Erlent

Er við góða líkam­lega heilsu en heilinn að „bregðast honum“

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Bruce og Emma árið 2019, áður en Bruce greindist.
Bruce og Emma árið 2019, áður en Bruce greindist. Getty/Jamie McCarthy

Bruce Willis er við góða líkamlega heilsu en heilinn er að „bregðast honum“ og hann er hættur að geta tjáð sig með orðum. Þetta segir eiginkona leikarans, Emma Heming Willis, í nýju viðtali við fjölmiðlakonuna Diane Sawyer.

Heming Willis segir fjölskylduna hafa fundið nýjar leiðir til að eiga samskipti við Bruce, sem var greindur með framheilabilun fyrir nokkrum árum. Hún segir fyrstu einkennin hafa lýst sér þannig að Bruce hafi hætt að tala jafn mikið og hann gerði og farið inn í sig þegar fjölskyldan hittist.

„Hann virtist fjarlægður, svolítið kaldur, ekki eins og Bruce sem var afar hlýr og innilegur. Að sjá andstæðuna var truflandi og ógnvekjandi,“ segir hún.

Heming Willis segir að enn komi dagar, eða augnablik, þar sem hún sér í gamla Bruce. Það sé aðallega þegar hann hlær, þá birtist aftur kunnuglegt glit í augunum hans. Það sé þó jafn fljótt að fara og það kom.

Heming Willis hefur ritað bók um reynslu síðustu ára, Unexpected Journey: Finding Strength, Hope and Yourself on the Caregiving Path. Hún kemur út 9. september næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×