Innlent

Skýrslur teknar af tíu börnum undir sex ára á síðustu 20 árum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Leiðbeinandi á Múlaborg, sem grunaður er um kynferðisofbeldi, er sagður hafa verið undir sérstöku eftirliti um tíma vegna sérkennilegs háttalags.
Leiðbeinandi á Múlaborg, sem grunaður er um kynferðisofbeldi, er sagður hafa verið undir sérstöku eftirliti um tíma vegna sérkennilegs háttalags. Vísir/Anton Brink

Á síðastliðnum 20 árum hafa skýrslur verið teknar af tíu börnum undir sex ára aldri vegna gruns um að þau hafi orðið fyrir kynferðisofbeldi af hálfu starfsmanns á leikskóla þeirra.

Frá þessu greinir Morgunblaðið, sem vísar í svör Barna- og fjölskyldustofu við fyrirspurn blaðsins.

Fimm barnanna gátu staðfest að þau hefðu orðið fyrir broti en í fimm tilvikum tókst ekki að staðfesta meint brot. Segir Barna- og fjölskyldustofa að sökum ungs aldurs hafi börnin átt erfitt með að gefa greinargóða lýsingu á meintum brotum.

Maður er í haldi lögreglu grunaður um kynferðisbrot gegn barni á leikskólanum Múlaborg, þar sem viðkomandi starfaði í tvö ár. 

Vísir greindi frá því um helgina að foreldri annars barns á leíkskólanum hefði tilkynnt lögreglu að mögulega hefði einnig verið brotið gegn viðkomandi barni.

Kristján Ingi Kristjánsson, lögreglufulltrúi í kynferðisbrotadeild, staðfestir í samtali við Morgunblaðið að lögreglu hafi borist ábendingar um möguleg brot starfsmannsins gegn fleiri börnum.

„Við höfum fengið fleiri ábendingar um atvik sem gætu verið brot og gætu einnig ekki verið brot. Það er verið að skoða það,“ hefur blaðið eftir Kristjáni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×