Innlent

Enginn hand­tekinn vegna þjófnaðar á hrað­banka í Mos­fells­bæ

Lovísa Arnardóttir skrifar
Hjördís Sigurbjartsdóttir, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, stýrir rannsókn lögreglu á þjófnaðinum.
Hjördís Sigurbjartsdóttir, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, stýrir rannsókn lögreglu á þjófnaðinum. Sýn

Enginn hefur enn verið handtekinn vegna þjófnaðar á hraðbanka í Mosfellsbæ í gær. Milljónir voru í hraðbankanum. Hjördís Sigurbjartsdóttir, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við fréttastofu að ekkert nýtt sé að frétta af rannsókn lögreglunnar.

Hraðbankaþjófnaðurinn átti sér stað í hraðbankaútibúi Íslandsbanka í Þverholti Mosfellsbæjar aðfaranótt mánudags. Lögregla fékk tilkynningu um málið klukkan 4:14 en þjófarnir notuðu gröfu sem þeir stálu af framkvæmdasvæði í Blikastaðalandi til að stela hraðbankanum. Grafan fannst skammt frá.

Ekki eru til upptökur af þjófnaðinum sjálfum en til eru einhverjar upptökur af þjófunum aka gröfunni í gegnum bæinn á leið sinni í Þverholt.

Húsleit með sérsveit

Lögregla framkvæmdi í gær, með aðstoð sérsveitar, tvær húsleitir í tengslum við rannsókn sína á málinu. Önnur var á heimili Stefáns Blackburn. Stefán er einn fimm sakborninga í Gufunesmálinu svokallaða og var ákærður fyrir manndráp, fjárkúgun og frelsissviptingu og er því í gæsluvarðhaldi og var ekki heima þegar húsleitin fór fram.

Stefáni er í málinu gefið að sök að hafa numið mann á sjötugsaldri á brott af heimili hans í Þorlákshöfn að kvöldi 10. mars síðastliðinn og beitt hann margvíslegu ofbeldi með það að markmiði að hafa af honum fé. Maðurinn sem varð fyrir árásinni fannst illa haldinn í Gufunesi morguninn eftir og lést skömmu síðar.

Hjördís sagði í kvöldfréttum Sýnar í gær að engar vísbendingar væru um tengsl í þessum tveimur málum. Hún sagði jafnframt lögreglu hafa fengið fjölda ábendinga og vinni að því að fara í gegnum myndefni sem þeim hefur borist af þjófunum við verknaðinn. Hún sagði jafnframt lögreglu hafa ákveðna einstaklinga grunaða en enginn hefur enn verið handtekinn.


Tengdar fréttir

Húsleit á heimili þekkts brotamanns

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur farið í tvær húsleitir með aðstoð sérsveitar í dag vegna rannsóknar sinnar á þjófnaði úr hraðbanka í Mosfellsbæ í nótt. Samkvæmt heimildum fréttastofu býr Stefán Blackburn, þekktur brotamaður, á öðru heimilinu sem lögreglan heimsótti í dag.

Bubbi segir Hróa Hattar-brag á stuldinum

Bubbi Morthens, einn ástsælasti tónlistarmaður þjóðarinnar, hefur tjáð sig um hraðbankaþjófnað sem varð í Mosfellsbæ í nótt. Bubbi segir stuldinn hafa minnt sig á goðsagnapersónuna Hróa Hött.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×