogum í Hvíta húsinu 18. ágúst síðastliðinn greindi Alexander Stubb, forseti Finnlands, hátt og skýrt frá því beint fyrir framan nefið á Trump að Natóþjóðin Finnar ættu landamæri að Rússlandi sem væru á annað þúsund kílómetrar að lengd. Hvers vegna líða Rússar það? Kalíníngrad er síðan kapítuli út af fyrir sig. Kalíníngrad? Hvaða staður er það? Jú, Kalíníngrad er norðurhluti Austur-Prússlands (suðurhlutinn er nú innan pólskra landamæra) og var í þýzka ríkinu fram til styrjaldarloka 1945. Þá heimtaði Stalín sneið af Austur-Prússlandi og fékk hana með góðu samþykki Bandaríkjamanna og Breta. Stalín vantaði nefnilega „íslausa“ höfn við Eystrasalt og hafði augastað á hinni fornfrægu hafnarborg Austur-Prússlands, Königsberg. Rússar gáfu landshlutanum bráðlega nýtt nafn (létu heita eftir Míkhaíl Kalínín, nýdauðum), en hafa gert meira: breytt Kalíníngrad í eitt af sínum válegustu víghreiðrum. Og kemur nú rúsínan fræga í pylsuendanum: Þegar Sovétríkin og þar með Varsjárbandalagið moluðust í sundur og Eystrasaltslönd og Pólland náðu aftur frelsi sínu og gengu í Atlantshafsbandalagið, þá sat Kalíníngrad eftir sem hólmi innan vébanda Natóríkja! Og hafa því herskáir Rússar stundum vakið athygli Evrópubúa á því með háðsyrðum hve góð vígstaðan sé í Kalíníngrad, hve mjög hún stytti leið rússneskra atómflauga til helztu höfuðborga óvina í álfunni, tilgreina hverja vegalengd fyrir sig í mínútum, 4 mínútur í þennan stað, 5 mínútur í hinn og annað eftir því. Vígstöðu Rússa í Kalíníngrad má líkja við það að Nató réði yfir álitlegri landspildu skammt suðaustan St. Pétursborgar og hefði birgt sig þar upp af öllum þeim vopnum og búnaði sem heyrir til nútímahernaði. Gæti Pútín haft nokkuð við það athuga, fyrst honum þykir ekki umtalsvert að eiga innan sjálfra vébanda Nató slíkt víghreiður dauða og djöfuls sem Kalíníngrad? IX Augljóst hernaðarmarkmið Pútíns Rússlandsforseta er að leggja Úkraínu alla að fótum sér. Hann bjóst við að það yrði svo til ókeypis, ein leiftursókn inn í landið dygði. En öðruvísi fór. Þó hefur honum, með geypilegum herkostnaði og mannfalli, tekizt að setja klærnar í stór héruð austanvert í Úkraínu, innlimað þau í Rússland eftir „kosningar“ sem hann lét halda þar. Pútín setur að skilyrði að landrán þetta verði í friðarsamningum talið lögmætt, gott og blessað í alla staði; krefst þar á ofan lands sem rússneski herinn hefur ekki enn náð á sitt vald og liggur vestan núverandi víglínu, mjög víggirt og hernaðarlega mikilvægt. Trump dregur taum Pútíns í þessum málatilbúnaði. Honum líka vel öll landrán, hefur sjálfur í hyggju að ná undir sig Panamaskurðinum, Kanada, Grænlandi og Gaza. Það vefst því ekki fyrir honum að ónýta undirskrift Clintons í Búdapest-skjalinu árið 1994. Annars hefur Trump í nógu að snúast innanlands, hann hamast við að gera Bandaríkin að mesta gervilýðveldi heims eftir forskrift gamalla Moskvumanna, enda hófst gullöld Bandaríkjanna á nákvæmlega sama mínútubroti og hann sór embættiseið fyrr á þessu ári, að hans eigin sögn. Já, ekki ber allt upp á sama daginn, stendur þar. Og manni verður hugsað til Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Mikil skelfingar ósköp hefur það apparat gengið sér til húðar, ekki sízt fyrir tilverknað Rússa og Bandaríkjamanna sem misbeitt hafa neitunarvaldi sínu hvað eftir annað og níðzt á þeim alþjóðalögum og rétti sem þeim var trúað til að vernda. Persónugervingar þeirrar valdníðslu heilsuðust með virktum á rauða dreglinum í Alaska. Höfundur er rithöfundur. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Bandaríkin Rússland Donald Trump Vladimír Pútín Innrás Rússa í Úkraínu Sovétríkin Kalda stríðið Mest lesið 76 dagar Erlingur Sigvaldason Skoðun Á hvaða ári er Inga Sæland stödd? Snorri Másson Skoðun Draugagangur í Alaska Hannes Pétursson Skoðun Húsnæðisbæturnar sem hurfu Ragnar Sigurður Kristjánsson Skoðun Sporin þín Valtýr Soffía Sigurðardóttir Skoðun Háskólaþorpið Bifröst og fólkið sem gleymdist Margrét Jónsdóttir Njarðvík Skoðun Hoppað í drullipolli við hliðina á Snorra Mássyni. Um allskonar fólk, líka í Miðflokknum Ægir Lúðvíksson Skoðun Loftslagsverkfræði: Verkefni sem borgar sig ekki að láta bíða Snjólaug Árnadóttir,Páll Gunnarsson Skoðun Ákall til KKÍ og íslensku íþróttahreyfingarinnar Ragnhildur Hólmgeirsdóttir,Oddný Björg Rafnsdóttir,Svanhildur Anja Ástþórsdóttir,Guðjón Magnússon,Margrét Rut Eddudóttir Skoðun Hunsuðu menntamálin – en ætla nú að bjarga þeim Sigurður Kári Harðarson Skoðun Skoðun Skoðun Þjóð gegn þjóðarmorði Finnbjörn A. Hermannsson,Guðrún Margrét Guðmundsdóttir skrifar Skoðun Hvað er eiginlega málið með þessa þéttingu?? Einar Sveinbjörn Guðmundsson skrifar Skoðun Mikilvægi aðgengis og algildrar hönnunar að byggingum í dag og til framtíðar Þuríður harpa Sigurðardóttir skrifar Skoðun Eitt próf á ári – er það snemmtæk íhlutun? Íris E. Gísladóttir skrifar Skoðun Þegar öllu er á botninn hvolft Ingólfur Sverrisson skrifar Skoðun Kynbundin áhrif barneigna á atvinnuþátttöku og tekjur Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,Steinunn Bragadóttir skrifar Skoðun Viltu finna milljarð? - Frá gráu svæði í gagnsæi Gunnar Pétur Haraldsson skrifar Skoðun Ný sókn í menntamálum – tækifæri eða hliðarskref? Ingibjörg Isaksen skrifar Skoðun Á hvaða ári er Inga Sæland stödd? Snorri Másson skrifar Skoðun Eru börn innviðir? Hjördís Eva Þórðardóttir skrifar Skoðun Háskólaþorpið Bifröst og fólkið sem gleymdist Margrét Jónsdóttir Njarðvík skrifar Skoðun Körfubolti á tímum þjóðarmorðs Bjarni Þór Sigurbjörnsson skrifar Skoðun Draugagangur í Alaska Hannes Pétursson skrifar Skoðun Loftslagsverkfræði: Verkefni sem borgar sig ekki að láta bíða Snjólaug Árnadóttir,Páll Gunnarsson skrifar Skoðun Hoppað í drullipolli við hliðina á Snorra Mássyni. Um allskonar fólk, líka í Miðflokknum Ægir Lúðvíksson skrifar Skoðun 76 dagar Erlingur Sigvaldason skrifar Skoðun Í minningu körfuboltahetja Snæbjörn Guðmundsson skrifar Skoðun Er kominn tími til að láta endurmeta brunabótamatið á þínu húsnæði? Heiðrún Jónsdóttir skrifar Skoðun Húsnæðisbæturnar sem hurfu Ragnar Sigurður Kristjánsson skrifar Skoðun Ákall til KKÍ og íslensku íþróttahreyfingarinnar Ragnhildur Hólmgeirsdóttir,Oddný Björg Rafnsdóttir,Svanhildur Anja Ástþórsdóttir,Guðjón Magnússon,Margrét Rut Eddudóttir skrifar Skoðun Hjartans mál í kennslu Sigurður Árni Reynisson skrifar Skoðun Hunsuðu menntamálin – en ætla nú að bjarga þeim Sigurður Kári Harðarson skrifar Skoðun Sporin þín Valtýr Soffía Sigurðardóttir skrifar Skoðun Að saga rótina undan trénu og halda að stofninn vaxi hraðar: hugleiðing um tillögur Viðskiptaráðs Birgir Orri Ásgrímsson skrifar Skoðun Mikilvægi aðgengis og algildrar hönnunar að byggingum í dag og til framtíðar Þuríður Harpa Sigurðardóttir skrifar Skoðun Sjallar og lyklaborðið Sigfús Ómar Höskuldsson skrifar Skoðun Fimm af tíu veitingastöðum hættu með hvalkjöt Valgerður Árnadóttir,Stefán Yngvi Pétursson,Rósa Líf Darradóttir,Anahita S. Babaei skrifar Skoðun „Stóra fallega frumvarpið“ hans Trump Gunnar Alexander Ólafsson skrifar Skoðun Verndun vatns og stjórn vatnamála Ólafur Arnar Jónsson,Sigurður Guðjónsson skrifar Skoðun Gegn hernaði hvers konar Gunnar Björgvinsson skrifar Sjá meira
I Eftir lok heimsstyrjaldarinnar síðari voru stofnuð í Austur-Evrópu svokölluð alþýðulýðveldi. Það voru gervilýðveldi; einn stjórnmálaflokkur (kommúnistaflokkur) og leynilögregla hans fóru með æðstu völd og lágu á hleri við hvers manns dyr. Þessi lýðveldi lutu nær öll yfirumsjón valdhafa í Kreml, enda á því landabelti sem taldist áhrifasvæði Rússa eftir stríðslok. Lýðveldi alþýðunnar voru þeirrar náttúru að í hvert skipti sem borgararnir kröfðust aukinna lýðréttinda var því svarað beint frá Moskvu með hernaði. Einkum þótti vel gefast að aka skriðdrekum á manngrúa í stórborgum. Öll heimsbyggðin varð vitni að þessháttar aðförum í Austur-Þýzkalandi 1953, Ungverjalandi 1956 og Tékkóslóvakíu 1968. Margt manna var þá drepið, limlest eða fangelsað í þágu gervilýðveldanna og héngu þau saman óbreytt enn um sinn. Svo kom þar að Sovétríkin sjálf morknuðu í sundur innan frá, Berlínarmúrinn var brotinn niður haustið 1989, tákn valdakerfis Rússa, og fór þá skjótt hvert alþýðulýðveldið af öðru í kássu. En allmargar þjóðir Austur-Evrópu náðu nýrri viðspyrnu þegar þær slitu sig úr taumhaldi valdsherranna í Moskvu. Hin heimspólitísku þáttaskil urðu svo snögg að undrum sætir. Í Rússlandi gerðist það aftur á móti að leyniþjónustan, í félagi við olígarka og rússnesku rétttrúnaðarkirkjuna, færði sér upplausn ríkisins í nyt og varð úr kerfi sem kallast Sambandslýðveldið Rússland eða eitthvað þessháttar; og er gervilýðveldi með nýju sniði að því marki að nú er klerkavaldið haft með í steypunni. Í þessu kerfi heyja menn þjóðþing til málamynda, því forseti landsins er orðinn í reynd einráður. Hvers kyns andóf og múður heima fyrir gegn kerfinu er barið niður miskunnarlaust með drápum og harðræði í fangelsum, allt eftir hefð í gervilýðveldum. Þrautreyndur leyniþjónustumaður, í senn löglærður og hagfræðimenntaður, sem starfaði árin 1985-1990 í Austur-Þýzkalandi hinu sáluga (sat í Dresden), Vladímír Pútín, hefur lengi undanfarið haft forsetavald í þessu járnbenta lögregluríki undir krossi rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar. Yfir þá kirkju var settur gamall erindreki í sovésku leyniþjónustunni, KGB-maðurinn Kirill patríarki. Hann þvær af Pútín hvaða ódæði sem er jafnóðum með blessun í drottins nafni. Mjög þarfur maður á réttum stað. Auk þess kallar Pútín stundum á sjónvarpsmenn þegar hann gengur í kirkju, kveikir á löngu og mjóu kerti frammi fyrir helgimynd og signir sig. Það er eitthvert skemmtilegasta bíó sem völ er á. Pútín forseti kann mörg slægðarbrögð eins og leyniþjónustumanni sæmir. Honum tókst að ná hylli Borísar Jeltsíns, hæstráðanda til sjós og lands, þegar ringulreiðin eftir hrun Sovétríkjanna var með ósköpum og slungnir gaurar klófestu auðlindir ríkisins hverja af annarri fyrir skít og ekki neitt. Pútín komst til valda í Kreml að undirlagi Jeltsíns sem stóð á þeim tíma varla í lappirnar sökum langvarandi ofdrykkju. Hann lét af embætti síðla árs 1999 og nokkrum vikum seinna, sjálft aldamótaárið, var Pútín kjörinn forseti Rússlands. II Vladímír Pútín hafði ekki gegnt forsetaembætti nema skamma hríð þegar hann flutti langa ræðu í þéttskipaðri málstofu þýzka þingsins („Bundestag“) í Berlín. Þar stóð hann við púlt, viðfelldinn maður í sjón, ágætlega mæltur á tungu heimamanna og boðaði að Rússland hið nýja myndi vinna með öðrum ríkjum álfunnar að smíði hins „evrópska húss“ eins og hann tók til orða á líkingamáli. Það var að heyra sem nú skyldu blíðir vestanvindar leika um Rússíu! Nei, hitt er miklu sennilegra að þessi biskupsboðskapur Pútíns hafi verið einber tálbeita, því Rússland þarfnaðist velvildar og næðis meðan verið væri að ræsa fram fúamýrar sovétskipulagsins, komast þar niður á fast. Pútín hefur oftar en einu sinni sagt gjörvöllu mannkyni að hrun Sovétríkjanna sé alversta stórslysið í sögu 20. aldar. Og hann á sér eina meginhugsjón: endurreisn þess veldis undir nýrri kennitölu. Nokkru eftir að Pútín talaði til þingheims í Berlín hélt hann aftur ræðu á þýzkri grund (mig minnir árið 2007), en í það skiptið á móðurmáli sínu. Þetta var á hinni alþjóðlegu öryggisráðstefnu sem haldin er í München ár hvert. Og nú var komið annað hljóð í smjörstrokkinn. Svipþungur og af miklum hug þrumaði Pútín út úr sér vandlætingu á þeirri skipan heimsmála sem við lýði væri og þjónaði framar öllu vestrænum veldum; tími væri til kominn að breyta því, m.a. í þágu Rússlands. Og svo framvegis. Ýmsir fróðir menn líta svo á að ræða þessi marki þáttaskil: þar hafi Pútín „komið út úr skápnum“, þ.e. sett fram, skipulega og í áheyrn veraldar, ætlun sína um nýtt heimsveldishlutverk Rússlands, reist á þjóðrembulegum slavisma af gamalli sort, svo eitthvað sé nefnt. III Svo liðu árin. Og víkur nú sögunni til Alaska. Hinn 15. ágúst síðastliðinn komu þar saman til fundar þeir forsetarnir Donald Trump („leiðtogi hins frjálsa heims“ eins og vant er að kalla þá sem gegna forsetaembætti í Bandaríkjunum) og Vladímír Pútín. Á dagskrá voru einkum málefni Úkraínu. En litlu áður en fundurinn hæfist og Pútín kæmi á vettvang sté út úr flugvél sauðtryggur hestasveinn hans, Sergej Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, klæddur hvítum skyrtubol og hafði Pútín látið letra framan á bringustykkið skammstöfun Sovétríkjanna gömlu rétt eins og á hvert annað auglýsingaskilti. Þarna gekk Lavrov leiðar sinnar, draugur nýstiginn upp úr gröf kalda stríðsins og með þau boð frá Pútín að nú sæti stórveldi stalínismans aftur við taflborð sögunnar. Þetta átti sér stað innan bandarískrar herstöðvar. En ballið var ekki búið, því brátt sté Pútín úr flugvél sinni, gekk rösklega eftir rauðum dregli til móts við Trump sem heilsaði honum svo hjartanlega að sjálfur Gabríel erkiengill, beint af himnum kominn með guðs erindi, hefði ekki getað vænzt hlýlegri viðtöku á bandarískri grund. Þess skal getið að þegar hér er komið endurreisn hins stalíníska gervilýðveldis Í Rússlandi sætir Vladímír Pútín ákæru alþjóðaglæpadómstólsins fyrir glæpi gegn mannkyni og getur ekki ferðazt óhultur um mikinn hluta jarðar, yrði handtekinn þar samstundis. Þannig er draugurinn Pútín, leikinn í Alaska af Lavrov utanríkisráðherra, ekki aðeins draugur aftan úr stalínismanum, heldur og misindisdraugur samkvæmt dómsákæru og mun það vera einsdæmi í draugasögum. IV Stórveldisáætlun Rússa, eftir teikningum Pútíns, hefur í vesturátt náð fram að ganga að því leyti að Hvíta-Rússland er orðið það leppríki, sú frystigeymsla sem hann gerir sig ánægðan með í bili. Verr spilaðist úr þegar fara átti sömu leið í Úkraínu, þótt enn standi það til. Að sjálfsögðu var fyrsta skrefið að fótum troða þá yfirlýsingu („memorandum“) sem Rússland, Bandaríkin og Bretland gáfu út sameiginlega 5. desember 1994 og kennd er við Búdapest. Þetta voru ríkin sem véluðu um landaskipan á meginlandi Evrópu við lok heimsstyrjaldarinnar. Þeir sem rituðu nöfn sín á skjalið fyrir hönd þríveldanna voru þessir: Boris Jeltsín Rússlandsforseti, Bill Clinton Bandaríkjaforseti, John Major forsætisráðherra Bretlands. Í yfirlýsingunni hétu ríkin því að virða í hvívetna landamæri og fullveldi þriggja fyrrverandi sovétlýðvelda gegn því að þau afsöluðu sér öllum kjarnorkuvopnum á sínu landi frá tímum Sovétríkjanna. Hin nýju ríki voru Úkraína, Hvíta-Rússland og Kasakstan. Úkraína var eitt mesta kjarnorkuvopnabúr heims, en ráðamenn þar töldu fullkomið hald í öryggistryggingu þríveldanna, létu öll kjarnorkuvopn af hendi og væntu í staðinn frelsis og friðar. En það reyndust tálvonir einar eftir valdatöku Pútíns. Hann tók þegar við fyrstu hentugleika að ýta undir ókyrrð í austurhéruðum Úkraínu þar sem býr rússneskumælandi minnihluti þjóðarinnar, allt í því skyni að veikja úkraínska ríkið sér í hag. Úr þessu urðu þrætur sem reynt var að leysa diplómatískt (það þóf hefur verið kennt við Minsk), en kom fyrir ekki, m.a. vegna þess að Pútín hvíslaði því að aðskilnaðarsinnum í austurhéruðunum að krefjast neitunarvalds í utanríkismálum Úkraínu! Vitaskuld fær ekkert ríki staðizt, ef lítill minnihluti hefur neitunarvald í slíkum grundvallarefnum. Og samkvæmt ráðagerð herti Pútín jafnt og þétt ásókn sína í Úkraínu. Hann hugðist koma til valda í Kænugarði leppstjórn með gamla laginu, en meginhluti úkraínsku þjóðarinnar hafði fengið meira en nóg af Rússaveldi, væmdi við því, og stefndi þess í stað að nýju þjóðlífi í sátt við vestræn lýðræðisríki. Náði andúðin á ásælni Rússa hæstum hæðum í þeim stórbrotnu mótmælum sem urðu í Úkraínu veturinn 2013-14. Viljastyrkur úkraínskra borgara fór þá sem logandi kyndill um heim allan. Atburðarásin leiddi síðan til þess að Vólódímír Selenskí, frambjóðandi frelsissinna, var þjóðkjörinn forseti Úkraínu með glæsilegum yfirburðum. V Að vonum hnyklaði Pútín mjög brúnir yfir þróun mála í Úkraínu, landi sem hann hafði einsett sér að ræna. Og til þess nú að verða ekki of seinn fyrir með það hertók hann undir lok febrúarmánaðar 2014 Krímskaga með mikilli slægð, því honum leizt ekki á, ef rússneski flotinn missti aðgengi að herskipahöfnum við Svartahaf. Þetta var fyrsti áfanginn, bráðnauðsynlegur. Jafnframt efldi Pútín aðskilnaðarsinna í austurhéruðum Úkraínu að vopnum og liðsauka. Og hófst þá, 2014, sá hernaður Rússa gegn Úkraínumönnum, ættjörð þeirra, lífi og eignum, sem enn stendur. En þó svo barizt væri missiri eftir missiri austast í Úkraínu varð Pútín lítt ágengt; landvinningar ekki til að státa af og gekk því hægar en í ráði var að sölsa undir sig auðlindir í úkraínskri jörð eða hin óravíðu og sífrjóu akurlönd, „brauðkörfu heimsins“. Og svo þetta lýðfrelsiskjaftæði í Kænugarði. Pútín varð ljóst að nú gagnaðist ekkert minna en góða sovétaðferðin sem notuð var til að binda enda á þess háttar kjaftæði í Austur-Berlín 1953, Búdapest 1956, Prag 1968, en í efsta veldi. Þegar Pútín braut alþjóðalög og stofnskrá Sameinuðu þjóðanna með því að slá eign sinni á Krímskaga hafði hann ákveðið að Úkraína væri ekki til sem ríki meðal ríkja. Hann gaf yfirlýsingu Rússlandsforseta í Búdapest 1994 langt nef. Hvers var annars að vænta af KGB-manni? Hann var kominn á fullan skrið. Og veturinn 2021-2022 dró hann saman ofurefli liðs til storkunar Úkraínumönnum. En hvar? Jú, við landamærin að Úkraínu, ríki sem þó var ekki til! Fullyrðing Pútíns varð um leið sjálfri sér sundurþykk, því ríki sem er ekki til á sér vitanlega engin landamæri. Og Sergej Lavrov féll í sama pytt þegar fréttamaður spurði hann hvort Rússar hygðu á innrás í Úkraínu. Lavrov aftók það, sagði að þarna ættu sér stað heræfingar innan rússneskra landamæra sem útlendingum kæmu ekkert við. Í svarinu fólst óvart sú játning að Úkraína ætti löghelg landamæri að Rússlandi! Í febrúarmánuði 2022 gerðu Rússar svo allsherjarinnrás í Úkraínu eins og menn sáu fyrir, lygamunnur á borð við Sergej Lavrov breytti engu um það. Pútín strangbannaði þegnum sínum að kalla innrásina stríð, enda var honum ógerlegt að lýsa stríði á hendur ríki sem hann sagði að væri ekki til, heldur skyldi hvers konar eyðilegging mannvirkja í Úkraínu, öll manndráp, allt brottnám barna í stórhópum til Rússlands, allar nauðganir kallast „sérstök hernaðaraðgerð“. Kirill patríarki hefur margblessað þessa áætlun fyrir hönd Rússlands, hinnar miklu Móður. VI Þeir sem hafa fylgzt með heimsfréttum hljóta að muna að innrás Rússa í Úkraínu hófst sem leiftursókn („Blitzkrieg“) að hætti þýzkra nazista forðum. Ráðizt var á flugvöllinn í Kænugarði úr lofti, en úr norðri streymdu skriðdrekafylkingar í átt til höfuðborgarinnar. Þetta átti að vera kverkatak sem gert hafði sitt gagn eftir þrjá til fjóra daga. En úkraínski herinn reyndist snarpari fyrir og þróttmeiri en Pútín bjóst við og snerist leifturstríð hans upp í sneypuför. Hann lét því færa til vígstöðvanna í Austur-Úkraínu það sem eftir var af heraflanum. Og allt síðan þá hafa verið háðir harðir bardagar þar um slóðir, Rússar sent nýjan og nýjan liðsauka til vígstöðvanna í Austur-Úkraínu og gert linnulausar loftárásir á borgir og bæi og útatað með jarðsprengjum stór landflæmi. Hin „sérstaka hernaðaraðgerð“ er orðin þeim margfalt örðugri og dýrkeyptari en þá óraði fyrir í upphafi, því Úkraínumenn, þótt liðfærri séu, hafa varið ættjörð sína, frelsi og framtíð, af hinni mestu hreysti, studdir vinaþjóðum sem lagt hafa þeim til vopn og fjármuni og fleira í þarfir ríkisins, enda fylgir því óheyrilegur kostnaður að heyja styrjöld ár eftir ár. Þessar vinaþjóðir skeyttu sem betur fer í engu þeirri hótun Pútíns við upphaf innrásarinnar að hver sá hlyti verra af sem rétti Úkraínumönnum hjálparhönd, tæpti meira að segja á atómstyrjöld, yrði rússnesk jörð fyrir skoti í átökunum. Þarna, eins og oftar, setti Pútín vilja sinn ofar alþjóðalögum; þjóð sem verður fyrir hernaðarinnrás er leyfilegt að verjast með tiltækum ráðum. Hlálegast er þó að Pútín sjálfum þykir í góðu lagi að leita liðsinnis annarra í hernaði sínum gegn Úkraínu; hefur keypt af Írönum ósköpin öll af vígtólum, einnig Norður-Kóreu; auk þess fengið sendar þaðan úr austri nokkrar þúsundir soldáta til slátrunar í fremstu víglínu og getað létt á herkvaðningu heima fyrir sem því svarar. Annars er það í skemmstu máli að segja um stríðs-ávörp Pútíns að þau eru gegnsúrsuð rússnesku þjóðernisdrambi og fyrirlitningu á vestrænu lýðræði og þjóðlífsháttum. Allt er heilagt og heilbrigt í Rússlandi, allt vanheilagt og spillt vestan landamæra þess. Pútín hefur í ávörpum sínum (og að því er virðist sér til málsbóta) haft á orði að Rússar og Úkraínumenn séu ein þjóð. Það eru lygar. En trúi Pútín þessu í raun og veru, þá er hin „sérstaka hernaðaraðgerð“ ennþá neðar allri viðurstyggð en ella, hún er þá aðför að eigin þjóð, bróðurmorð. Raunar hefur Pútín þjálfun til slíkra böðulsverka, því hann studdi Assad Sýrlandsforseta óspart þegar sá harðstjóri háði djöfullegt stríð gegn þjóð sinni. Pútín lét þá vélar úr rússneska flughernum ausa eldi og brennisteini yfir borgir og byggðir Sýrlands unz þær lágu í rjúkandi rústum. Þetta var innt af hendi í þakkarskyni fyrir flotahöfn Rússa í Sýrlandi, einu herskipahöfn þeirra við Miðjarðarhaf. Nú er Assad flúinn úr landi, hefur holað sér niður í Moskvu, þess fullviss að verða ekki framseldur, þurfa aldrei að gjalda neitt fyrir illvirki sín. Pútín sér um það. VII Það sem tínt hefur verið til hér að framan er aðeins brot alls þess sem flaug gegnum hug manns þegar Donald Trump og Vladímír Pútín heilsuðust með miklum kærleikum á rauða dreglinum í Alaska. Þeir brostu sínu blíðasta hvor til annars og Trump lét ekki duga að taka í hönd á gesti sínum, heldur klappaði honum líka á handarbakið. Eftir það héldu þeir til fundarins, hlið við hlið í sérbifreið Trumps. Bræðralagið mátti ekki fara framhjá neinum. Fundurinn varð styttri en menn ætluðu, þó nógu langur til þess að Pútín tækist að hræra svo í heilagraut Trumps að Bandaríkjaforseti var orðinn að páfagauk á öxl Rússlandsforseta þegar þeir tveir birtust á sviði frammi fyrir fréttamönnum eftir fundarlok. Að vísu hafði Trump oft áður étið upp falsrök Rússa fyrir hernaði sínum gegn Úkraínumönnum, en nú át hann líka upp sjálfa áætlun þeirra samkvæmt vígstöðunni eins og hún er og gerði að sinni, þ.e. að sleppa skilyrðislausu vopnahléi (deginum áður var skilyrðislaust vopnahlé meginkrafa Trumps), en stefna þess í stað að friðarsamningum eins fljótt og auðið væri. Sú áætlun veitir Rússum færi á að berjast eins og þá lystir, samtímis því sem þeir draga eftir geðþótta á langinn viðræður um frið. Annaðhvort sá Trump ekki í gegnum þetta leikbragð eða Pútín fengið hann með flærðarfullum viðskiptaloforðum til að samþykkja það. Hvernig skyldi ganga að gera endanlega friðarsamninga meðan barizt er og víglínan á stöðugri hreyfingu? VIII Donald Trump er ekki af sömu ættkvísl drauga og Vladímír Pútín, hann er fédraugur aftan úr tollmúratímanum og skilur í utanríkismálum ekki upp né niður í neinu nema það hafi áður verið umreiknað handa honum í dollara. Og nú hefur hann látið umreikna fyrir sig Úkraínustríðið og dauðsér eftir þeim fjármunum sem Bandaríkin hafa reitt fram í þágu frelsis og fullveldis Úkraínu, þótt þeir séu stórum minni sem hlutfall af vergri landsframleiðslu en framlag margra annarra ríkja, nálægt hálfu prósenti þegar ég vissi síðast. Trump hefur heimtað að fá aðstoðina endurgreidda, kallar Úkraínustríðið til heimabrúks „stríð Bidens“, ekki „stríð Pútíns“, segir að aldrei myndi komið hafa til þessa stríðs, hefði hann setið í Hvíta húsinu. Sennilega er það rétt, Pútín hefði þá bardagalaust fengið Úkraínu afhenta, heila og óskipta, gegn góðum námuvinnsludíl til 99 ára og fleiri fríðindum. Þetta gaf Pútín sjálfur í skyn í smeðjulegu ávarpi sínu á sviðinu í Alaska. Þar talaði hann tungumjúkur um sameiginlega hagsmuni Rússlands og Bandaríkjanna og hélt á meðan niðri í sér ælunni, þ.e. ógeðinu á vestrænu stjórnarfari og vestrænum ítökum í veröldinni, ógeði sem hann heldur ekki aftur af úr valdasæti sínu heima í Rússlandi. Að einu leyti kom Pútín þó fram í Alaska eins og hann er klæddur: Hann sagði allar umkvartanir (eða kröfur á hans máli) Rússa væru enn þær sömu og við upphaf átakanna í Úkraínu. Raunar eru þetta úrslitakostir af þeirra hálfu. Trump féllst á þá í verulegum atriðum. Eina af umkvörtunum Rússa get ég ekki stillt mig um að nefna nú þegar: Pútín hefur klifað á því að Atlantshafsbandalagið þrengi svo mjög að Rússlandi að ekki sé líðandi að Úkraína fái nokkurn tíma aðild að þeim samtökum. Undir þetta tekur Trump og ýmsir pokabiskupar í valdaklíku hans. Frá þeim heyrist að engin von sé til þess að Rússar þoli Nató „alveg fast upp við þröskuldinn hjá sér“. Má skilja þetta svo að þann þröskuld sé hvergi að finna annars staðar en í Úkraínu. Þó vill þannig til að á fundi Trumps með nokkrum evrópskum þjóðarleiðtogum í Hvíta húsinu 18. ágúst síðastliðinn greindi Alexander Stubb, forseti Finnlands, hátt og skýrt frá því beint fyrir framan nefið á Trump að Natóþjóðin Finnar ættu landamæri að Rússlandi sem væru á annað þúsund kílómetrar að lengd. Hvers vegna líða Rússar það? Kalíníngrad er síðan kapítuli út af fyrir sig. Kalíníngrad? Hvaða staður er það? Jú, Kalíníngrad er norðurhluti Austur-Prússlands (suðurhlutinn er nú innan pólskra landamæra) og var í þýzka ríkinu fram til styrjaldarloka 1945. Þá heimtaði Stalín sneið af Austur-Prússlandi og fékk hana með góðu samþykki Bandaríkjamanna og Breta. Stalín vantaði nefnilega „íslausa“ höfn við Eystrasalt og hafði augastað á hinni fornfrægu hafnarborg Austur-Prússlands, Königsberg. Rússar gáfu landshlutanum bráðlega nýtt nafn (létu heita eftir Míkhaíl Kalínín, nýdauðum), en hafa gert meira: breytt Kalíníngrad í eitt af sínum válegustu víghreiðrum. Og kemur nú rúsínan fræga í pylsuendanum: Þegar Sovétríkin og þar með Varsjárbandalagið moluðust í sundur og Eystrasaltslönd og Pólland náðu aftur frelsi sínu og gengu í Atlantshafsbandalagið, þá sat Kalíníngrad eftir sem hólmi innan vébanda Natóríkja! Og hafa því herskáir Rússar stundum vakið athygli Evrópubúa á því með háðsyrðum hve góð vígstaðan sé í Kalíníngrad, hve mjög hún stytti leið rússneskra atómflauga til helztu höfuðborga óvina í álfunni, tilgreina hverja vegalengd fyrir sig í mínútum, 4 mínútur í þennan stað, 5 mínútur í hinn og annað eftir því. Vígstöðu Rússa í Kalíníngrad má líkja við það að Nató réði yfir álitlegri landspildu skammt suðaustan St. Pétursborgar og hefði birgt sig þar upp af öllum þeim vopnum og búnaði sem heyrir til nútímahernaði. Gæti Pútín haft nokkuð við það athuga, fyrst honum þykir ekki umtalsvert að eiga innan sjálfra vébanda Nató slíkt víghreiður dauða og djöfuls sem Kalíníngrad? IX Augljóst hernaðarmarkmið Pútíns Rússlandsforseta er að leggja Úkraínu alla að fótum sér. Hann bjóst við að það yrði svo til ókeypis, ein leiftursókn inn í landið dygði. En öðruvísi fór. Þó hefur honum, með geypilegum herkostnaði og mannfalli, tekizt að setja klærnar í stór héruð austanvert í Úkraínu, innlimað þau í Rússland eftir „kosningar“ sem hann lét halda þar. Pútín setur að skilyrði að landrán þetta verði í friðarsamningum talið lögmætt, gott og blessað í alla staði; krefst þar á ofan lands sem rússneski herinn hefur ekki enn náð á sitt vald og liggur vestan núverandi víglínu, mjög víggirt og hernaðarlega mikilvægt. Trump dregur taum Pútíns í þessum málatilbúnaði. Honum líka vel öll landrán, hefur sjálfur í hyggju að ná undir sig Panamaskurðinum, Kanada, Grænlandi og Gaza. Það vefst því ekki fyrir honum að ónýta undirskrift Clintons í Búdapest-skjalinu árið 1994. Annars hefur Trump í nógu að snúast innanlands, hann hamast við að gera Bandaríkin að mesta gervilýðveldi heims eftir forskrift gamalla Moskvumanna, enda hófst gullöld Bandaríkjanna á nákvæmlega sama mínútubroti og hann sór embættiseið fyrr á þessu ári, að hans eigin sögn. Já, ekki ber allt upp á sama daginn, stendur þar. Og manni verður hugsað til Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Mikil skelfingar ósköp hefur það apparat gengið sér til húðar, ekki sízt fyrir tilverknað Rússa og Bandaríkjamanna sem misbeitt hafa neitunarvaldi sínu hvað eftir annað og níðzt á þeim alþjóðalögum og rétti sem þeim var trúað til að vernda. Persónugervingar þeirrar valdníðslu heilsuðust með virktum á rauða dreglinum í Alaska. Höfundur er rithöfundur.
Hoppað í drullipolli við hliðina á Snorra Mássyni. Um allskonar fólk, líka í Miðflokknum Ægir Lúðvíksson Skoðun
Loftslagsverkfræði: Verkefni sem borgar sig ekki að láta bíða Snjólaug Árnadóttir,Páll Gunnarsson Skoðun
Ákall til KKÍ og íslensku íþróttahreyfingarinnar Ragnhildur Hólmgeirsdóttir,Oddný Björg Rafnsdóttir,Svanhildur Anja Ástþórsdóttir,Guðjón Magnússon,Margrét Rut Eddudóttir Skoðun
Skoðun Mikilvægi aðgengis og algildrar hönnunar að byggingum í dag og til framtíðar Þuríður harpa Sigurðardóttir skrifar
Skoðun Kynbundin áhrif barneigna á atvinnuþátttöku og tekjur Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,Steinunn Bragadóttir skrifar
Skoðun Loftslagsverkfræði: Verkefni sem borgar sig ekki að láta bíða Snjólaug Árnadóttir,Páll Gunnarsson skrifar
Skoðun Hoppað í drullipolli við hliðina á Snorra Mássyni. Um allskonar fólk, líka í Miðflokknum Ægir Lúðvíksson skrifar
Skoðun Er kominn tími til að láta endurmeta brunabótamatið á þínu húsnæði? Heiðrún Jónsdóttir skrifar
Skoðun Ákall til KKÍ og íslensku íþróttahreyfingarinnar Ragnhildur Hólmgeirsdóttir,Oddný Björg Rafnsdóttir,Svanhildur Anja Ástþórsdóttir,Guðjón Magnússon,Margrét Rut Eddudóttir skrifar
Skoðun Að saga rótina undan trénu og halda að stofninn vaxi hraðar: hugleiðing um tillögur Viðskiptaráðs Birgir Orri Ásgrímsson skrifar
Skoðun Mikilvægi aðgengis og algildrar hönnunar að byggingum í dag og til framtíðar Þuríður Harpa Sigurðardóttir skrifar
Skoðun Fimm af tíu veitingastöðum hættu með hvalkjöt Valgerður Árnadóttir,Stefán Yngvi Pétursson,Rósa Líf Darradóttir,Anahita S. Babaei skrifar
Hoppað í drullipolli við hliðina á Snorra Mássyni. Um allskonar fólk, líka í Miðflokknum Ægir Lúðvíksson Skoðun
Loftslagsverkfræði: Verkefni sem borgar sig ekki að láta bíða Snjólaug Árnadóttir,Páll Gunnarsson Skoðun
Ákall til KKÍ og íslensku íþróttahreyfingarinnar Ragnhildur Hólmgeirsdóttir,Oddný Björg Rafnsdóttir,Svanhildur Anja Ástþórsdóttir,Guðjón Magnússon,Margrét Rut Eddudóttir Skoðun